Það sem sjávarútvegurinn þarf að gera til að byggja upp traust

Auglýsing

Neðangreint er framsaga sem flutt var af greinarhöfundi á fundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um gagnsæi í greininni 25. febrúar 2020.

1. Stóraukin upplýsingagjöf

„Ef það á að skapast eitthvað traust milli almennings og vörsluaðila sjávarútvegsauðlindarinnar þá þarf að sýna mun betur inn í hvernig starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja gengur fyrir sig. Eðlilegt væri að sama upplýsingaskylda væri á öll sjávarútvegsfyrirtæki sem fá að halda á ákveðnum hluta af kvóta og hvílir á félögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað. 

Og góð rök eru fyrir því að upplýsingaskyldan ætti jafnvel að vera ítarlegri þegar um er að ræða fyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir í sameiginlegri eigu þjóðar. 

Í opinberum reikningum útgerðarfyrirtækja ætti að koma skýrt fram hvernig útflutningi er háttað, hversu stór hluti af afla er fluttur úr landi óunninn og hversu stóran hluta hans fyrirtæki selja sölufélögum sem þau eiga sjálf.

Í opinberum reikningum útgerðarfyrirtækja ætti að vera gerð skilmerkileg grein fyrir allri starfsemi samstæðunnar þannig að ekki sé nokkur vafi á því hvar raunveruleg framkvæmdastjórn hverrar einingar sé og þar af leiðandi skattskylda viðkomandi samstæðu. 

Það ætti líka að liggja skýrt fyrir hvar í virðiskeðjunni hagnaðurinn er tekinn út. Er það á Íslandi? Þýskalandi? Lúxemborg? Kýpur? Hvert er skattspor hvers fyrirtækis í hverju landi sem það starfar?

Auglýsing
Það þarf ekkert að vera ólöglegt að stýra hagnaði þangað sem það er ódýrast að borga skatta, en í ljósi þess að grunnurinn að starfsemi útgerðarfyrirtækja eru veiðiheimildir sem eru, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, „sameign íslensku þjóðarinnar“ þá er fullkomlega eðlilegt að þetta liggi skýrt fyrir.

Í opinberum reikningum útgerðarfyrirtækja ætti einnig að koma fram hversu stór hluti veiðiheimilda er veðsettur, hverjum þær eru veðsettar og fyrir hversu háa upphæð. Í ljósi þess að veiðiheimildir eru ekki eign sjávarútvegsfyrirtækjanna, og afar skiptar skoðanir eru um hvort það ætti yfirhöfuð að heimila veðsetningu þeirra, þá er eðlilegt að allar þessar upplýsingar liggi fyrir. 

Í liðinni viku lagði ríkisstjórnin reyndar fram drög að frumvarpi sem mun, verði það að lögum, skilgreina 15 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins sem „eining tengd almannahagsmunum.“ Þá munu þau þurfa að lúta mun strangari skilyrðum um gagnsæi og upplýsingagjöf. Útgerðarfyrirtækin og hagsmunasamtök þeirra ættu að styðja þetta frumvarp og jafnvel að hafa frumkvæði að því að stíga enn stærri skref í átt að því að stækka vasaljósið sem þarf að skína inn í rekstur þeirra. 

2. Tengdir aðilar

Það er auðvitað ótrúlegt að við séum árið 2020 að baxa við að setja löggjöf sem skilgreinir hjón og börn þeirra sem tengda aðila í sjávarútvegi. Þannig er hins vegar veruleikinn. Enn eru lög um stjórn fiskveiða þannig að fyrirtæki þarf að vera meirihlutaeigandi í öðru til að teljast tengdur aðili, á sama tíma og sú regla er við lýði að yfirtökuskylda skapist í skráðum félögum hérlendis við 30 prósent eignarhlut. 

Úttekt Ríkisendurskoðunar á Fiskistofu sem skilað var fyrir ári síðan sýndi að eftirlit með því hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé samkvæmt lögum, er í molum. Þ.e. að eftirlitsaðilinn með því að enginn hópur tengdra aðila ætti meira en 12 prósent af heildarafla væri ekki að sinna því eftirliti í samræmi við lög. „Fiskistofa treystir nánast alfarið á tilkynningarskyldu fyrirtækja við eftirlit með samþjöppun aflaheimilda,“ sagði í úttekt Ríkisendurskoðunar. 

Frægasta dæmið um ætlaða tengda aðila, sem hafa þverneitað því að vera tengdir, eru auðvitað Síldarvinnslan og Samherji. Í Samherjaskölunum svokölluðu sem Wikileaks birti í fyrra kom fram að fyrrverandi forstjóri Síldarvinnslunnar og framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar voru að kynna Síldarvinnsluna sem uppsjávarhluta Samherja á fundum erlendis á árunum 2011 og 2012.  Í frétt sem birtist á vef Síldarvinnslunnar árið 2013, ári eftir að umræddar glærukynningar, var fjallað um „villandi fullyrðingar um tengsl Síldarvinnslunnar og Samherja, þar sem viðkomandi aðilar hafa vísvitandi reynt að gera eignarhald á Síldarvinnslunni hf. tortryggilegt.“

Væru þessi tvö fyrirtæki, og önnur sem halda á kvóta og eru í þeirra eigu, skilgreind sem tengd þá væri samanlögð  afla­hlut­deild þeirra um 16,6 pró­sent samkvæmt tölum frá því í september, eða langt yfir lögbundnu hámarki, sem var sett til að koma í veg fyrir að of mikið af aflaheimildum myndi safnast á fárra hendur. 

