Málsvörn dómskerfis – sjálfstæði dómstóla og traust til þeirra

Fyrrverandi hæstaréttardómari skrifar um íslenska dómskerfið.

Auglýsing

Við sem hér búum erum svo lánsöm að sam­fé­lag okkar er lýð­ræð­is­legt rétt­ar­ríki. Það merkir að stjórn­skip­unin er ákveðin með lögum og sam­skipti ein­stak­linga ráð­ast að miklu leyti af lög­um. Ein for­senda þess að ríki verði rétti­lega sagt vera rétt­ar­ríki er að ein­stak­lingar búi við réttar­ör­yggi. Það þýðir að lögin séu sann­gjörn og tryggi grund­vall­ar­rétt­indi, að þeim sé fram­fylgt af rétt­læti, og að ágrein­ingi þar um sé ráðið til lykta af sjálf­stæðum og hlut­lausum aðila. Lögin eru sett af lög­gjafa, fram­kvæmd af yfir­valdi, og ágrein­ingi um fram­kvæmd þeirra er ráðið til lykta af dóm­stól­um. Í dag­legu tali er vísað til þessa fyr­ir­komu­lags sem þrí­grein­ingar rík­is­valds­ins og er það lög­fest í 2. gr. stjórn­ar­skrár lýð­veld­is­ins. Hver hinna þriggja vald­þátta rík­is­valds­ins, lög­gjaf­ar­vald­ið, fram­kvæmda­valdið og dóms­vald­ið, hefur þannig ákveðið hlut­verk. Mik­il­vægt er að hver þeirra um sig sé sjálfstæður og óháður hinum tveim­ur. 

Með hug­tak­inu réttar­ör­yggi gætum við átt við það eitt að haldið sé uppi lögum og reglu, en það eitt og sér er þó ekki full­nægj­andi vegna þess að sú skil­grein­ing getur í sjálfu sér sam­rýmst harð­stjórn, ef krafan er ein­ungis sú að stjórnað sé með lög­um. Hug­takið réttar­ör­yggi felur því í sér að borg­ar­arnir viti að þeir njóti skjóls af rétt­látum lögum og ekki síður sann­gjarnri og rétt­sýnni fram­kvæmd þeirra. Þar sem starfs­skyldur dóm­ara fela í sér vald fylgir þeim jafn­framt mikil sið­ferði­leg ábyrgð. Þeir gera sér grein fyrir því, enda er það for­senda þess að almenn­ingur geti borið traust til dóms­kerf­is­ins að dóm­arar beiti valdi sínu ein­göngu til að fulln­usta hlut­verk þess í þágu sam­fé­lags­ins. Traust er for­senda þess að réttar­ör­yggi sé fyrir hendi. Það er því veru­legt áhyggju­efni að traust til dóm­stóla mælist aðeins 37% sam­kvæmt nýjasta þjóð­ar­púlsi Gallup og hefur lækkað frá síð­ustu könn­un.

Traust er þess eðlis að það verður ekki fyr­ir­skip­að, það er áunnið og ræðst af verkum og orð­spori við­kom­andi stofn­un­ar. Ef til dæmis væri um að ræða spill­ingu meðal dóm­enda eða að dómar þeirra byggðu á geð­þótta­á­kvörð­un­um, þá væri eðli­legt að traustið væri lít­ið. Annað sem hefur áhrif á traust er ásýnd. Ásýnd skiptir miklu máli, því hún hefur áhrif á upp­lifun fólks og þar með traust. Það er þetta sem átt er við þegar sagt er að ekki sé full­nægj­andi að rétt­lætis sé í raun gætt heldur verði það einnig að sjást. Til þess að koma í veg fyrir að skyn­sam­legur vafi komi upp við með­ferð ein­stakra mála fylgja dóm­arar því ákveðnum form­regl­um. Traust er hug­lægt og þar af leið­andi við­kvæmt, auð­veld­ara er að rífa það niður en að byggja það upp. Þannig geta til­teknir atburð­ir, eins og vand­ræðin í kringum skipun dóm­ara Lands­rétt­ar, eða nei­kvæð ummæli haft áhrif á upp­lifun fólks, og þar með traust. Að mati höf­undar þessa pistils eru nið­ur­stöður þjóð­ar­púls­ins grafal­var­legar en jafn­framt óverð­skuld­aðar og því mik­il­vægt að reynt verði að átta sig á orsökum þeirra. 

