„Ef fram kemur stór þorskstofn verður að minnka loðnuveiðar.“
Þessa dagana er mikið rætt um loðnu eða réttara sagt loðnuleysi. Rannsóknaskip og nokkur fiskiskip sigla fram og til baka um íslensku fiskveiðilögsöguna og telja loðnulóðningar á mælitækjum sínum. Síðan nota starfsmenn Hafró í landi þessi gögn til að reikna úr stofnstærð og vísitölur loðnunnar og bera síðan niðurstöðurnar saman við heimatilbúna og síbreytilega aflareglu. Allt kemur fyrir ekki og framundan virðist vera rautt hættustig í loðnulitlu hafinu og því stefnir í aðra aflalausu loðnuvertíðina í röð hér við land.
Það er að mínu mati umhugsunarefni að enginn skuli spyrja spurninga um hvað sé að gerast í hafinu. Einna helst er talað um að hækkun sjávarhita (sem að vísu hefur lækkað síðan 2012) og hinar ógnvænlegu loftslagshamfarir séu að gera út af við loðnustofninn. En er endilega víst að loðnuleysi sé bara tengt náttúrunni og breytileika í henni? Getur ekki einnig verið að aðgerðir okkar og ákvarðanir í landi eigi hér einhvern hlut að máli?
Samspil stofna og veiða
Í ítarlegu viðtali sem Morgunblaðið átti við Hjálmar heitinn Vilhjálmsson fiskifræðing þ. 13. desember 1995 sagði hann m.a. „Ef fram kemur stór þorskstofn verður að minnka loðnuveiðar.“ Í sama viðtali kom fram að 30-50% af fæðu þorsksins á ársgrundvelli væri loðna. Síðari tíma rannsóknir hafa þrengt þetta bil og nú er almennt talað um að loðnan sé 37-40% af árlegri fæðu þorsksins.
Vel þekkt er meðal sjómanna að þorskur étur næstum allt sem að kjafti hans kemur, ekki síst sína minni bræður og systur. Það ætti því ekki að koma á óvart að ýmsir fæðutegundir þorsks aðrar en loðnan hafi líka látið á sjá á undanförnum árum. Í þessu ljósi er fróðlegt að velta því fyrir sér hvaðan aðrir réttir á matseðli þorsksins en loðna, þ.e. um 60% eða um 6 milljónir tonna eru fengnir. Getur t.d. ekki verið samband milli tilvistar þessa risa þorskstofns og loðnuskortsins og jafnvel hruns í mörgum öðrum nytjastofnum? Á síðustu árum hefur rækjustofninn hrunið (innfjarðastofnarnir algerlega horfnir), sömuleiðis humarinn, síldin, hörpudiskurinn og lúðan. Jafnvel karfinn er líka á niðurleið. Til eru myndbönd af innvolsi úr maga þorsks sem sýna að allt að fimm smáþorska eða allt að 50 rækjur geta verið í maga eins fiskjar.
Ábyrg fiskveiðistefna og óskeikul ráðgjöf?
Samkvæmt almennri umræðu erum við með ábyrgustu fiskveiðistefnu í víðri veröld og ráðgjöfin svo varfærin, nákvæm og vísindaleg að það jarðar við sérvisku, afneitun eða heimsku að bera brigður á einhvern hluta hennar. Af þessum ástæðum heyrist varla nokkur sjómaður ræða þessi mál opinberlega. Hins vegar veit ég eftir að hafa stundað strandveiðar síðastliðin átta sumur að vantraust og vantrú á ráðgjöf og rannsóknaraðferðir við sjávarnytjar hér við land er mjög útbreidd meðal sjómanna.
Ekki verður ekki annað séð en að ennþá sé hver og einn fiskistofn rannsakaður og mældur án þess að tillit sé tekið til samspil hina ýmsu stofna og meginstefnan sé að byggja upp alla fiskistofna samtímis. Í viðtali við Ólaf Karvel Pálsson fiskifræðing í Fiskifréttum 1. apríl 2015 setti hann fram þá skoðun að vistkerfisrannsóknir og samspil stofna hafi alla tíð haft allt of lítið vægi hjá Hafrannsóknastofnun og alls ekki forgang. Nánast öll fjárhagsleg geta stofnunarinnar færi í að mæla stofnstærð með talningu, dýptarmælislóðningum og röllum af ýmsu tagi. Á þeim grundvelli og með notkun á tilviljunarkenndum aflareglum reiknuðu menn sig síðan fram til ráðgefandi talna um árlegan kvóta hverrar tegundar.
Lokaorð
Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að endurskoða stefnuna og jafnvel gera tilraunir. Er það t.d. sjálfgefið að friða þurfi 400 þús. tonn af loðnu þegar þorskurinn einn étur 4 milljónir tonna? Er það líka sjálfgefið að alltaf eigi að nota 20% aflareglu á þorskinn hvort sem stofninn mælist 600 þús. tonn eða 1.300 tonn? Hver er skýring á því að rækjustofnar, humarinn, síldin og fleiri stofnar hafa verið á stöðugri niðurleið það sem af er þessari öld, þrátt fyrir að tillögum og ráðgjöf hafi verið fylgt út í hörgul? Og hefur það aldrei komið til greina að endurskoða kvótakerfið í ljósi þess að það grundvallaðist í upphafi á því að við Ísland væri einn þorskstofn en síðari tíma rannsóknir hafa sýnt fram á að við landið eru margir tugir staðbundinna stofna?
Höfundur er veðurfræðingur.