Ég held að ég geti fullyrt að það séu ekki villandi fullyrðinga annarra sem hafi gert það eignarhald tortryggilegt.

3. Verðmyndun

Af hverju er ekki hægt að hafa bara eitt markaðsverð á hverri tegund? Af hverju er eitt verð milli tengdra aðila og annað, miklu hærra, verð sem sjálfstæðar fiskvinnslur eða sjálfstæðir útflutningsaðilar, og á endanum neytendur á heimamarkaði, þurfa að greiða? 

Samkvæmt samantekt Verðlagsstofu skiptaverðs frá því í ágúst í fyrra greiddu norsk fiskvinnslufyrirtæki allt að fjórfalt hærra verð fyrir makríl á síðustu árum miðað við það sem íslensk fyrirtæki greiddu. 

Auglýsing
Það er fullt af fólki sem skilur ekki af hverju þetta er. Af hverju er loftið ekki hreinsað með þeim hætti að allar upplýsingar eru uppi á borðum með þetta og það sé skýrt með vísun í gögn af hverju þessi verðmunur sé til staðar? 

Við skulum bara segja það eins og er, það er ekkert eftirlit með milliverðlagningu. Skatturinn sinnir því ekki. Það skapar eðlilega tortryggni gagnvart útveginum ef margir gruna hann um að stunda mikla milliverðlagningu, en hann sjálfur neitar því, og ekkert handbært er sett fram með opnum og gagnsæjum hætti til að staðfesta þá neitun. 

Það myndi gera gríðarlega mikið ef útgerðarfyrirtæki sem eiga sölufélög erlendis myndu einfaldlega samþykkja að opna algjörlega bækur sínar hvað þetta varðar, samhliða því að sú eining innan ríkisskattstjóra sem á að hafa eftirlit með þessu yrði margfölduð að mannafla og fjármagni.

4. Almenn hugleiðing um samfélagslega stöðu sjávarútvegs

Í júní 2019 var greint frá því í fjöl­miðlum að sex fyr­ir­tæki í sjáv­ar­út­vegi hafi stefnt íslenska rík­inu vegna úthlut­unar á mak­ríl­kvóta fyrir nokkrum árum. Kvóta sem fyrirtækin greiddu ekkert fyrir. 

Þau telja sig hafa orðið fyrir fjár­tjóni, sem hefur verið sagt nema tugum milljarða í fjölmiðlum.

Ég óskaði eftir því að fá stefnur þessara sex fyrirtækja gegn íslenska ríkinu, sem er auðvitað ekkert annað en fyrirsvar fyrir almenning í landinu, afhentar. Ríkislögmaður taldi að hann þyrfti að bera það undir lögmenn fyr­ir­tækj­anna sem um ræddi hvort þeir myndu sam­þykkja að upp­lýs­ingar um málin yrðu veittar. Þau neituðu því að stefnurnar yrðu afhentar. Þetta er ekki til að auka tiltrú, draga úr tortryggni og er sannarlega ekki í anda gagnsæis.

Í lok árs 2018 áttu íslensk sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki eigið fé upp á 276 millj­arða króna. Frá hruni og fram til þess tíma hefur eig­in­fjár­staða sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna batnað um 355 millj­arða króna.

Alls greiddu fyr­ir­tækin sér arð upp á 12,3 millj­arða króna á árinu 2018. Frá árinu 2010 hafa þau greitt 92,5 millj­arða króna til eig­enda sinna í arð­greiðsl­ur. ­Sam­an­lagt vænkaðist hagur sjáv­ar­út­veg­ar­ins um 447,5 millj­arða króna á einum ára­tug, og við vitum öll að það bættist vel í þann sarp í fyrra, þótt þær tölur séu enn sem komið er ekki opinberar.

Samhliða hafa stærstu útgerðir landsins teygt sig inn í aðra geira. Keypt ósjálfbæran fjölmiðlarekstur og sturtað milljörðum króna í að halda honum við, með tilheyrandi skaðlegum áhrifum á samkeppni. Orðið ráðandi í fyrirtækjum á tryggingamarkaði. Flutningamarkaði. Í innflutningi á neytendavörum. Í uppkaupum á atvinnuhúsnæði. Og svo framvegis. 

Í nafni gagnsæis er fullt tilefni, í fullri einlægni, að spyrja: Fyrir hvað eru stærstu sjávarútvegsfyrirtækin eiginlega að undirbúa sig með því að safna saman öllum þessu auði? Hversu stóran hluta atvinnulífs er eðlilegt að fólk úr einum geira, sem nýtir náttúruauðlindir í almannaeigu, nái að sölsa undir sig? 

Hversu mikið þurfa menn að eiga til að verða sáttir? 

Er til tala sem þarf að mæta? 

Ef svo er þá væri gagnsætt að geta fengið hana fram.“ 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari