Það hefur heldur betur gustað í umræðum um sölu orkufyrirtækja á grænum upprunaábyrgðum og allskonar upphrópanir ómað í bæði fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Til að skilja mikilvægi þessa kerfis, án þess að fara strax uppá há C-ið, þá er ágætt að gleyma aðeins Íslandi um stund og skoða mikilvægi kerfisins úr frá meginlandi Evrópu.
Skilvirkt kerfi
Neysla og framleiðsla eru óaðskiljanlegar systur. Öll neysla er algerlega háð einhverri framleiðslu og öfugt. Raforkuframleiðsla með jarðefnaeldsneyti er ósjálfbær og mengandi. Í gegnum tíðina hafa verið reyndar ýmsar leiðir til að efla græna raforkuframleiðslu í Evrópu. Vandamálið er að Raforkukerfi Evrópu er samtvinnað sem þýðir að bæði kolaorkuver og vindmyllur framleiða inn í sameiginlegan suðupott rafeinda sem notendur taka svo út af, án þess að geta valið milli grænna eða dekkri lausna. Áður en græn skírteini komu til sögunnar var erfitt fyrir græna raforkuframleiðendur og umhverfisvæna notendur að tengjast með beinum hætti. Grænar upprunaábyrgðir er kerfi sem leysti þennan vanda og sló margar flugur í einu höggi. Með upptöku á kerfinu sköpuðust þessi skilyrði:
A) nú getur umhverfisvænn notandi pantað eða tekið frá fyrir sig græna raforkuframleiðslu, án þess hreinlega að leggja eigin streng að vindorkuveri.
B) nú getur umhverfisvænn notandi sannað að hann var sannarlega að kaupa græna raforku.
C) nú getur grænn raforkuframleiðandi selt upplýstum og umhverfisvænum notenda græna raforku, án þess að leggja til hans sér streng.
D) nú fær grænn raforkuframleiðandi verðskuldaða og kærkomna bónusgreiðslu fyrir grænni framleiðslu.
E) umfram allt er komið í veg fyrir blekkingar kaupenda sem héldu fram, án formlegrar staðfestingar, að þeir væru bara að nota græna raforku. Það besta er svo að þegar öll raforkuframleiðsla verður á endanum orðin græn þá leggst kerfið sjálfkrafa af.
Þetta kerfi hefur sannarlega virkað sem alger vítamínsprauta fyrir græna raforkuframleiðslu í Evrópu en einnig hjálpað umhverfisvænum fyrirtækjum að fá faglega vottun um græna stefnu. Flestir geta verið sammála um að vottunarkerfi geta hjálpað bæði fyrirtækjum og neytendum að velja rétt. Það er t.d. þægilegra og öruggara að fá vottun þriðja aðila. Tökum sem dæmi Fairtrade merkingu, en slík merking tryggir að kaffibaunir séu keyptar frá framleiðenda sem ekki stundar barnaþrælkun. Slík vottun er örlítið öruggari en fullyrðing einstakra söluaðila sem eru jafnmisjafnir eins og þeir eru margir. Eins er mun þægilegra og faglegra að að geta hreinlega gert kröfu á þrifaþjónustu að notaðar séu Svansmerkar vörur í stað þess að leggjast sjálfur yfir hvert og eitt hreinsiefni sem viðkomandi fyrirtæki notar.
Ísland og upprunaábyrgðir
Þá förum við loksins til Íslands. Ísland hefur tvöfalda sérstöðu. A) Við framleiðum alla okkar raforku með grænum hætti og B) 85% framleiðslunnar fer á alþjóðalegan markað. Já, á alþjóðlegan markað. Raforkan okkar er útflutningsvara þó engin sé sæstrengurinn. Stórnotendur á Íslandi nota íslenska raforku til að framleiða vörur eða þjónustu sem fer öll á alþjóðamarkað. Það er því ekkert skrýtið, að mínu mati, að íslenskir raforkuframleiðendur fái alvöru vottun á íslenska orku til að sýna fram á gæði hennar á alþjóðamarkaði. Stórnotendur á Íslandi geta auðveldlega keypt þessa vottun og staðfest þannig formlega að þeirra vara er raunverulega framleidd með grænum hætti. En þarf einhverja vottun, vita ekki allir í heiminum að íslensk orka er græn? Í fyrsta lagi er það nú ekki alveg öruggt og í öðru lagi þá vilja erlend fyrirtæki í meira mæli fá alvöru vottanir á slíku fyrir sína faglegu umhverfisstjórnun. Þetta er ástæða þess að fyrirtæki eru að innleiða vottanir og staðla, því að í flóknu og hröðu alþjóða viðskiptaumhverfi eru gerðar æ meiri kröfur um fagmennsku og óháðar vottanir þriðja aðila.
