Lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga er afgerandi þáttur í því að tryggja jafnt aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu. Gögn frá Evrópsku tölfræðistofnuninni, Eurostat, sýna að um um það bil 3,5 prósent Íslendinga þurftu að neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar, fjarlægðar eða biðtíma árið 2016. Um 5% allra tekjuhópa þurftu að neita sér um tannlæknaþjónustu á sama tíma. Óuppfyllt þörf fyrir læknis- og tannlæknaþjónustu er mun meiri á meðal hinna tekjulægstu, eða um 5% vegna læknisþjónustu. Samsvarandi hlutfall þeirra sem þurfti að neita sér um tannlæknaþjónustu var um 15%.
Unnið er markvisst að lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga, þannig að sjúklingar borgi minna fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf, en ríkið borgi stærri hlut. Lækkunin er ein stærsta jöfnunaraðgerð sem ríkisstjórnin hefur ráðist í á þessu kjörtímabili og jafnframt eitt þeirra atriða sem ég hef sett í sérstakan forgang í embætti heilbrigðisráðherra.
Lækkun kostnaðar sjúklinga er hafin
Við höfum nú þegar lækkað greiðsluþátttöku öryrkja og lífeyrisþega í tannlæknakostnaði, og aukið þátt ríkisins í greiðslum vegna þeirrar þjónustu. Nú nemur endurgreiðslan 50% fyrir þessa hópa en samkvæmt fjármálaáætlun er svigrúm til að auka framlögin árlega um 200 milljónir króna árin 2021 – 2024 og lækka með því greiðsluþátttöku lífeyrisþega vegna tannlækninga úr 50% í 25% á tímabilinu. Við höfum líka fellt niður komugjöld fyrir öryrkja og aldraða á heilsugæslustöðvar og hjá heimilislæknum. Um áramótin tóku svo gildi enn frekari lækkanir á greiðsluþátttöku sjúklinga.
Þann 1. janúar síðastliðinn voru hormónatengdar getnaðarvarnir felldar undir lyfjagreiðsluþátttökukerfið fyrir konur sem eru 20 ára eða yngri. Þá var öllum börnum sem fæðast með skarð í efri tannboga eða með klofinn góm með reglugerð tryggður réttur til endurgreiðslu vegna tannlækninga og tannréttinga sem nemur 95% af gjaldskrá tannlæknis. Ný reglugerð um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innanlands tók líka gildi í byrjun árs. Með reglugerðinni verður m.a. komið til móts við þá sem þurfa reglulega að ferðast um lengri veg vegna blóðskilunar og enn fremur er það nýmæli að greitt verður fargjald fylgdarmanns konu sem þarf að takast ferðalag á hendur til að fæða barn á heilbrigðisstofnun eða sjúkrahúsi.
Komugjöld í heilsugæslu verða felld niður
Framundan eru enn frekari aðgerðir til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Komugjöld í heilsugæslu verða áfram lækkuð og árið 2022 verða almenn komugjöld í heilsugæslu felld alveg niður. Lög um heilbrigðisþjónustu segja að heilsugæslan skuli vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu – og í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er þetta mikilvægt leiðarstef. Því er aukið aðgengi allra að þjónustu heilsugæslunnar mikilvægt markmið.
Þak vegna lyfjakaupa einstaklinga lækkar
Árið 2021 er líka gert ráð fyrir um 50 milljónum króna til að lækka þak á árleg hámarksútgjöld einstaklinga vegna lyfjakaupa og ráðgert er að verja um 20 milljónum króna í niðurgreiðslur á hormónalykkjunni fyrir konur sem þurfa á henni að halda af klínískum ástæðum, t.d. vegna endómetríósu. Niðurgreiðslur hins opinbera vegna hjálpartækja og tannlækninga verða einnig auknar enn frekar. Samtals er áformað að verja 2,3 milljarði í lækkun greiðsluþátttöku fram til ársins 2022.
Þessar breytingar eru mikilvæg skref í átt að því marki að greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustu verði á pari við það sem best gerist á Norðurlöndunum, en þangað stefnum við. Lækkun greiðsluþátttöku sjúklinga er mikilvæg jöfnunaraðgerð og til þess fallin að tryggja enn betra aðgengi að þjónustu heilbrigðiskerfisins. Með jafnara aðgengi er spornað við heilsufarslegum ójöfnuði af félagslegum og fjárhagslegum ástæðum. Þannig tryggjum við betra heilbrigðiskerfi fyrir alla.
Höfundur er heilbrigðisráðherra.