Ráðherrarnir skauta fram hjá sérstakri stöðu á vinnumarkaði þegar þau dásama efnahagsleg afrek sín.
Atvinnuleysi fer vaxandi og er nú 9% á Suðurnesjum!
Viðskiptabankarnir halda að sér höndum í lánveitingum til fyrirtækja enda lítið um fýsilegar fjárfestingar. Í ferðaþjónustu hefur fjárfestingin verið mikil undanfarin ár en nú fækkar ferðamönnum og samdráttur blasir við.
Í niðursveiflunni er viðbúið að sumar þessara fjárfestinga endi með skelli fyrir fyrirtækin, starfsfólk, lánveitendur og viðkomandi samfélög.
Niðursveiflan gæti orðið lengri en spár gera ráð fyrir því það mun draga úr ferðalögum á næstunni, líka hingað til lands. Ástæðan er fyrst og fremst breyting á neysluvenjum vegna loftslagsbreytinga sem ekki er hægt að kalla annað en hamfarir.
Við erum því miður að tapa því veðmáli.
Stjórnvöld verða því að leggja nýsköpun og sprotafyrirtækjum lið af miklum þunga og styrkja fjölbreytt atvinnulíf um allt land. Raunveruleg menntasókn verður að eiga sér stað með fjölbreyttu námsframboði og góðu aðgengi að námi fyrir alla. Sérstaklega þarf að styrkja starfsmenntaskólana og skapa fleiri tækifæri til endur- og símenntunar.
Menntun og nýsköpun eru lykillinn að lausnunum í því óumflýjanlega breytingaferli sem framundan er. Hvort sem litið er til aðgerða sem vinna gegn hlýnun jarðar eða til örra tækniframfara á flestum sviðum, er menntunar og nýsköpunar þörf. Ekki bara svo finna megi lausnir fyrir atvinnustarfsemina og arðsemi fyrirtækja heldur einnig til að tryggja að breytingarnar verði til góðs og auki jöfnuð í landinu.
Stjórnvöld verða að taka alvarlega vísbendingar um að innan fárra ára fækki störfum verulega ef ekkert verður að gert og atvinnuleysi skapi vaxandi og alvarlegan vanda með neikvæðum félagslegum afleiðingum.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.