Breyttir tímar
Heimsmarkaðsverð á vörum eins og áli er lágt um þessar mundir og svigrúmið til vottunarkaupa mögulega lítið. Þetta mun þó vonandi breytast t.d. þegar rafbílaframleiðsla fer á flug en í rafbílum er um 20% meira af áli en í hefðbundnum bílum. Þar að auki, þá gera rafbílakaupendur almennt þá kröfu að að kolefnisspor rafbílaframleiðslu sé sem allra lægst. Volkswagen stefnir t.d. á að rafbílar þeirra verði kolefnishlutlausir þegar kaupandi tekur við þeim sem þýðir jafnframt að VW mun reyna allt til að hráefnin í bílana verði með sem lægst kolefnisspor. Þá er nú heldur betur vænlegra að kaupa íslenskt ál en kínverskt og VW fyrirtækið mögulega tilbúið að borga meira fyrir slíkt hráefni. Ef fyrirtækið fer þá leið þá mun það líklega krefjast vottunar á slíkri framleiðslu. Þá hlýtur að vera mikilvægt fyrir Ísland að vera þátttakendur í upprunavottorðakerfinu. Þessu má líkja við hvernig sumir íslenskir fiskframleiðendur leitast eftir formlegum vottunum sem segja til um að íslenskur fiskur sé veiddur úr sjálfbærum stofnun. Það er mun vænlegra en að vona bara að erlendir kaupendur viti að íslenskt fiskveiðistjórnunarkerfi sé til fyrirmyndar. Við, sem eigendur auðlindarinnar sem við seljum að mestu á erlenda markað, hljótum að mega fá alþjóðlega gæðavottun á hana. Það er eitthvað fáránlegt við það að vera ekki þátttakendur í slíku kerfi og svipta þannig íslensk útflutningsfyrirtæki möguleikanum á því að selja vörur með vottaðri grænni raforkunotkun. Það væri t.d. súrt fyrir íslenskan bleikju- eða tómataframleiðanda að geta ekki selt vörurnar á franskan Michelin stað sem mögulega gerir kröfur til allra sinna birgja um vottaða græna raforkunotkun.
Gjöf eða sala
Tekjurnar af sölu þessara ábyrgða enda með einum eða öðrum hætti í ríkissjóði t.d. í gegnum arðgreiðslur Landsvirkjunar, fyrirtæki sem við eigum öll saman. Nú kynnti ríkisstjórnin nýverið 600 milljóna króna framlag í það að hraða lagningu á jarðstrengjum og annað eins þarf svo til að jafna dreifingarkostnaði raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis. Er óeðlilegt að þeir peningar sem koma úr orkuauðlindinni í gegnum upprunaábyrgðakerfið verði nýttir til innviða uppbyggingar og kostnaðarjöfnunar í orkugeiranum?
Græn upprunavottorð fylgja núna með raforkukaupum allra heimila og fyrirtækja fyrir utan allra stærstu notendurna. Uppi eru háværar kröfur frá þessum stórnotendum raforku um að við förum út úr þessu kerfi. Það er spurning hvort við sem eigendur auðlindarinnar og orkufyrirtækjanna sættum okkur við að mega ekki fá óháða vottun á hreinleika auðlindarinnar. Við gætum líka valið að láta stórnotendur fá þessar vottanir endurgjaldslaust þ.e.a.s. hreinlega gefið þeim milljarða af staðfestum verðmætum sem raforkuauðlindin okkar gefur. Hvort sá gjörningur væri sanngjarn og eðlilegur, verður hver og einn landsmaður og jafnframt eigandi auðlindarinnar, að gera upp við sjálfan sig.
Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.