Við sem hér búum erum svo lánsöm að samfélag okkar er lýðræðislegt réttarríki. Það merkir að stjórnskipunin er ákveðin með lögum og samskipti einstaklinga ráðast að miklu leyti af lögum. Ein forsenda þess að ríki verði réttilega sagt vera réttarríki er að einstaklingar búi við réttaröryggi. Það þýðir að lögin séu sanngjörn og tryggi grundvallarréttindi, að þeim sé framfylgt af réttlæti, og að ágreiningi þar um sé ráðið til lykta af sjálfstæðum og hlutlausum aðila. Lögin eru sett af löggjafa, framkvæmd af yfirvaldi, og ágreiningi um framkvæmd þeirra er ráðið til lykta af dómstólum. Í daglegu tali er vísað til þessa fyrirkomulags sem þrígreiningar ríkisvaldsins og er það lögfest í 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Hver hinna þriggja valdþátta ríkisvaldsins, löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið, hefur þannig ákveðið hlutverk. Mikilvægt er að hver þeirra um sig sé sjálfstæður og óháður hinum tveimur.
Með hugtakinu réttaröryggi gætum við átt við það eitt að haldið sé uppi lögum og reglu, en það eitt og sér er þó ekki fullnægjandi vegna þess að sú skilgreining getur í sjálfu sér samrýmst harðstjórn, ef krafan er einungis sú að stjórnað sé með lögum. Hugtakið réttaröryggi felur því í sér að borgararnir viti að þeir njóti skjóls af réttlátum lögum og ekki síður sanngjarnri og réttsýnni framkvæmd þeirra. Þar sem starfsskyldur dómara fela í sér vald fylgir þeim jafnframt mikil siðferðileg ábyrgð. Þeir gera sér grein fyrir því, enda er það forsenda þess að almenningur geti borið traust til dómskerfisins að dómarar beiti valdi sínu eingöngu til að fullnusta hlutverk þess í þágu samfélagsins. Traust er forsenda þess að réttaröryggi sé fyrir hendi. Það er því verulegt áhyggjuefni að traust til dómstóla mælist aðeins 37% samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup og hefur lækkað frá síðustu könnun.
Traust er þess eðlis að það verður ekki fyrirskipað, það er áunnið og ræðst af verkum og orðspori viðkomandi stofnunar. Ef til dæmis væri um að ræða spillingu meðal dómenda eða að dómar þeirra byggðu á geðþóttaákvörðunum, þá væri eðlilegt að traustið væri lítið. Annað sem hefur áhrif á traust er ásýnd. Ásýnd skiptir miklu máli, því hún hefur áhrif á upplifun fólks og þar með traust. Það er þetta sem átt er við þegar sagt er að ekki sé fullnægjandi að réttlætis sé í raun gætt heldur verði það einnig að sjást. Til þess að koma í veg fyrir að skynsamlegur vafi komi upp við meðferð einstakra mála fylgja dómarar því ákveðnum formreglum. Traust er huglægt og þar af leiðandi viðkvæmt, auðveldara er að rífa það niður en að byggja það upp. Þannig geta tilteknir atburðir, eins og vandræðin í kringum skipun dómara Landsréttar, eða neikvæð ummæli haft áhrif á upplifun fólks, og þar með traust. Að mati höfundar þessa pistils eru niðurstöður þjóðarpúlsins grafalvarlegar en jafnframt óverðskuldaðar og því mikilvægt að reynt verði að átta sig á orsökum þeirra.
Niðurstaða dóms fellur þá með þeim fyrrnefnda, og ef ekki ríkir traust til dómstóla magnar það vonbrigði og reiði þess sem tapar máli. Nú er það einnig svo að stundum er sjálfur texti laganna ekki alveg skýr um hvernig með eigi að fara við tilteknar aðstæður, og þegar svo háttar til er það verkefni dómara að túlka lögin og beita öðrum réttarheimildum til þess að komast að niðurstöðu í þeirri deilu sem um er að ræða. Dómarar eru manneskjur en ekki vélar og því er það ekki alltaf svo að allir dómarar komist að sömu niðurstöðu þegar staðreyndir eru metnar eða lög túlkuð, og það þrátt fyrir að allir vandi til verka og haldi í heiðri þau gildi sem starfsstétt þeirra hefur að leiðarljósi. Þá getur ákvörðun dómara verið umdeild, til dæmis í þeim tilvikum þar sem honum eða henni ber sjálfum að meta hæfi sitt. En ef ekki er hægt að tryggja að allt löglært fólk komist alltaf að sömu niðurstöðu um lausn lagadeilu eða ákvörðun dómara, hver getur þá verið grundvöllur nauðsynlegs trausts til dómskerfisins þannig að hægt sé að tala um að réttaröryggi sé fyrir hendi í samfélagi? Svarið við því er að finna í starfinu sem slíku, eðli þess og skyldum - þeim gildum sem dómarar sem starfsstétt hafa að leiðarljósi.
