Alþjóðleg vika heilans var á þessu ári dagana 16. -22. mars. Fræðsluvika þessi nefnist á ensku Brain Awareness Week. Dana Foundation, bandarísku góðgerðarsamtökin hafa skipulagt þessa fræðsluviku síðan árið 1996. Aðilar frá ýmsum löndum hafa tekið þátt í þessari fræðslu, bæði sjúklingasamtök og háskólar, og núna eiga 116 lönd fulltrúa í samtökunum.
Tilgangur þessarar viku er að fræða almenning um heilann og efla rannsóknir á starfsemi heilans. Á undanförnum árum hefur orðið mikil framför á þessu sviði og það sem áður var haldið fram að heilinn hætti að bæta við sig getu til að auka þekkingu við ákveðinn aldur fólks þá hefur nú verið sýnt fram á að heilinn heldur áfram að mynda nýjar taugabrautir svo framarlega sem honum er haldið í virkni, rétt eins og vöðvi sem þú æfir, þá heldur hann áfram að eflast og vera heilbrigður.
Heilinn er stjórnstöð líkamans. En hvernig getum við haldið heilanum heilbrigðum? Við þurfum að hafa í huga grunnþætti heilbrigðis, taka réttar ákvarðanir um lífsstíl sem stuðlar að heilsu og fyrirbyggja þannig sjúkdóma. Í vinnu minni sem heilbrigðisstarfsmaður hef ég frætt skjólstæðinga mína um mikilvægi svefns, mataræðis, hreyfingar, félagslegra tengsla, hugsana og að vernda heilann. Stundum kemur í ljós að allir þessir þættir eru í molum, en jafnvel þó að einn eða tveir þættir séu í ólagi, getur það samt haft mikil áhrif á líðan og heilbrigði einstaklinga.
Randkerfið sem liggur í boga í kringum heilastofn, samanstendur af undirstúku (hypothalamus), dreka (hippocampus) og möndlu (amygdala) er oft nefnt tilfinningaheilinn þar sem hann gegnir lykilhlutverki í tilfinningum. Við áföll og erfiða lífsreynslu geymist upplifunin í tilfinningaheila og síðar geta svipaðar upplifanir eða kveikjur sent taugboð til framheila sem orsakar að erfitt getur verið að ráða við stjórn tilfinningaviðbragða. Það er því mjög nauðsynlegt að vinna með áföll og sársaukafulla reynslu til að ná fram breytingum í hugsun og hjálpa framheilanum að ná betri stjórn. Ég er sífellt að upplifa í meðferð minni með einstaklinga hve áföll hafa mikil áhrif á tilfinningaviðbrögð og getur leitt til að einstaklingur þróar með sér ýmsa líkamlega og andlega sjúkdóma. Þannig sér maður líka þegar einstaklingur býr yfir skömm, getur birtingmynd hegðunar verið hroki, yfirgangur, brotin sjálfsmynd, öfund, fullkomnunarárátt, þröngsýni, stífni o.s.frv. en birtist líka sem ýmsar sjúkdómsmyndir, alkóhólismi, eiturlyfjafíkn, átröskun, vinnufíkn, þunglyndi, kvíði og ýmsar myndir sjálfsskaðandi hegðunar.
Heilinn er það líffæri sem forritar okkur alla daga, hefur áhrif á öll okkar líffæri og heilbrigði líkamans. Þannig hefur heilastarfseminn mikil áhrif á ónæmiskerfið. Því vil ég hvetja alla til að hugsa um grunnþætti heilbrigðis sem hjálpa heilanum til að vera sem best starfshæfur í þessum fordæmalausa COVID-19 faraldri sem nú herjar á heimsbyggðina. Íslendingar eru að standa sig vel í almannavörnum, en verum líka í einstaklingsvörn, hlúum að eigin heilsu og vinnum fyrirbyggjandi.
Höfundur er geðhjúkrunar- og lýðheilsufræðingur MPH og dáleiðslutæknir.