Þann 11. mars fagna Litháar 30 ára afmæli síns endurheimta sjálfstæðis. Eftirfarandi grein er byggð á fyrirlestri sem höfundur átti að flytja á afmælishátíðinni við háskólann í Vilnius. Öllum hátíðarhöldum hefur hins vegar verið slegið á frest, út af COVID19. Greinin birtist í fjölmiðlum í Litháen og Eistlandi og á ensku í Baltic Times.
„Leiðtogar Vesturlanda stóðu frammi fyrir því að hrun Sovétríkjanna fékk þeim upp í hendur einstakt tækifæri til að gróðursetja lýðræði og réttarríki í Rússlandi. Samt mátti öllum ljóst vera að þessu fylgdi mikil áhætta“.
(Stephane Kieninger í „Money for Moscow: The West and the question of financial assistance for Mikhail Gorbachev“ (í bókinni „Exiting the Cold War – Entering a New World“, ritstjórar: Hamilton og Spohr, Johns Hopkins University).
FALL BERLÍNARMÚRSINS 9. nóvember 1989 markaði tímamót. Það gerðist eiginlega bara fyrir slysni. Misskilningur milli lágtsetts landamæravarðar og yfirmanna hans í Austur-Þýskalandi hratt þessu öllu af stað. Þar með hófst atburðarás sem breytti sögunni. Þetta var hvorki fyrirséð, undirbúið né fyrirskipað af yfirvöldum.
Uppreisn almennings
Þetta var „lýðræði“, í hinni eiginlegu merkingu orðsins: grasrótarlýðræði. Eitt leiddi af öðru. Ríki mið- og austur Evrópu losnuðu undan oki Sovétríkjanna. Sameining Þýskalands gekk friðsamlega fyrir sig. Eystrasaltsþjóðir endurheimtu sjálfstæði sitt. Og tveimur árum síðar voru hin fyrrum voldugu Sovétríki ekki lengur til. Þau leystust upp í frumparta sína – friðsamlega – án þess að þriðja heimsstyrjöldin skylli á. Enginn sá þetta fyrir. Frægt er að Kohl Þýskalandskanslari sagði skömmu áður: „Ekki meðan ég lifi“. Samt voru sjúkdómseinkennin – banamein sovéska nýlenduveldisins - lýðum ljós. En maðurinn sem vildi ráða bót á þeim meinsemdum – sem boðaði opnun og kerfisbreytingu (Glasnost og Perestroiku) – Mikhail Gorbachev - varð í staðinn sjálfur fórnarlamb breytinga, sem hann réði ekkert við.
Þessara atburða er nú víða minnst á 30 ára afmælinu. Johns Hopkins University í Washington DC gaf á s.l. hausti út meiri háttar rit í samvinnu við Brookings Institute þar sem höfundar leitast við að leggja mat á orsakir og afleiðingar þessara sögulegu viðburða. Ritstjórarnir, Daniel S. Hamilton og Kristina Spohr, láta hér leiða saman hesta sína einstaklinga, sem á þessum tíma voru í innsta hring Gorbachev, Bush eldra, Kohl kanslara, Mitterrand Frakkaforseta og annarra sem þarna komu við sögu.
Tveir höfundanna, þ.á.m. undirritaður og Mart Laar fv. forsætisráðherra Eista, fjalla um sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða sem undanfara að upplausn og hruni Sovétríkjanna. Þarna er einnig að finna innblásnar greinar eftir hugsuði pólsku frelsishreyfingarinnar, Solidarnosc, sem afhjúpa miskunarlaust andlega örbirgð sovétkommúnismans. Einnig er þarna að finna greiningar fræðimanna af yngri kynslóð sem hafa sökkt sér ofan í hin sögulegu skjöl um þessa atburði, sem aðgengileg eru orðin á skjalasöfnum.
Allir þessir höfundar, sem nálgast viðfangsefnið frá ólíkum sjónarmiðum, leita svara við ótal spurningum. Hvers vegna hrundu Sovétríkin? Hver voru viðbrögð leiðtoga vestrænna lýðræðisríkja? Gripu þeir hið einstaka tækifæri sem þeim gafst þarna til að stuðla að gróðursetningu lýðræðis og réttarríkis í Rússlandi og Evrasíu? Eða vissu þeir einfaldlega ekki hvaðan á þá stóð veðrið og brugðust því við atburðarrásinni – of lítið og of seint – fremur en að stýra henni? Er lokaniðustaðan, sú að þeir hafi í grundarvallaratriðum brugðist – glutrað niður þessu einstaka tækifæri til þess að búa jarðarbúum meira öryggi?
Hrun Sóvetríkjanna
HVERS VEGNA HRUNDU SOVÉTRÍKIN? Sendiherra hennar hátignar í Moskvu (1987-90), Roderick Lyme, svarar spurningunni á þessa leið:
„Það voru þjóðir Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins, sem bundu endi á Kalda stríðið og kollvörpuðu kommúnismanum. Það var ekki Ronald Reagan að þakka að Kalda stríðið fjaraði út þegar það gerðist. Gerandinn, sem hratt þessari atburðarrás af stað, var Mikhail Gorbachev, sem lagði upp í þennan leiðangur með það að leiðarljósi að bjarga sovétkerfinu, en endaði með því að vera sópað burt með því.“
Þetta má einnig orða á annan veg: Undir lok valdatíma Gorbachev (1985-92) voru Sovétríkin einfaldlega gjaldþrota, bæði efnahagslega og hugmyndalega. Það varð að lokum hlutskipti Gorbachevs að ganga aftur og aftur með betlistaf í hendi á fund vestrænna leiðtoga, til að betla um lán til þess að halda kerfinu á floti frá degi til dags. Eftirmaður hans, Boris Yeltsin, fékk við ekkert ráðið og sat hjálparvana uppi í rústunum.
David C. Gompert, fyrrum aðstoðarmaður Henrys Kissinger, utanríkisráðherra BNA og sovétsérfræðingur, lýsir ástandinu undir lokin á þessa leið:
„Sovétveldið var ósamstæð blanda af marxískri hugmyndafræði, miðstýrðum áætlunarbúskap, ofvöxnu skrifræði flokks og ríkis, rússneskri nýlendustefnu og átakapólitík við Vesturlönd. Allt þetta hátimbraða bákn hrundi undan eigin þunga. Hugmyndafræðin hafði ofnæmi fyrir sannleikanum; áætlunarbúskapurinn útilokaði frumkvæði og nýsköpun; skrifræðið var dauðanum vígt; áróðursmaskínan var veruleikafirrt; ofvaxið hernaðarbáknið sligaði hagkerfið; vígbúnaðarkapphlaupið sogaði til sín allt fjárfestingarfjármagn og rekstur heimsvaldakerfisins, þ.m.t. hernaðaríhlutanir á Kúbu, í Afríku og undir lokin í Afganistan leiddu til gjaldþrots. Sovétríkin voru einfaldlega ósamkeppnisfær við Vesturlönd, hvort heldur varðaði tækni og nýsköpun, hagvöxt, hernaðarmátt, eða samkeppni pólitískra hugmynda. Þegar heimsmarkaðsverð á olíu og gasi – sem var eina auðsuppspretta þessa vanþróaða kerfis – hrundi, má segja að það hafi veitt þessu aðframkomna kerfi nábjargirnar.“
Annar sendiherra Breta í Moskvu (1988-92), Sir Roderich Braithvaite, orðar sjúkdómsgreiningu sína á þennan veg:
„Fjörbrot Sovétkerfisins stóðu í heilan áratug og leiddu af sér pólitíska upplausn og efnahagslega örbirgð á tímabili Yeltsins. Svokallaðir sérfræðingar á vegum stofnana Vesturlanda eins og Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF/AGS) kunnu lítt til verka og höfðu við enga reynslu að styðjast um það, hvernig ætti að hreinsa upp rústirnar og leggja undirstöður að starfhæfu markaðskerfi. Þetta var tómt hálfkák. Eftirá undruðust margir hvers vegna Pólverjar kunnu mun betur til verka við að verkstýra umskiptunum. Svarið er að finna að hluta í því að stærð Rússlands var óviðráðanleg; Rússar höfðu enga reynslu af starfhæfu markaðskerfi; sú staðreynd að Rússar höfðu sjálfir byggt upp þetta kerfi, sjálfum sér að fjörtjóni og því næst þröngvað því upp á Pólverja og aðrar þjóðir Austur-Evrópu, olli því að hinar síðarnefndu þjóðir voru tiltölulega fljótar að varpa af sér okinu.“
ÞETTA ER HÁLFSANNLEIKUR. Vissulega er það rétt að sovétkerfið var við dauðans dyr. Því var ekki við bjargandi fremur en nýlenduveldum Breta eða Frakka eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Umbótamaðurinn, Mikhail Gorbachev, sem vildi koma fram umbótum til að bjarga kerfinu frá fyrirsjáanlegu hruni, hafði hvorki hugmyndir né reynslu við að styðjast um, hvernig ætti að gera það, né heldur hafði hann fjárhagslega burði til þess. Hann þurfti pólitíska áfallahjálp. Og það strax.
Marshall-áætlun?
Hver voru viðbrögð leiðtoga Vesturlanda? Þeir bundu allt sitt trúss við það að halda Gorbachev við völd, án þess að gera nokkuð sem að gagni kom, til að gera það mögulegt. Olíumaðurinn frá Texas, George H. W. Bush Sr. (1988-92) sem átti að ráða för á þeim tímamótum sem skiptu sköpum, þrástagaðist á því alla sína tíð, að fjárhagsaðstoð kæmi ekki til greina, nema fyrir lægi áætlun um framkvæmdina. En liðið í kringum hann kunni ekkert til þeirra verka.
ÞAÐ SEM ÞURFTI VAR NÝ MARSHALL-ÁÆTLUN. Hún hefði þurft að vera sambærileg að umfangi og sú Marshall-áætlun sem Bandaríkin veittu Evrópu eftir stríð (ekki síst af ótta við valdatöku kommúnista t.d. á Ítalíu og í Frakklandi) til að reisa hana við úr rústum. Auðvitað átti ekki að dæla fjármagni ofan í svarthol sovétkommúnismans. Það þurfti að vinna eftir þaulhugsaðri áætlun um framkvæmd umskiptanna. Yavlinsky-áætlunin, sem var unnin í samstarfi Rússa (Yavlinsky og Gaidar) og Harvard háskóla var nothæf til síns brúks. Framkvæmdin hefði kostað u.þ.b. 150 milljarða dala á 5 ára tímabili. Þetta var spurning um að vera eða vera ekki. Hætta fúskinu, en leggja það undir, sem þyrfti, til að ná árangri. Þarna var tækifærið til þess að hjálpa lýðræðisöflunum í Rússlandi við að „láta frelsi og lýðræði skjóta rótum í rússneskum jarðvegi“.
Eini vestræni leiðtoginn sem skildi þetta og greip tækifærið var Kohl Þýskalandskanslari. Sá hinn sami og hafði sagt að þetta tækifæri kæmi ekki á hans æviskeiði. Það kom nú samt. Og hann reyndist vera vandanum vaxinn. Hann náði samningum við Gorbachev í nokkrum áföngum um friðsamlega sameiningu Þýskalands og áframhaldandi veru sameinaðs Þýskalands í NATÓ. Og hann reiddi fram það fé sem þurfti. Upphaflega 20 milljarða þýskra marka til að innsigla gjörninginn. Að lokum nálgaðist reikningurinn 100 milljarða marka fram að árinu 1994 til þess að kosta brottflutning Rauða hersins frá A-Þýskalandi. Kohl borgaði reikninginn og fékk það sem hann vildi. Og átti þó eftir að borga mun hærri reikninga fyrir endurreisn A-Þýskalands og aðlögun þess að vestur-þýska hagkerfinu.
Bush Bandaríkjaforseti lét hins vegar tækifærið sér úr greipum ganga. Hann var algerlega óviðbúinn. Viðbrögðin voru fát og fum. Því til sönnunar er hin alræmda „kjúklinga-ræða“, svo kölluð, sem hann flutti í þinginu (Verkovna Rada) í Kyiv 1. ágúst 1991, þremur vikum áður en Úkraína lýsti yfir sjálfstæði; og nákvæmlega 145 dögum áður en Sovétríkin hrundu. Og hver var boðskapurinn? Hann skoraði á Úkraínumenn að „ánetjast ekki öfgakenndri þjóðernishyggju“, heldur að „halda Sovétríkjunum saman – í nafni friðar og stöðugleika“. „Heimsmet í dómgreindarleysi“ að mati stjórnmálaskýranda NYTimes, Williams Safire. Það er síst ofmælt.
ÞAÐ VAR ÞARNA sem tækifærinu var glutrað niður – þessu einstaka tækifæri til að breyta heiminum til hins betra fyrir nýjar kynslóðir. Það var þarna sem leiðtogum lýðræðisríkja vesturlanda brást bogalistinn. Bush hefur oft verið gagnrýndur fyrir að hann skorti alla framtíðarsýn – „the vision-thing“ – eins og hann kallaði það sjálfur með niðrandi orðbragði. Gorbachev var samstarfsfús, enda lá pólitísk líf hans við.
Hefðu lýðræðisöfl Rússlands getað lagt traustan grunn að lýðræðislegum stofnunum og starfhæfu markaðskerfi í Rússlandi, ef þeim hefði staðið til boða Marshall-áætlun af því tagi, sem hér hefur verið lýst? Og nauðsynlegur fjárhagsstuðningur til að hrinda henni í framkvæmd? Hefðum við þar með getað látið vonir okkar rætast um nýtt öryggiskerfi til frambúðar – „a Eurasian-Atlantic security system“? Ég veit það ekki. Það veit það enginn. Vegna þess að leiðtogar Vesturlanda létu tækifærið sér úr greipum ganga. En fyrirfram er engin ástæða til að halda að þetta hefði verið óvinnandi verk – mission impossible.
Sósíalískt markaðskerfi?
Var aðferðafræðin við umskiptin frá miðstýrðu hagkerfi af sovésku gerðinni yfir í valddreift en starfhæft markaðskerfi undir lýðræðislegri stjórn óþekkt fyrirbæri – terra incognita – í hagfræðinni? Fjarri því. Módelið er alþekkt. Það heitir hið félagslega markaðskerfi, sem byggt var upp úr rústum Evrópu eftir stríð.
Kunnur hagfræðingur, Acemoglu við MIT háskólann, lýsir þessu svona:
„Þetta félagslega markaðskerfi festi rætur í Evrópu – með bestum árangri á Norðurlöndum – á seinni helft 20stu aldar. Það snýst um að halda aftur af óbeisluðum markaðsöflum, draga úr ójöfnuði og bæta lífskjör hinna verst settu... Í stuttu máli sagt: Evrópskt „social-democracy“ er kerfi sem snýst um að hafa stjórn á markaðskerfinu en ekki að leggja það niður.“
Acemoglu hefur ýmislegt að segja um þann árangur sem þetta markaðskerfi hefur náð:
„Félagslegt markaðskerfi – „social-democracy“ – lagði grunninn að efnahagslegri velmegun hvarvetna í hinum iðnvædda heimi eftir seinna stríð. Þetta á líka við um Bandaríkin þar sem New Deal Roosevelts og aðrar umbætur í framhaldi af því festu í sessi veigamikla þætti hins félagslega markaðskerfis, þ.á.m. samninga stéttarfélaga um kaup og kjör, félagslegar tryggingar og gjaldfrjálsan aðgang að menntun“.
VORU LEIÐTOGAR ANDÓFSAFLA innan Sovétríkjanna og í löndum mið- og austur Evrópu fáfróðir um þessa aðferðafræði? Vissulega ekki. Innan hagfræðinnar er vel þekkt kenningakerfi undir nafninu „sósíalískt markaðskerfi“, sem kennt er við nafn pólska útlagahagfræðingsins Oskars Lange. Það var á sínum tíma m.a.s. kennt við nafn hans og Chicago skólann: Chicago skóli Oskars Lange, til aðgreiningar frá Chicago skólanum, sem kenndur er við nýfrjálshyggju Miltons Friedman.
Fyrir langa löngu, nánar tiltekið árið 1961, gafst mér tækifæri til þess að slást í hóp fáeinna hagfræðistúdenta frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum til að taka þátt í sérstöku námskeiði í Sakopane í Tatrafjöllunum í Póllandi, þar sem kennsluefnið var nákvæmlega þetta: „The socialist-market economy“: Leiðbeinendur okkar voru lærðir fræðimenn frá Póllandi (Bobrowsky) og Tékkóslóvakíu (Ota Sik). Þarna var farið yfir aðferðafræðina við það að aflétta hinum miðstýrða áætlunarbúskap í áföngum og að innleiða samkeppni á markaði í staðinn.
Í landbúnaði átti þetta að gerast með því að afleggja ríkisþvingaðan samyrkjubúskap og leyfa þeim sem erjuðu jörðina að selja afurðir sínar á mörkuðum í nærliggjandi borgum. Næsta verk var að viðurkenna ýmis form eignarréttar (einkaeign, samvinnufélög o.fl.) í efnahagsstarfseminni, allt undir merkjum samkeppni á markaði, bæði varðandi framleiðslu og dreifingu á vörum og þjónustu. Náttúruauðlindir ættu hins vegar að vera í opinberri eigu (eins og er á Norðurlöndum). Og ríki eða sveitarfélög ættu að hafa á hendi grunnþjónustu (eins og menntakerfi, heilbrigðisþjónustu, orkuframleiðslu og dreifingu, og almannasamgöngur), sem væri veitt sem almannaþjónusta, án hagnaðarsjónarmiða.
Norræna módelið
ÞETTA ER NORRÆNA MÓDELIÐ. Það er nú þegar viðurkennt af þeim sem skyn bera á sem árangurríkasta samfélags- og efnahagsmódel samtímans. Á umþóttunartímanum frá miðstýrðu þjóðnýtingarhagkerfi til hins félagslega markaðskerfis þarf fyrst og fremst að tryggja fjárhagslegan stuðning við stöðuleika gjaldmiðilsins; fjárhagslega baktryggingu til að ráða við verðbólguvoðann við umskipti til frjálsrar verðmyndunar; svo þarf að tryggja aðgang að erlendu fjármagni til fjárfestingar, sem og til að innleiða nýja tækni. Skattakerfið þarf að hafa innbyggða hvata til þess að gera þetta kleift. Kínverjar kalla þetta kerfi nútildags „kínverska módelið“. Og telja að Deng Xiaoping eigi höfundarrétt að því. Það hefur skilað einstæðum sögulegum árangri. Það hefur lyft hundruðum milljóna manna úr örbirgð til bjargálna, á ótrúlega skömmum tíma.
EF HRUN SOVÉTRÍKJANNA skapaði tækifæri til að leggja grunn að lýðræðislegu Rússlandi, sem byggt yrði upp á rústum kommúnismans, þá vitum við nú að þetta einstaka tækifæri fór forgörðum. Eftir upplausn Yeltsin-tímabilsins hefur Rússland nú snúið aftur til fortíðar sem valdstjórnarríki, með afturgengna nýlendutilburði. Og er þess vegna hættulegt nágrönnum sínum. Það er þetta sem átti að koma í veg fyrir. Það er þetta sem hefur brugðist. Þetta eru hin sögulegu mistök leiðtoga vestrænna lýðræðisríkja eftir hrun Sovétríkjanna.
Á þeim tíma ólum við með okkur háleitar hugmyndir um nýja heimsskipan, sem yrði byggð á traustum grunnu félagslegs markaðskerfis, lýðræðis og réttarríkis. Þessir bjartsýnu framtíðardraumar hafa ekki ræst. Við höfum sveiflast frá einum öfgum til annarra; Frá miðstýrðu þjóðnýtingarkerfi, sem skilaði ekki vörunum og endaði í sveltandi sósíalisma; til óhamins markaðskerfis, sem lætur ekki að lýðræðislegri stjórn og skilur eftir sig sívaxandi og óboðlegan ójöfnuð eigna og tekna. Hvort tveggja ógnar lýðræðinu. Uppgangur allsráðandi auðklíkna – bæði í Bandaríkjunum og Rússlandi - er ógnun við sjálft lýðræðið. Ég ætla að gefa prófessor Acemoglu lokaorðin – nú í aðdragandi Bandarísku forsetakosninganna:
„Það sem við þurfum er ekki óheft markaðskerfi í blóra við lýðræðislega stjórn; það sem við þurfum er „social-democracy“ að norrænni fyrirmynd. Í Bandaríkjunum þurfum við á að halda atbeina ríkissins við að hafa taumhald á ofvöxnu markaðsvaldi auðhringa. Það þarf að efla áhrif vinnandi fólks á lífskjör og stjórnarfar og það þarf að styrkja opinbera þjónustu og öryggisnet hinna verst settu. Síðast en ekki síst þurfum við Bandaríkjamenn að ná tökum á tæknirisunum, sem eru að vaxa lýðræðinu yfir höfuð. Og skapa skilyrði fyrir því að afrakstri efnahagsstarfseminnar verði dreift, öllum þjóðfélagsþegnum til hagsbóta.“
Þetta er hverju orði sannara. Og á líka við um okkur hin.
Höfundur var formaður Alþýðuflokksins, flokks íslenskra jafnaðarmanna og fjármála-og utanríkisráðherra 1988-1995. Nýjustu bækur hans eru: The Baltic Road to Freedom – Iceland‘s role, The Nordic Model vs The Neoliberal Challenge, (Lambert Academic publications) og Tæpitungulaust: Lífsskoðun jafnaðarmanns - (HB Av 2019). Þeir sem vilja kynna sér málið betur sjá heimildarmyndina Those who dare.