Auglýsing
Tilgangur dóms er að ljúka deilu, og því hlut­verki getur dóm­ari ekki losnað undan hversu erfitt sem það kann að vera, nema reglur um van­hæfi leyfi. Dóm­ari rök­styður nið­ur­stöðu sína í dómi, en eftir að dómur fellur er ekki ætl­ast til að hann eða hún ræði frekar dóm­inn eða þau rök sem fyrir nið­ur­stöð­unni voru. Það er því mik­il­vægt að texti dóms­ins sé eins skýr og vel rök­studdur og mögu­legt er, og geti staðið sjálf­stætt án frek­ari skýr­inga. Dómi er ætlað að vera endir þeirrar deilu sem hann fjallar um, með þeirri und­an­tekn­ingu að aðili máls getur fengið dóms­nið­ur­stöðu end­ur­skoð­aða af áfrýj­un­ar­dóm­stól þar sem fleiri dóm­arar sitja. Þegar tveir deila geta báðir haft eitt­hvað til síns máls, en oft er það þannig að annar reyn­ist hafa lögin með sér en hinn ekki.

Nið­ur­staða dóms fellur þá með þeim fyrr­nefnda, og ef ekki ríkir traust til dóm­stóla magnar það von­brigði og reiði þess sem tapar máli. Nú er það einnig svo að stundum er sjálfur texti lag­anna ekki alveg skýr um hvernig með eigi að fara við til­teknar aðstæð­ur, og þegar svo háttar til er það verk­efni dóm­ara að túlka lögin og beita öðrum rétt­ar­heim­ildum til þess að kom­ast að nið­ur­stöðu í þeirri deilu sem um er að ræða. Dóm­arar eru mann­eskjur en ekki vélar og því er það ekki alltaf svo að allir dóm­arar kom­ist að sömu nið­ur­stöðu þegar stað­reyndir eru metnar eða lög túlk­uð, og það þrátt fyrir að allir vandi til verka og haldi í heiðri þau gildi sem starfs­stétt þeirra hefur að leið­ar­ljósi. Þá getur ákvörðun dóm­ara verið umdeild, til dæmis í þeim til­vikum þar sem honum eða henni ber sjálfum að meta hæfi sitt. En ef ekki er hægt að tryggja að allt lög­lært fólk kom­ist alltaf að sömu nið­ur­stöðu um lausn laga­deilu eða ákvörðun dóm­ara, hver getur þá verið grund­völlur nauð­syn­legs trausts til dóms­kerf­is­ins þannig að hægt sé að tala um að réttar­ör­yggi sé fyrir hendi í sam­fé­lagi? Svarið við því er að finna í starf­inu sem slíku, eðli þess og skyldum - þeim gildum sem dóm­arar sem starfs­stétt hafa að leið­ar­ljósi. 

Í fyrsta lagi er frjálsu lýð­ræð­is­ríki nauð­syn að einn vald­þáttur stjórn­skip­un­ar­innar sé sjálf­stætt og heil­brigt dóms­kerfi og með öllu óháð hinum tveimur vald­þátt­un­um. Þó að miklar fram­farir hafi átt sér stað hér síð­ustu ára­tugi hvað þetta varðar mætti enn skerpa á fjár­hags­legu sjálf­stæði dóms­valds­ins og að því er varðar aðferðir við að velja dóm­ara. En það er ekki ein­ungis dóms­kerfið sem slíkt sem þarf að búa við sjálf­stæði, enn mik­il­væg­ara er að það er ein af frum­skyldum dóm­ara að vera sjálf­stæðir í störfum sínum og ákvörð­un­um, ekki aðeins gagn­vart full­trúum ann­arra vald­þátta og hags­muna­að­il­um, heldur einnig sam­starfs­mönn­um. Þeim ber skylda til að kom­ast að sjálf­stæðri nið­ur­stöðu í sér­hverju máli, og byggja þar ein­vörð­ungu á þekk­ingu sinni á lög­um. Sjálf­stæði dóms­valds­ins og dóm­ar­anna, og hlut­leysi þeirra, er grund­vall­ar­for­senda fyrir og órjúf­an­legur þáttur rétt­ar­rík­isins. Sjálf­stæði dóms­valds­ins á að tryggja öllum rétt til rétt­látrar máls­með­ferð­ar. Sjálf­stæði dóm­ara eru ekki for­rétt­indi í þeirra þágu, heldur for­senda þess að dóms­kerfið virki og trygg­ing fyrir því að frelsi og mann­rétt­indi njóti vernd­ar, og að almenn­ingur megi búa við réttar­ör­yggi.

