Eitt af veikleikamerkjum fyrrverandi verkalýðsforystu var vöntun á skilyrtri kröfu í samningum um öruggt og ódýrt húsnæði. Fyrir félagsmenn og almenning. Þessi krafa ætti vitanlega að vera fastur fylgifiskur í öllum kjarasamningum. Vakning hefur vissulega fylgt með nýrri forystu. Þó eru húsnæðis- og launapólítík enn að miklu leyti eins og tvö fyrirbæri í sitt hvorum kassanum.
Þess vegna hefur það viðgengist árum, jafnvel áratugum saman að lægst launuðu þjóðfélagshóparnir horfa á eftir rýrum launahækkunum beint í hækkun húsnæðiskostnaðar. Þetta á einkum við um láglaunaða á leigumarkaði. Fátt, ef nokkuð í kerfinu spyrnir á móti.
Í Reykjavík er borgin sjálf stærsti vinnustaðurinn. Borgin rekur láglaunastefnu í grunnstörfum sínum. Húsnæðisstefnan er hins vegar „markaðs“- eða braskvædd. Birtingarmyndin er offramboð af lúxusíbúðum. Og þeim mun sárari skortur á venjulegum íbúðum, fyrir venjulegt fólk. Á venjulegum verðum. Á núverandi borgartöxtum eru lægstu útborguð mánaðarlaun á pari við mánaðarleigu á venjulegri blokkaríbúð. Viðkomandi launþegi þarf svo að reiða fram ígildi þokkalegs fólksbíls í fyrirframgreiðslu og tryggingu.
Hörðustu fylgismenn braskstefnu borgarinnar héldu því fyrst fram að fokdýrar íbúðir miðborgarinnar mynduðu flutningskeðju. Sem myndi svo losa um ódýrt húsnæði í hinum endanum. Þessar raddir eru þagnaðar. Keðjur eru jafn sterkar og veikasti hlekkurinn.
Þótt fallist verði á allar kröfur Eflingar er enn fátt sem segir að þessar hækkanir hverfi ekki eins og venjulega beint í aukinn húsnæðiskostnað. Furðu hljótt er um það höfrungahlaup í opinberri umræðu.
Ef Reykjavík er borin saman við nágrannalöndin, t.d. Vasteras í Svíþjóð sést eftirfarandi: Vasteras (nánast sami fólksfjöldi og RVK) á og rekur um 11.000 leiguíbúðir í 31 hverfi borgarinnar fyrir almenning. Húsnæðisfélagið heitir MIMER, og er rekið sem hver önnur borgarþjónusta. Án hagnaðarkröfu. Þess utan eru einkaaðilar umsvifamiklir á leigumarkaði svæðisins. Fyrirframgreiðsla er einn mánuður, ótakmarkaður leigutími. Í Vasteras ræður borgin leiguverði svæðisins í krafti stærðarinnar. Þar þekkist ekki að fólk búi í iðnaðarhverfum. Eða að einkaaðilar leigi út misgóðar eignir og segi upp leigjendum eftir eigin duttlungum. Nægilegt framboð af ofangreindum íbúðum er skýringin.
Samsvarandi í búðir í Reykjavík eru „félagslegar“ með tekjutakmarki fyrir búsetu. Fjöldi þeirra er u.þ.b. þriðjungur miðað við Vasteras. Sem er nánast með sama íbúafjölda og Reykjavík. Í innlendri umræðu um húsnæðisvandann í Reykjavík er borgin nær eingöngu borin saman við nágrannasveitarfélögin. Þar ber hún höfuð og herðar yfir í húsnæðismálum. Bæði í fjölda og hlutfalli félagslegra íbúða.
Það er ekki í tísku að bera húsnæðismál borgarinnar við það sem best gerist erlendis. Þá sést hversu langt út í skurð íslensk húsnæðispólítík er komin.
Það er löngu komin tími til að endurreisa íslenskt íbúðakerfi fyrir almenning. Sem var illu heilli aflagt fyrir um aldarfjórðungi. Það þarf stórátak. Rétti tíminn er núna. Þörfin er til staðar samtímis og fyrirsjáanleg niðursveifla á byggingarmarkaði. Er yfirleitt hægt að hugsa sér öllu hagkvæmari innspýtingu í hagkerfið? Í samfélagslegu tilliti? Sem gerði höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina samanburðarhæfa við nágrannalöndin í húsnæðismálum?
Kór stjórnvalda kyrjar nú kunnuglega meðaltalsmöntru. Við höfum það best allra á byggðu bóli. Er þá of mikið að verkafólk geti ekki bara lifað af launum sínum? Heldur búið í mannsæmandi húsnæði líka? Þar sem börn geta búið við öryggi? Þar sem húsnæðiskostnaðurinn er ekki spennitreyja fátæktar? Húsnæði er ekki forréttindi. Það er mannréttindi.
Ný verkalýðsforysta þarf að líta á launa- og húsnæðismál sem órjúfanlega heild.
Tími leiðréttingar er löngu kominn.
Ef ekki núna, þá hvenær?