Ríkisstjórnin vinnur að því að efna í nýja bankasölu með einkarekstur ríkisbankanna tveggja að markmiði. Reynsla staðfestir að þetta er hættuspil. Útsala bankanna til einkarekstrar er áreiðanlega misráðin.
Hins vegar er það líka ljóst að ríkisrekstur viðskiptabanka er kveikjari lagður við púðurtunnu. Ríkið á ekki að koma beint að slíkum rekstri. Virk áhætta ríkisins af fjármálakerfinu er ótvíræð, eins og dæmin sanna, og stórhættulegt að bæta þar nokkru við.
Skiljanlegt er að ríkisvaldið vilji koma fingri að í einum viðskiptabanka, en til slíks eru margar leiðir færar aðrar en bein eignaraðild. Auk þess er augljóst að setja verður bönkunum reglur sem miðast við fengna reynslu um ráðdeild, vandvirkni, reglufestu og þjóðhagsvarúð.
Í stað sölu til einkarekstrar á að breyta báðum ríkisbönkunum í sjálfseignarstofnanir sem starfa að arðsóknarlausri samfélagsþjónustu. Þá er átt við almenna bankaþjónustu við einstaklinga og fjölskyldur, fyrirgreiðslu við húsnæðismál almennings og venjulegar fjárhagslegar þarfir fólksins. Í þessari starfsemi getur fyrirgreiðsla við námsfólk vel átt sess, svo og við einkarekstur einstaklinga, byggðatengd verkefni og önnur sambærileg menningar - og samfélagsmál.
Þessi svið geta eðlilega orðið arðsækin dótturfyrirtæki nýrra viðskiptabanka. Og vilji ríkisvaldið fá til sín endurgjald fyrir bankana koma ákvæði í stofnsamþykktum þeirra vel til greina um að slík dótturfélög greiði af arði sínum einhvern hlut til ríkisins.
Stjórnun bankanna getur orðið með þeim hætti að mynduð séu fulltrúaráð með fulltrúum frá fjármálakerfinu, atvinnulífinu og aðilum vinnumarkaðarins og sveitarfélögum. Þá getur ríkisvaldið átt sína fulltrúa þar, bæði kjörna á Alþingi og ráðherraskipaða. Fulltrúaráð kýs síðan bankaráð. Ákvæði í samþykktum kveða á um það, eftir því sem mönnum þykir best henta, að fulltrúaráðið eða bankaráðið velji bankastjórn.
Höfundur er fyrrverandi skólastjóri.