Í öðru lagi er það skylda dóm­ara að vinna af heil­indum og óhlut­drægni, gæta jafn­ræð­is, halda við þekk­ingu sinni og vera skil­virk­ir. Lögin og þjóð­fé­lagið gera þessar kröfur til þeirra, en einnig þeir sjálfir og sam­fé­lag dóm­ara. Þessi gildi eru hluti af starfs­skyldum dóm­ara og koma fram í siða­reglum sem þeir hafa sett sér, bæði í ein­stökum lönd­um, við alþjóð­lega dóm­stóla, og á alþjóð­legum vett­vangi. Sjálfsinn­ræt­ing og þjálfun dóm­ara, í ljósi fram­an­greindra grund­vall­ar­gilda, marka inn­tak starfs­skyldna dóm­ara og sjálfs­virð­ingar og metn­aðar til að sinna starfi sínu vel. Þeir gera sér grein fyrir því að aðeins með því að hafa þau í heiðri verður ásýnd dóms­valds­ins þannig að þeir sem þurfa að leita réttar síns geti treyst sjálf­stæði og óhlut­drægni þess, og sætt sig við nið­ur­stöðu sem kann að vera önnur en lagt var upp með. 

Þegar um er að ræða traust, eins og í öðrum til­vikum þegar um óhlut­bundna eig­in­leika er að ræða, er auð­veld­ara að rífa niður en að byggja upp. Þar af leið­andi fylgir því tals­verð ábyrgð að setja fram ómál­efna­lega, ósann­gjarna og ósann­aða gagn­rýni á dóm­ara og dóms­kerfi. Á það sér­stak­lega við þegar lög­fróðar mann­eskjur tala. Til dæmis er því stundum haldið fram að ein­hver afstaða lög­manna muni hafa áhrif á nið­ur­stöðu dóms. Eins og hér að ofan hefur verið lýst, þá væri slíkt í algerri and­stöðu við starfs­skyldur og sið­ferði­leg við­mið dóm­enda. Einnig er því stundum haldið fram að einn til­tek­inn dóm­ari eða jafn­vel lög­lærðir starfs­menn dóm­stóla hafi slík áhrif, að dóm­endur þori ekki að taka aðra afstöðu en þeir leggja til. Nýlegt dæmi er full­yrð­ing sem höfð er eftir dönskum pró­fess­or, Mads Bryde And­er­sen, þess efnis að lög­fræð­ingar sem starfa hjá Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu, við að aðstoða dóm­ara, ráði í raun nið­ur­stöðu dóma þar ásamt dóm­ara þess ríkis sem mál er höfðað gegn. Þetta er að sjálf­sögðu af og frá. Við þann dóm­stól starfa dóm­arar sem valdir hafa verið vegna hæfni sinnar og þekk­ingar og hafa yfir­leitt starfað lengi sem dóm­arar í sínu heima­landi. Hér verður að gera grein­ar­mun á vinnu aðstoð­ar­manna sem safna gögnum og rýna for­dæmi og þeirri ákvörðun sem dóm­endur taka síðan um nið­ur­stöðu. Annað dæmi af sama tagi eru nýlegar full­yrð­ingar fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra, Sig­ríðar Á. And­er­sen, um að sextán dóm­arar yfir­deildar sama dóm­stóls sinni ekki starfs­skyldum sínum þar sem þeir séu ekki hæfir til sjálf­stæðrar og óhlut­drægrar ákvarð­ana­töku vegna þess að þeir kunni ekki við að ganga gegn (meintri) afstöðu sautj­ánda dóm­ar­ans, þ.e. íslenska dóm­ar­ans. Slík hátt­semi dóm­ar­anna sextán myndi brjóta gegn öllum þeim grund­vall­ar­gildum sem dóm­arar starfa eftir og lýst hefur verið hér að fram­an. Full­yrð­ingar af þessu tagi eru alvar­legar og ábyrgð­ar­hlutur að setja þær fram, án þess að stuðst sé við stað­reynd­ir, þar sem þær eru til þess fallnar að grafa að ósekju undan trausti til dóm­stóla og þar með réttar­ör­yggi í sam­fé­lag­inu. Mál­efna­leg gagn­rýni á starfs­hætti og nið­ur­stöðu ein­stakra dóma er allt ann­ars eðl­is. 

