Sumir hafa áhyggjur af því að fyrirtækjum reynist erfitt að taka á sig umsamdar launahækkanir frá 1. apríl í þeim þrengingum sem nú eru vegna sóttvarnaraðgerða.
Nefnd hefur verið sú hugmynd að launafólk gefi eftir hluta af lífeyrisréttindum sínum til að létta atvinnurekendum róðurinn. Það felur í reynd í sér að launafólk á almennum markaði greiði sér sjálf launahækkunina með skertum lífeyrisréttindum.
Innan Eflingar hefur einnig verið rætt um aðrar leiðir sem verja betur réttindi og kjör launafólks.
Ein er hugmyndin um tímabundna eftirgjöf tryggingagjaldsins sem leggst á launagreiðendur. Sú leið myndi létta fyrirtækjum að greiða umsamda launahækkun – og jafnvel ríflega það.
Ríkið hefur gott svigrúm til að gera þetta, bæði vegna góðrar fjárhagsstöðu og vegna þess að framkominn aðgerðapakki ríkisins er frekar lítill miðað við mörg grannríkin, þó hann sé annars ágætlega hannaður.
Tryggingagjaldið leggst á launagreiðendur og það mætti fella niður í 3 til 6 mánuði eða lækka það veglega til lengri tíma, eftir því hver framvinda kreppunnar verður.
Það er bæði sanngjarnari og virkari leið en skerðing lífeyrisréttinda launafólks á almennum markaði.
Launadrifinn hagvöxt í kjölfar sóttvarna
Launahækkun í samdráttarkreppu eins og nú er verður afar mikilvægur liður í því að ná efnahagslífinu á flug á ný, þegar sóttvarnaraðgerðum lýkur.
Eftirfarandi eru rök fyrir því.
Stöðvun atvinnulífsins vegna sóttvarnaraðgerðanna verður tímabundin – vonandi aðeins nokkrar vikur eða örfáir mánuðir í viðbót, ef marka má reynslu Kínverja.
Í kjölfarið eru ágætar forsendur fyrir því að þeir hlutar atvinnulífsins sem ekki byggja að mestu á ferðaþjónustu geti snúið til sem næst eðlilegrar starfsemi.
Ferðaþjónustan verður í sérstöðu því lengri tíma mun taka að ná henni á flug aftur, vegna þess að útlendingar munu trauðla ferðast hingað í stórum stíl strax.
Við gætum þurft að bíða eftir að virk bóluefni eða lyf gegn veirunni komi fram til að skapa á ný eðlileg skilyrði fyrir alþjóðlega ferðaþjónustu. Svo skiptir einnig máli hvernig kreppan leikur kaupmátt þeirra þjóða sem hingað leita sem ferðamenn.
Í ferðaþjónustu og beintengdum greinum (fólksflutningar, flug, hótel, veitingahús og bílaleigur o.fl.) starfa um 12% vinnandi fólks á Íslandi. Aðrar greinar ættu að komast smám saman í þokkalegt horf eftir að sóttvarnaraðgerðum lýkur.
Það er því líklegt að fyrst eftir að sóttvarnaraðgerðum lýkur þurfum við að stóla á okkur sjálf að umtalsverðu leyti til að örva hagkerfið til uppsveiflu á ný.
Klassíska leiðin til þess er örvun eftirspurnar í anda hagfræðingsins John M. Keynes. Þar getur launadrifinn hagvöxtur leikið stórt hlutverk í að rífa einkaneysluna upp, ásamt auknum opinberum framkvæmdum við innviði, viðhald bygginga og fleira.
Launahækkun þegar hagkerfið er tilbúið í upsveiflu verður þannig vítamínssprauta fyrir þjóðarbúskapinn og gæti jafnvel mildað höggið sem ferðaþjónustan verður fyrir (aukin ferðalög innanlands, aukin notkun veitingastaða, aukin verslun o.fl.).
Aukin áhersla á notkun innlendrar framleiðslu verður líka gagnleg við svona aðstæður.
Það er því mjög mikilvægt að halda umsömdum launahækkunum til haga. Um það er enginn ágreiningur innan verkalýðshreyfingarinnar.
Ríkið getur greitt fyrir því að ofangreind örfun hagkerfisins komi að fullu til framkvæmda á næstunni, einmitt með því að létta enn frekar undir með launagreiðendum en þegar hefur verið gert.
Lækkun tryggingagjaldsins væri öflug og skjótvirk leið til þess.
Önnur leið gæti verið að auka við hlutabótaleiðina.
Æskilegt er að verkalýðshreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld stilli saman strengi sína á uppbyggilegan hátt til að tryggja sem best kröftuga uppsveiflu að loknum sóttvarnaraðgerðum.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi í hlutastarfi.