Við lifum á skrítnum tímum umbreytinga þar sem stærsta ógnin er hrun vistkerfa. Til að koma í veg fyrir hamfarahlýnun þarf að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og hvetja sérfræðingar fólk til að draga úr flugferðum og neyslu. Á vef OR er frábær reiknivél sem sýnir hvernig einstaklingar geta lagt sitt af mörkum.
Minni flugumferð og samdráttur í neyslu af ýmsum ástæðum veldur kólnun í hagkerfinu. Gert er ráð fyrir að útflutningstekjur geti minnkað um allt að 7,7% og er fyrirhugað að fara í stórt markaðsátak til að bjarga ferðaiðnaðinum, sem ekki er víst að beri árangur. En til er mun árangursríkari lausn. Hún er einföld, vel tímasett og er framtíðarlausn. Í febrúar nefndi seðlabankastjóri hana sem mikilvægasta þáttinn í að auka hagvöxt.
Lausnin er að sjálfsögðu að styrkja frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun og liggur beinast við að styrkja Tækniþróunarsjóð um eins og 5-10 milljarða sem og aðra sjóði sem hafa jafn afdráttarlaust jákvæð og mælanleg áhrif. Áhrifamat Tækniþróunarsjóðs fyrir síðasta krepputímabil, þ.e. 2009-2013, sýnir skýrt jákvæð áhrif sjóðsins á framgang nýrra sprotafyrirtækja og umbætur á samkeppnisstöðu þeirra á alþjóðamarkaði. Og vissuð þið að lítil fyrirtæki skapa flest ný störf?
Það skýtur því skökku við að skv. fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verða framlög til Tækniþróunarsjóðs lækkuð um 50 milljónir króna á hverju ári eins langt og áætlunin nær, í stað þess að efla sjóðinn. Á sama tíma hefur sjóðnum aldrei borist jafn margar styrkhæfar umsóknir með A einkunn og má búast við að þeim fjölgi með auknu atvinnuleysi. Ef litið er á þróun síðustu 3ja ára má sjá að árið 2017 hlutu 43% styrkhæfra verkefna styrk en 2019 var hlutfallið komið niður í 27%. Það þýðir að 73% af verkefnum með A einkunn var hafnað í fyrra, samtals 178 verkefnum. Holskefla frambærilegs fólks með mikla sérþekkingu hefur misst vinnuna og er gullið tækifæri fólgið í að búa svo um að auðvelt verði að stofna og reka ný fyrirtæki. Vonandi bíður þessara nýju fyrirtækja síðan aukin tækifæri til vaxtar með tilkomu Kríusjóðsins sem er í vinnslu.
Munum að styrkir til nýsköpunar er ekki ölmusa, heldur fjárfesting í framtíðinni. Það verður með nýsköpun sem vandamál framtíðarinnar verða leyst og núna er tími hugrekkis, að þora að taka þá stefnubreytingu sem þarf til að við getum gengið inn í framtíð þar sem hinn nýji hagvöxtur tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þetta er leiðin, this is the way!
Höfundur er formaður Samtaka sprotafyrirtækja, SSP.
---
Dæmi um 10 fyrirtæki sem hafa hlotið styrki: Meniga, Vaki, Nox Medical, ORF líftækni, Valka, Stjörnu-Oddi, Florealis, GEO silica, Lauf Forks, Stiki.