Það er þörf á róttækum breytingum á erfðafjárskatti. Með því að reikna skattafslátt fyrir hvern og einn erfingja en ekki búið í heild, og með því að hækka afsláttinn, fellur erfðafjárskattur niður eða lækkar verulega hjá megin þorra allra þeirra sem fá arf.
Samkvæmt gögnum frá Skattinum var miðgildi hreinnar eignar dánarbúa árið 2017 14,5 milljónir, miðgildi arfs til hvers erfingja var 3,5 milljónir og að rúm 81% þeirra sem fengu arf fékk minna en 10 milljónir í arf.
Núgildandi lög gera ráð fyrir að skattstofn erfðafjárskatts sé verðmæti dánarbúsins að frádreginni 1,5 milljón króna. Af því greiðist svo 10% erfðafjárskattur. Fjöldi erfingja hefur engin áhrif á skattlagninguna.
Viðreisn hefur lagt fram frumvarp sem gerir ráð fyrir að skattstofninn verði ekki lengur verðmæti dánarbúsins heldur sá arfur sem fellur hverjum erfingja í hlut. Hver og einn erfingi þarf ekki að greiða skatt af fyrstu 6,5 milljónum sem hann fær í sinn hlut. Þannig hefur fjöldi erfingja áhrif á skattheimtu ríkisins af hverju dánarbúi. Þessi persónubundni afsláttur leiðir einn og sér til skattleysis verulegs hluta þeirra sem fá arf.
Gert er ráð fyrir að tekin verði upp þrjú skattþrep þannig að að arfinum sem er á bilinu 6,5 - 15 milljón greiðist 10%, af því sem er á bilinu 15 - 30 milljónir greiðist 15% og loks 20% af því sem er umfram 30 milljónir. Með þessu er tryggt að hver og einn erfingi sem fær allt að 25 milljónum í sinn hlut af hreinni eign dánarbús greiðir ýmist engan skatt eða lægri skatt en samkvæmt gildandi kerfi. Skattalækkunin mun ná til a.m.k. 80% allra sem fá arf og mun nema allt að 1,5 milljarði króna samanlagt.
Tillögur Viðreisnar leiða til þess að erfðafjárskattur mun lækka hjá 80% greiðenda en hækka hjá um 20% greiðenda. Erfðafjárskatturinn verður samkvæmt tillögunum aldrei hærri en 20%, sama hve mikill arfur verður, en til samanburðar má nefna að fjármagnstekjuskattur er 22%.
Að hluta til fela því tillögurnar í sér tilflutning á skattbyrði milli þeirra sem minnst fá í arf til þeirra sem mest fá.
Arfur verður ekki til fyrr en bú hefur verið gert upp. Að vissu leyti má segja að tilviljun ráði hvað komi til skipta og auki þannig eignir og tekjumöguleika erfingja. Það er eðlilegt að þeir erfingjar sem mest fá greiði hlutfallslega mest í skatt. Breytingin stuðlar líka að því að draga úr auðsöfnun á fárra manna hendur. Með því að persónubinda afsláttinn fá fleiri í sinn hlut arf án skattheimtu. Þannig dreifist arfur betur til einstaklinga í samfélaginu um leið og erfðafjárskattur sem kemur í hlut ríkisins við skipti flestra dánarbúa lækkar.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.