Höf­undur er fyrr­ver­and­i hæsta­rétt­ar­dóm­ari.

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Charles Michel, formaður leiðtogaráðs ESB, á blaðamannafundi síðasta föstudag.
Erfiðar viðræður um björgunarpakka ESB framundan
Aðildarríki Evrópusambandsins munu reyna að sammælast um björgunarpakka vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19 faraldursins næsta föstudag. Búist er við erfiðum viðræðum þar sem mikill ágreiningur ríkir milli landa um stærð og eðli útgjaldanna.
Kjarninn 12. júlí 2020
Stíflurnar loka fyrir flæði sjávar úr Adríahafi inn í Feneyjalónið.
Feneyingar prófa flóðavarnir sem beðið hefur verið eftir
Framkvæmdir við flóðavarnakerfi Feneyinga hafa staðið yfir frá því 2003. Verkefnið er langt á eftir áætlun og kostnaður við það hefur margfaldast.
Kjarninn 12. júlí 2020
Meiri áhugi virðist vera á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.
Fleiri kaupa utan Reykjavíkur
Talið er að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi komið í veg fyrir mikla niðursveiflu á íbúðamarkaðnum, sem tekið hefur við sér að nokkru leyti á síðustu mánuðum. Fleiri kjósa þó að kaupa íbúð utan höfuðborgarsvæðisins heldur en innan þess.
Kjarninn 12. júlí 2020
Trump stígur í vænginn við Færeyinga
Bandaríkjamenn hafa mikinn áhuga á aukinni samvinnu við Færeyinga. Þótt í orði kveðnu snúist sá áhugi ekki um hernaðarsamvinnu dylst engum hvað að baki býr.
Kjarninn 12. júlí 2020
Fé á leið til slátrunar.
Bændum á Íslandi heimilt að aflífa dýr utan sláturhúsa með ýmsum aðferðum
Yrði sláturhús á Íslandi óstarfhæft vegna hópsmits yrði fyrsti kosturinn sá að senda dýr til slátrunar í annað sláturhús. Ef aflífa þarf dýr utan sláturhúsa mega bændur beita til þess ýmsum aðferðum, m.a. gösun, höfuðhöggi og pinnabyssu.
Kjarninn 12. júlí 2020
Þriðjungsfjölgun í Siðmennt á rúmu einu og hálfu ári
Af trúfélögum bætti Stofnun múslima á Íslandi við sig hlutfallslega flestum meðlimum á síðustu mánuðum. Meðlimum þjóðkirkjunnar heldur áfram að fækka en hlutfallslega var mesta fækkunin hjá Zúistum.
Kjarninn 11. júlí 2020
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri Hveragerðis.
„Við þurfum fleiri ferðamenn“
Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga telur nauðsynlegt að fleiri ferðamenn komi til Íslands sem fyrst og vill breytingar á fyrirkomulagi skimana á Keflavíkurflugvelli.
Kjarninn 11. júlí 2020
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Frekju og yfirgangi Ísraels engin takmörk sett
Kjarninn 11. júlí 2020
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar