Aðgengi að upplýsingum er forsenda góðra ákvarðana, trausts og aðhalds. Aðgengi að upplýsingum er forsenda réttar meðferð opinbers fjár og tryggir jafnrétti við úthlutun takmarkaðra gæða, hverjir njóta þeirra og á hvaða forsendum. Hagsmunir eru þannig í leiddir í dagsljósið.
Margt hefur áunnist á þessu sviði en margt er enn óunnið og margt hulið þoku tregðunnar til að hafa upplýsingar aðgengilegar.
Ríkið veitir stuðning af ýmsu tagi til margvíslegrar starfsemi, til einstaklinga og fyrirtækja. Þar á meðal eru beinir styrkir í ýmsu formi. Má nefna listamannalaun, styrki til nýsköpunar, vísinda og þróunarstarfs, og styrki til bókaútgáfu svo eitthvað sé nefnt. Allir þessir styrkir eru opinberir og birtar um þá upplýsingar, hver fær hvað og til hvers.
Þá má nefna að ríkið hefur gengið á undan með góðu fordæmi og birtir opinberlega á vefnum Opnir reikningar ríkisins upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins.
Gegnsæi og aðgengi að upplýsingum um hver nýtur styrks til atvinnustarfsemi er sjálfsögð og eðlileg krafa þegar ráðstöfun almannafjár er annars vegar.
Fjárbændur
Styrkir til landbúnaðar er lang viðamesti styrkjaflokkurinn á vegum ríkisins. Beinir styrkir greiddir úr ríkissjóði til landbúnaðarkerfisins nema mörgum milljörðum á hverju einasta ári. Sem dæmi má taka að sauðfjárbú fengu rúma 5 milljarða í styrki árið 2018 og nautgriparæktendur um 6,4 milljarða eða samtals um 11,4 milljarða. Það er gríðarlega há upphæð. Ef gert er ráð fyrir að landsmenn séu um 355 þúsund jafngildir það að hver og einn landsmaður greiði um 32.700 krónur til þessara tveggja höfuðgreina landbúnaðarins á ári hverju í beina styrki.
Styrkflokkar til sauðfjárbænda eru t.d. sjö talsins: beingreiðslur, gæðastýring, býlisstuðningur, ullarnýting, fjárfestingarstuðningur, svæðisbundinn stuðningur og aukið virði afurða.
Með sama hætti eru styrkflokkar til kúabænda átta talsins: greiðslumark, innvegin mjólk, mjólkurkýr, holdakýr, framleiðslujafnvægi, kynbótastarf, fjárfestingastuðningur og nautakjötsframleiðsla.
Holtaþoka
Fyrir skömmu lagði ég fram fyrirspurn á Alþingi um stuðning við sauðfjárbú í landinu og óskaði eftir sundurliðun á hvert bú þar sem fram kæmi upphæð og tegund styrkja. Svar landbúnaðarráðherra kom mér í opna skjöldu. Hann taldi ekki hægt að upplýsa um greiðslur til einstakra búa þar sem slíkar upplýsingar varði fjárhagsmálefni viðkomandi einstaklinga og að upplýsingarnar myndu birtast á opinberum vettvangi. Hins vegar væri hægt að afhenda upplýsingarnar á öðrum vettvangi, svo sem á lokuðum nefndarfundi Alþingis.
Ekki er unnt að fallast á þessi rök. Hér er um opinbera styrki að ræða en ekki einkamálefni. Hér verður að gera bragarbót og gera gangskör að því að gera styrki til einstakra bænda aðgengilega. Reyndar á slíkt að gilda um alla sem hljóta styrki úr opinberum sjóðum.
Neytendur, skattgreiðendur og ekki síst bændur sjálfir eiga heimtingu á því að þessar upplýsingar séu aðgengilegar og gegnsæjar. Með því móti skapast nauðsynlegt traust og forsendur til þess að sjá svart á hvítu hvernig styrkjum er varið. Hér er ekki eingöngu um almannahag að ræða, því bændur hafa einnig viðskiptalega hagsmuni af því að geta sýnt fram á að þeir fari vel með jafn mikla fjármuni. Þú veist hvaðan það kemur auglýsa íslenskir garðyrkjubændur með stolti. Með sama hætti þurfa bændur að geta sagt með stolti þú veist hvert féð rennur.
Þannig er að minnsta kosti litið á málin innan Evrópusambandsins. Þar eru upplýsingar um greiðslur til einstakra búa aðgengilegar öllum í opinberum gagnagrunnum. Sama gildir í Noregi. Vandséð er hvers vegna upplýsingar af þessum toga eigi að fara leynt á Íslandi en ekki í amk. 29 öðrum Evrópuríkjum. Okkur er ekkert að vanbúnaði að gera slíkt hið sama.
Huliðshjálmur fer íslenskum bændum ekki vel og mér er til efs að þeir vilji bera hann.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.