Útbreiðsla COVID-19 veirunnar er alþjóðlegt vandamál sem mannkynið berst nú við að öllu afli. Meðvitund um þessa nýju hættu breiddist hratt út og bæði almenningur og stjórnvöld hafa brugðist hratt við henni með samkomubönnum, lokunum skóla, ferðatakmörkunum og fleiri ráðstöfunum.
Hamfarahlýnun er einnig alþjóðlegt vandamál, sem hefur verið þekkt í áratugi. Meðvitund um þetta fyrirbæri og hætturnar sem stafa af því hefur aukist undanfarin ár, en viðbrögð almennings og stjórnvalda virðast enn vera langt frá því að vera fullnægjandi til þess að koma í veg fyrir frekara tjón á samfélagi okkar umfram það sem þegar er óhjákvæmilegt.
Það eru mörg tengsl milli þessara tveggja hætta og má læra og nýta mikið af viðbrögðum við útbreiðslu COVID-19 veirunnar í baráttunni við hamfarahlýnun og afleiðingar hennar. Veiran er fyrst og fremst heilsufarsvandamál sem leggur mikið álag á heilbrigðiskerfi um allan heim og mun þetta álag aukast með frekari útbreiðslu hennar. Sambærilega hefur hlýnun jarðar og breytingar á loftslagi neikvæð áhrif á heilsufar fólks um allan heim. Meðal annars má nefna aukinn vatnsskort, matarskort og vannæringu vegna fleiri og lengri þurrka, og aukna útbreiðslu ýmsa sjúkdóma svo sem malaríu eftir því sem loftslagið hlýnar til norðurs. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) reiknar með 250.000 viðbótardauðsföllum árlega frá og með árinu 2030 af völdum hamfarahlýnunar. Einnig hafa Sameinuðu þjóðirnar áætlað að á bilinu 200 milljónir til eins milljarðs manna þurfi að leggja á flótta vegna loftslagsbreytinga á næstu 30 árunum. Þessar tölur lýsa alvarleika hamfarahlýnunar og setur í samhengi hversu lítið leiðtogar heims eru tilbúnir að gera í þágu loftslagsins í samanburði við COVID-19 útbreiðsluna.
Ákveðnir hópar fólks búa við meiri hættu en aðrir þegar það kemur að smiti COVID-19 veirunnar. Eldri borgarar og einstaklingar með undirliggjandi veikindi eiga í mestri hættu á að deyja ef þau smitast af veirunni. Í tilviki hamfarahlýnunar eru það fátækar þjóðir, sem búa nú þegar við matarskort og veikburða heilbrigðis- og efnahagskerfi, sem munu finna fyrst og mest fyrir áhrifunum. Það er á ábyrgð þróaðra þjóða eins og Íslands að bregðast við, að hrinda af stað aðgerðum til að koma í veg fyrir frekari hamfarahlýnun og til að takast á við þær afleiðingar sem þegar eru óhjákvæmilegar. Eins er það á ábyrgð ungs fólks sem sjálft virðist veikjast lítið við smit COVID-19 veirunnar að forðast smit til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu á veirunni til að verja eldri borgara og aðra í áhættuhópum.
Útbreiðsla COVID-19 hefur sýnt fram á það að stjórnvöld og almenningur heims geta brugðist hratt við og unnið saman á áhrifaríkan hátt við það að berjast gegn alþjóðlegum hættum. Ekki þurfti tugi alþjóðlegra ráðstefna til að lönd heims gripu til róttækara aðgerða til að stöðva COVID-19 og ekki ætti að þurfa þess til að stöðva frekari hamfarahlýnun. Vísindaleg þekking er til staðar, lausnirnar eru til staðar, hefjumst handa saman strax og gerum það sem gera þarf.