Kjarabaráttan: Efling vs. Reykjavíkurborg

Sigrún Edda Sigurjónsdóttir skrifar um yfirstandandi kjarabaráttu.

Auglýsing

Það er ein­kenni­leg upp­lifun að fylgj­ast með kjara­bar­átt­unni. Álengdar heyr­ist tal um frekju­doll­una í far­ar­broddi Efl­ing­ar.  Þessa með óraun­hæfu kröf­urn­ar, sem er manna spennt­ust að klapp­stýra lið­inu beint í verk­fall. Nenni ekki einu sinni út í þá aug­ljósu sálma hvernig sömu raddir myndu óma ef Sól­veig væri karl­mað­ur. Hún væri í það minnsta titluð eitt­hvað annað en frekju­dolla! Það er líka súrt, já og súr­r­eal­ískt, að fylgj­ast með borg­ar­stjóra vorum draga lapp­irnar í þess­ari kjara­bar­áttu, hvort sem er í orði eða á borði. Öll ljós kveikt en eng­inn heima?

Stoppum aðeins og veltum þessu fyrir okk­ur: Alls starfa um 1.850 starfs­menn í Efl­ingu hjá Reykja­vík­ur­borg. Að baki margra þeirra eru börn og fjöl­skyld­ur. Áður en lengra er haldið þá er vert að taka eft­ir­far­andi fram: Þó grein þessi sé skrifuð með konur í aðal­hlut­verk­um, þá er til­gangur hennar ekki ein­ungis að styðja við kon­urn­ar, heldur einnig þá karl­kyns starfs­menn, sem starfa hjá borg­inn­i. 

Þau rök hafa heyrst að ekki þyki sann­gjarnt að fólk, sem ákveður að ganga mennta­veg­inn, standi uppi með há náms­lán til að borga af, á meðan þeir sem kjósa að fara beint út á vinnu­mark­að­inn þurfa ekki að borga af slíkum lán­um. Fyrir mér er þetta ekki mjög flók­ið. Það er eng­inn neyddur til að ganga mennta­veg­inn, í þess­ari grein ætla ég í það minnsta að gefa mér það. Hins vegar eiga ekki allir þann kost að ganga mennta­veg­inn. 

Svo er það krafa mennt­aða fólks­ins um launa­mun­inn. Borg­ar­stjór­inn okkar þreyt­ist seint á að útskýra fyrir almúg­anum að félags­menn ann­arra stétt­ar­fé­laga eigi seint eftir að sam­þykkja þann litla mun sem verður á launum fag­lærðra og ófag­lærðra, fái Efl­ing sínu fram­gengt. Hann telur þannig lík­legt að fleiri verk­föll muni fylgja í kjöl­far­ið. Með öðrum orð­um: Ófag­lærða fólkið þarf að fara að hætta þessu væli og sætta sig við „lífs­kjara­samn­ing­ana“. Lang­best væri auð­vitað að öld­urnar færi að lægja sem fyrst, svo okkar maður fái að hjóla átaka­laust áfram.

Auglýsing
Ég væri reyndar til í að eiga þessa umræðu óháð nokkru tali um menntun og hvernig þyki hæf­ast að meta hana til launa. Ég væri miklu frekar til í að umræðan og allt púðrið færi í að ræða það sem málið snýst fyrst og síð­ast um: Þá stað­reynd að lægstu launin eru til skammar og hvernig þau tryggja lítið annað en áfram­hald­andi auma stöðu þeirra sem þau þiggja, hvað svo sem ein­hverjum lífs­kjara­samn­ingum líð­ur!

En förum endi­lega „mennta­leið­ina“. 

Við skulum í augna­blik gefa okkur það að margir þeirra, sem velja að ganga mennta­veg­inn, vilji af ein­hverjum ástæðum ekki vinna í einu þeirra fjöl­mörgu starfa sem til­heyra lág­launa­stétt­inni. Á ein­ungis að hampa þeim sem ganga mennta­veg­inn? Eru tæki­færin og hug­sjón­irnar ein­ungis þeirra að eiga?

Og hvað með börn­in? Getum við aðeins stoppað og hugað að því hver áhrif launa eru á börn­in? Viljum við að hér alist upp börn, sem upp­lifi sig minna virði en önnur börn? Finnst okkur í lagi að hér séu börn, sem búi alltaf við skort, dæmd til að þurfa alltaf að sætta sig við minna? Langar okkur að búa í sam­fé­lagi þar sem til eru börn, sem upp­lifa kvíða og streitu, því þau fylgj­ast með bug­uðum for­eldrum sínum skrimta, dag eftir dag? Eiga börn lög­fræð­ings­ins ein skilið að búa við öryggi, heita mál­tíð á kvöldin og ­upp­lif­an­ir á borð við ferðir til útlanda? Eiga örlög barna ræst­inga­kon­unnar sjálf­krafa að vera þau að suma daga er ekk­ert nesti til fyrir þau að taka með í skól­ann, eða að þurfa að geyma ­skóla­dót­ið í plast­poka því mamma hefur ekki efni á að kaupa skóla­tösku handa öllum systkin­un­um? Eru það ein­ungis börn þeirra hærra laun­uðu sem eiga að fá að njóta þeirrar gleði að halda afmæl­is­veislu? Eiga börn lág­laun­aðra for­eldra kannski bara að læra að halda kjafti og skilja að sumir fá að halda afmæli en aðrir ekki? Þurfa þau kannski bara að reyna að troða því inn í sína litlu, þrjósku hausa að mamma og pabbi hafa ekk­ert hel­vítis efni á að halda eitt­hvað afmæli? Eigum við að taka þessa umræðu í tengslum við afmæl­is­gjafir, jóla­gjafir eða ferm­ing­ar­gjafir t.d.?

Hvað með allt lág­launa­starfs­fólk­ið, hver svo sem ástæðan er fyrir því að það er hluti af téðri lág­launa­stétt? Er það fólk minna virði en fólk sem til­heyrir öðrum launa­stétt­um? Þetta fólk vinnur ekki létt­væga vinnu. Stað­reyndin er sú að vinnan þeirra er gríð­ar­lega mik­il­vægur hlekkur í að sam­fé­lagið okkar gangi upp. Ég efa stór­lega að margir geri sér grein fyrir því álagi sem hvílir á þessu starfs­fólki. Eða ábyrgð­inni sem oft er lögð á herðar þess. Ábyrgð og álag, lík­am­lega jafnt sem and­lega. Þykir engin ástæða til að launa­seð­ill þessa fólks end­ur­spegli þessa ábyrgð og virði þetta álag? Kæra Reykja­vík­ur­borg, hvar er vilj­inn til að meta starfs­fólkið ykkar að verð­leik­um? Týndur og tröllum gef­inn? Eða er hann eng­inn? Kannski bara mið­fingur upp og áfram gakk?

Og hvað ger­ist þegar eng­inn fæst til að sinna þessum störf­um, hvað þá? Það er löngu ljóst að það eru ekki allir til­búnir að taka að sér störf lág­launa­fólks, þá sér í lagi nefni ég umönn­un­ar­störf, en sjálf get ég vottað fyrir að for­dómar ríkja gagn­vart þessum störfum og það getur sam­starfs­fólk mitt líka. Ég hef ekki töl­una á því hversu oft ég hef „rétt­lætt“ veru mína í starf­inu. Ég hef líka marg­sinnis verið spurð hvort ég ætli ekki að fara að leita mér að annarri vinnu, líkt og það sé af og frá að ég gæti haft áhuga á minni vinnu. Það virð­is­t frá­leit­ur, í hugum margra, sá mögu­leiki að ég hafi gagn og oft á tíðum meira að segja gaman af vinn­unni minni.

Verum bara heið­ar­leg í smá­stund. Margir líta svo á að störf sem þessi séu fyrir neðan þeirra virð­ingu. Þetta eru sann­ar­lega þeir sem líta niður á kon­una í mötu­neyt­inu og finnst hún minna virði en þeir sjálf­ir. Þetta eru þeir sem átta sig ekk­ert endi­lega á, eða nenna yfir höfuð að spá í, mik­il­vægi þess að til staðar sé fólk sem sér til þess að passa upp á hrein­læti afa og ömmu á öldr­un­ar­heim­il­inu. Sjálfir myndu þeir nefni­lega aldrei geta hugsað sér að inna slík störf af hendi. Svo eru aðrir sem hafa ein­fald­lega ekki skrokk­inn í þessi störf, hvorki and­lega né lík­am­lega. Enn aðrir vilja starfa við ann­að. Þrátt fyrir að launin hækki, líkt og Efl­ing fer fram á, þá verður alltaf til fólk sem tikkar í áður­nefnd box og mun ekki sækja um þessi störf. Þó svo að Reykja­vík­ur­borg sýni í verki að virð­ing sé borin fyrir t.d. öllu ræst­inga­fólk­inu sem þar starfar og sjái til þess að sú virð­ing end­ur­speglist á launa­seðl­um, þá verður samt alltaf til fólk sem mun aldrei sækja um þessi störf.

Auglýsing
Sem betur fer er þó til það fólk sem hefur áhuga á að sinna þeim fjöl­mörgu lág­launa­störfum sem heyra undir Reykja­vík­ur­borg. Það er til fólk sem brennur fyrir að ann­ast ömm­urnar og afana á öldr­un­ar­heim­il­inu, litlu börnin á leik­skól­an­um, veiku ætt­ingj­ana á spít­al­an­um, eða fjöl­skyldu­með­limi í heima­húsum svo þeir fái haldið sjálf­stæði sínu sem lengst. Fólk sem vill vera til staðar fyrir annað fólk. Fólk sem mætir í sína vinnu og ann­ast þá sem á þurfa að halda af vænt­um­þykju og metn­aði. Ráða­menn og fleiri mættu líka gera sér grein fyrir - raunar hefði það mátt fyrir lif­andis löngu við­ur­kenn­ast - að fólkið sem þrí­fur sal­ern­is­að­stöð­una á spít­al­an­um, já eða í fínu ráðu­neyt­un­um, það er líka fólk sem skiptir máli. Fólk með til­finn­ing­ar. Fólk með drauma og ­þrár. Fólk sem þarf laun til að lifa af. Fólk sem á fjöl­skyldur sem þarf að fram­fleyta. Fólk sem ég vil nú meina að við vonum langflest að sinni vinn­unni sinni af metn­aði, því hvern langar að setj­ast á saur­skítuga kló­sett­setu? Nei, ég bara segi! Ber ekki að sjá til þess að þetta fólk geti líka tryggt sér og sínum trausta afkomu? 

Eða... 

Þykir sann­gjarn­ara að Jóna, ein­stæð móð­ir, með tvö börn á leik­skóla, sinni sínum átta tíma vinnu­degi, kom­ist í tæka tíð til að sækja börnin á leik­skól­ann, en þurfi svo frá að hverfa og reiða sig á pössun fyrir börn­in, því auka­vinnan kall­ar? 

Hvað með börnin sem fá ekki að vera börn, þessi sem þurfa sífellt að hlaupa undir bagga með for­eldrum sín­um, bera ábyrgð á heim­il­in­u alltof snemma og passa upp á systk­ini sín? Því við skulum alveg átta okkur á að ekki hafa allir það svo gott að eiga traust bak­land að leita til­!!!

Væri ekki glæsi­legra af Reykja­vík­ur­borg, í það allra minnsta ögn mann­úð­legra, að sjá umræddri móður fyrir launum - sann­gjörnum launum - sem gera henni kleift að lifa með reisn, án þess að þurfa sífellt að hafa áhyggjur af því hvernig eða öllu heldur hvort aur­inn mun end­ast út mán­uð­inn? Jafn­vel að hún gæti átt eitt­hvað auka­lega til að leggja fyr­ir? Þannig að Jóna og börn hennar gætu átt kvöld­stund­ina saman og hún þannig átt tæki­færi til þess að vera til staðar fyrir börnin sín? Þykir kannski bara frekja að fara fram á slíkan „mun­að“? 

Þykir sjálf­sagð­ara, af því að Stína fór ekki í háskóla, af ástæðum sem við vitum ekk­ert um, að hún geti bara sjálfri sér um kennt?

Er hún þar með dæmd til að sætta sig við ömur­lega afkomu alla tíð, svo við tölum nú ekki um frí­tíma­leysið og fjar­ver­una frá maka og börn­um, vegna allrar auka­vinn­unnar sem hún hefur ekki efni á að segja nei við?

Kannski var Lóa alin upp af fátækum for­eldrum og menntun því aldrei komið til greina fyrir hana. 

Kannski hefur Gunna alltaf átt erfitt með að læra og því aldrei haft trú á getu sinni í þeim mál­u­m. 

Svo gæti líka vel verið að Möggu hafi ekk­ert langað til þess að mennta sig. 

Og hugsa sér, ef til er sá ein­stak­lingur sem heim­sótti ömmu og afa í æsku og lang­aði allar götur síðan að vinna við að hlúa að þeim öldr­uð­u. 

Hver svo sem ástæðan er, kemur okkur hinum hún eitt­hvað við? Varðar okk­ur um þær ástæður sem liggja að baki? Vænt­ingar fólks til lífs­ins eru mis­jafn­ar. Eru ein­hverjir draumar minna virði en aðrir draumar? Hver hefur ann­ars rétt­inn til að dæma þar um? Er það ekki merki um ein­hvers konar hroka eða yfir­læti að taka sér slíkt dóm­ara­sæti?

Menntuð eða ómennt­uð, eigum við ekki að heita jöfn? Það er eng­inn maður betri en ann­ar. Það er engin mann­eskja annarri æðri. Alveg sama hversu mörgum háskóla­gráðum við­kom­andi kann að geta flagg­að. Seigur biti fyrir ein­hverja að kyngja, en verði hann þeim að góðu engu að síð­ur.

Höf­undur er með BA-gráðu í sál­fræði og starfar hjá heima­þjón­ustu Reykja­vík­ur­borg­ar. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar