Endalaus fréttaflutningur er í gangi varðandi COVID-19 smit, stöðu þjóða, fjármálamarkaði og fleira en hverjar verða mögulegar samfélagslegar breytingar vera mitt í þessari COVID-19 krísu?
Hér er tilraun til að taka saman það sem mögulega mun breytast á þessum skrýtnu tímum. Tilraun til að horfa á jákvæðu punktana, þó þetta þessi veira sé langt frá því að vera gamanmál.
Fleiri munu nota vefverslanir (til frambúðar)
Notkun vefverslana fyrir matvöru er að aukast og mun stóraukast á næstu vikum og mun þetta verður að breytingu til framtíðar. En ekki aðeins fyrir matvöru, því að á næstu mánuðum verður fólk mikið heima við, og er sjálfsagt að sjá þörf fyrir breytingar á heimili sínu, t.d. tengt því að koma sér fyrir með vinnuaðstöðu heima.
Fleiri munu byrja að nota snertilausar greiðslulausnir
Líklega munu verslanir ekki alveg hverfa, en á tímum sem þessum þar sem við öll erum svo vör um hvað og hvern við snertum, getur það verið mikill kostur að geta sveiflað símanum sínum eða kortinu sínu í stað þess að nota fingur til að slá inn PIN kóða á takkaborð sem margir snerta á hverjum degi.
Fleiri munu vilja þjónustu í gegnum vefspjall og myndfundi á netinu og þörfin fyrir rafrænar undirskriftir eykst
Nú eru margir byrjaðir að vinna heima og veffundir í mynd hafa aukist gríðarlega, svo mikið að Teams samvinnutól Microsoft fór á hliðina á dögunum. Krísa eins og þessi hefur þau áhrif að fólk lærir fljótt á nýja tækni og tól og leitar nýrra leiða þegar ekki er hægt að hittast til að leysa hlutina.
Vefspjall í öllum þjónustufyrirtækjum verður aðal leiðin til að fá þjónustu þegar fólk forðast að hitta annað fólk. Hið opinbera verður líka að geta þjónustað fólk í gegnum vefspjall og breyta sínum háttum hratt. Mikilvægt er líka að fólk geti notað rafrænar undirskriftir til að klára málin án þess að mæta á staðinn.
Læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, sjúkraþjálfarar o.fl. þess háttar sérfræðingar munu vonandi byrja í að nota myndfundi í meira mæli til að aðstoða skjólstæðinga sína.
Eldri borgarar læra á snjallsímana og spjaldtölvur
Ljóst er að fólk vill ekki bera smit inn á heimili þeirra sem eldri eru og inn á hjúkrunarheimili er það nánast öruggt að eldra fólk fer í að setja sig meira inn í tæknina til þess að geta fengið fréttir af fólkinu sínu og til að geta fengið þjónustu. Þau munu mörg hver læra á myndsímtöl og nota þau til að geta fylgst með lífi sinna nánustu og fengið fréttir af því helsta.
Sum munu jafnvel vilja fylgjast með Instagram og Snapchat og við sem yngri erum eigum að gera í því að deila með þeim því sem við erum að gera svo að þau geti fylgst með og viti hvað við erum að kljást við frá degi til dags. Knús eru ekki mikið í boði og þá þarf eitthvað annað að koma í staðinn.
Fleiri munu vilja vinna heiman frá
Þegar stór hluti þjóðarinnar hefur fengið að prófa að vinna heima í nokkrar vikur (kannski mánuði) verður það mögulega að nýjum lífsstíl að vinna heima og sumum kann að þykja þessi nýi lífsstíll henta sér vel. Mögulega sér fólk kostina við að þurfa ekki að eyða tíma í að ferðast til og frá vinnu, geta sinnt heimilinu í stuttum pásum frá vinnu og þar fram eftir götunum. Sem leiðir að næsta punkti.
Fleiri munu vilja flytja út á land
Einhverjir munu opna augu sín fyrir því að það er bæði hægt að vera mjög afkastamikill í vinnu heima hjá sér og njóta þess að búa í kyrrðinni úti á landi. Þetta gæti mögulega orðið til þess að ungt fólk sem vill vera nær náttúrunni sjái kosti í því að vinna heima og búa annars staðar á landinu en á Suðvesturhorninu. Hér er tækifæri sem samfélög á landsbyggðinni ættu að nýta sér. Við sem hér búum erum náttúrubörn.
Kolefnisspor mun lækka
Þegar fólk notar bílinn minna og ferðast minna með flugi munum við væntanlega sjá mun á kolefnisspori okkar, hérlendis og erlendis. Það verður því áhugaverður lærdómur fyrir heimsbyggðina að sjá nýjar tölur spretta fram mitt í loftslagsbaráttunni sem við höfum átt svo erfitt að díla við, en erum núna nánast neydd í að kljást við.
Tækifærið í atvinnulífinu
Við höfum undanfarin ár stutt okkur mikið við þrjá atvinnuvegi: sjávarútveg, stóriðju og ferðaþjónustu. Þegar sjávarútvegurinn er takmörkuð auðlind, ferðaþjónustan í vondum málum og stóriðjan (lesist álframleiðslan) í vandræðum, þá er ljóst hvað við þurfum að gera til að sækja erlendar tekjur: Nýsköpun.
Nýsköpun er eitt af því sem blómstrar í ringulreið eins og við höfum séð í fyrri krísum. Allir fara í að leita lausna. Okkar besta tækifæri í þessu öllu er að byggja brú á milli þeirra faglegu vísinda sem stunduð eru hér á landi og skapandi frumkvöðla sem Ísland á nóg af.
Höfundur er í Vísinda- og tækniráði og stjórnandi hjá Veitum.