Í fyrsta lagi er frjálsu lýðræðisríki nauðsyn að einn valdþáttur stjórnskipunarinnar sé sjálfstætt og heilbrigt dómskerfi og með öllu óháð hinum tveimur valdþáttunum. Þó að miklar framfarir hafi átt sér stað hér síðustu áratugi hvað þetta varðar mætti enn skerpa á fjárhagslegu sjálfstæði dómsvaldsins og að því er varðar aðferðir við að velja dómara. En það er ekki einungis dómskerfið sem slíkt sem þarf að búa við sjálfstæði, enn mikilvægara er að það er ein af frumskyldum dómara að vera sjálfstæðir í störfum sínum og ákvörðunum, ekki aðeins gagnvart fulltrúum annarra valdþátta og hagsmunaaðilum, heldur einnig samstarfsmönnum. Þeim ber skylda til að komast að sjálfstæðri niðurstöðu í sérhverju máli, og byggja þar einvörðungu á þekkingu sinni á lögum. Sjálfstæði dómsvaldsins og dómaranna, og hlutleysi þeirra, er grundvallarforsenda fyrir og órjúfanlegur þáttur réttarríkisins. Sjálfstæði dómsvaldsins á að tryggja öllum rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Sjálfstæði dómara eru ekki forréttindi í þeirra þágu, heldur forsenda þess að dómskerfið virki og trygging fyrir því að frelsi og mannréttindi njóti verndar, og að almenningur megi búa við réttaröryggi.
Í öðru lagi er það skylda dómara að vinna af heilindum og óhlutdrægni, gæta jafnræðis, halda við þekkingu sinni og vera skilvirkir. Lögin og þjóðfélagið gera þessar kröfur til þeirra, en einnig þeir sjálfir og samfélag dómara. Þessi gildi eru hluti af starfsskyldum dómara og koma fram í siðareglum sem þeir hafa sett sér, bæði í einstökum löndum, við alþjóðlega dómstóla, og á alþjóðlegum vettvangi. Sjálfsinnræting og þjálfun dómara, í ljósi framangreindra grundvallargilda, marka inntak starfsskyldna dómara og sjálfsvirðingar og metnaðar til að sinna starfi sínu vel. Þeir gera sér grein fyrir því að aðeins með því að hafa þau í heiðri verður ásýnd dómsvaldsins þannig að þeir sem þurfa að leita réttar síns geti treyst sjálfstæði og óhlutdrægni þess, og sætt sig við niðurstöðu sem kann að vera önnur en lagt var upp með.
Þegar um er að ræða traust, eins og í öðrum tilvikum þegar um óhlutbundna eiginleika er að ræða, er auðveldara að rífa niður en að byggja upp. Þar af leiðandi fylgir því talsverð ábyrgð að setja fram ómálefnalega, ósanngjarna og ósannaða gagnrýni á dómara og dómskerfi. Á það sérstaklega við þegar lögfróðar manneskjur tala. Til dæmis er því stundum haldið fram að einhver afstaða lögmanna muni hafa áhrif á niðurstöðu dóms. Eins og hér að ofan hefur verið lýst, þá væri slíkt í algerri andstöðu við starfsskyldur og siðferðileg viðmið dómenda. Einnig er því stundum haldið fram að einn tiltekinn dómari eða jafnvel löglærðir starfsmenn dómstóla hafi slík áhrif, að dómendur þori ekki að taka aðra afstöðu en þeir leggja til. Nýlegt dæmi er fullyrðing sem höfð er eftir dönskum prófessor, Mads Bryde Andersen, þess efnis að lögfræðingar sem starfa hjá Mannréttindadómstól Evrópu, við að aðstoða dómara, ráði í raun niðurstöðu dóma þar ásamt dómara þess ríkis sem mál er höfðað gegn. Þetta er að sjálfsögðu af og frá. Við þann dómstól starfa dómarar sem valdir hafa verið vegna hæfni sinnar og þekkingar og hafa yfirleitt starfað lengi sem dómarar í sínu heimalandi. Hér verður að gera greinarmun á vinnu aðstoðarmanna sem safna gögnum og rýna fordæmi og þeirri ákvörðun sem dómendur taka síðan um niðurstöðu. Annað dæmi af sama tagi eru nýlegar fullyrðingar fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, um að sextán dómarar yfirdeildar sama dómstóls sinni ekki starfsskyldum sínum þar sem þeir séu ekki hæfir til sjálfstæðrar og óhlutdrægrar ákvarðanatöku vegna þess að þeir kunni ekki við að ganga gegn (meintri) afstöðu sautjánda dómarans, þ.e. íslenska dómarans. Slík háttsemi dómaranna sextán myndi brjóta gegn öllum þeim grundvallargildum sem dómarar starfa eftir og lýst hefur verið hér að framan. Fullyrðingar af þessu tagi eru alvarlegar og ábyrgðarhlutur að setja þær fram, án þess að stuðst sé við staðreyndir, þar sem þær eru til þess fallnar að grafa að ósekju undan trausti til dómstóla og þar með réttaröryggi í samfélaginu. Málefnaleg gagnrýni á starfshætti og niðurstöðu einstakra dóma er allt annars eðlis.
Höfundur er fyrrverandi hæstaréttardómari.