Það munar um meirihluta við stjórnvölinn í Reykjavík sem setur skilvirkni og þjónustu við borgarbúa í forgang. Við ætlum okkur stafræna byltingu. Að rafræn stjórnsýsla verði fyrsta val borgarbúa. Hröð, einföld og þægileg þjónusta. Það er Píratamál.
Við erum á fullri ferð. Nýsköpun, ný tækni og áherslur Pírata ná fram að ganga hjá borginni sem aldrei fyrr og það er sko engin tilviljun. Píratar eru í stjórn í samstarfi við flokka sem skilja mikilvægi innviða og eins og Píratar vilja fjárfesta og nútímavæða. Við erum að leggja mikið fjármagn og metnað í þá vinnu enda mikilvægt og sparar fé til lengri tíma.
Á síðasta ári varð til nýtt svið þjónustu- og nýsköpunar til að lyfta upp vinnu við nútímavæðingu þjónustu og nýsköpun. Um leið fylgdi aukinn pólitískur stuðningur málaflokksins með skýrari tengingu inn í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð.
Við erum að gera þjónustuna aðgengilegri, skilvirkari og betri. Við erum að forgangsraða í þína þágu.
Höfundur er formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur og oddviti Pírata í Reykjavík.