Utanríkisþjónustan komst að fullu í hendur landsmanna og umsjón hefðbundins ráðuneytis fyrir 80 árum. Hún hefur stækkað og umsvifin aukist nánast ár frá ári. Utanríkisráðherrar eru orðnir margir og eindregnar pólitískar andstæður ávallt einkennt hluta af umræðu um störf ráðuneytisins, t.d. í öryggis- og hernaðarmálum. Í öðru, svo sem í þróunarsamvinnu, hafa ólík sjónarmið verið augljós en þó mýkri og þegar kemur t.d. að þjónustu við íslenska ríkisborgara í útlöndum, borgaraþjónustunni, má telja hana hafna yfir pólitískar skoðanir. Hún hefur unnið þrekvirki undanfarnar vikur við að aðstoða mikinn fjölda landsmanna vegna heimsfaraldursins og sannað þörf fyrir þjónustu sína. Mannaráðningar og skipanir sendiherra hafa oft verið umdeildar og nú liggur fyrir frumvarp um nokkrar breytingar í þeim efnum. Hér verður hvorki fjallað um þær né fjölbreytt verkefni utanríkisráðuneytisins, eða breytta stefnu í sumum málum sem mér myndu hugnast. Aðeins ítrekað að yfir tveir þriðju hlutar landsmanna telja samvinnu við erlend ríki og öfluga utanríkisþjónustu mikilvæga, samkvæmt skoðanakönnun. Í stað skrifa um mörg verkefni fer ég nokkrum orðum um gildi og mikilvægi mannréttindamála og hlutverk utanríkisþjónustunnar í málefnum norðurslóða.
Stundum sagt að mannréttindi séu grunnur mennskunnar í veröldinni og eru það góð orð. Við verðum að halda varðstöðu um mannréttindin en við þurfum líka að knýja á um breytingar til bóta. Ef horft er um heiminn allan, sl. hálfu öld eða svo, er augljóst að töluvert hefur áunnist. Enn er þó allt of víða langt í land. Gömul kjörorð úr lýðræðisbyltingunni í Evrópu sem hljóða upp á frelsi, jafnrétti og bræðralag, eða samstöðu hafa smitast inn í norræna samfélagslíkanið. Við hömpum því gjarnan að þau ríki séu, fyrir fólk flest, með þeim skárri í heiminum sem bústaður. Flest ríki, ef ekki öll, og þar með talin þau norrænu, bera ekki hreinan skjöld i mannréttindamálum. Varla þarf að líta langt aftur til fyrri tíðar. Hve langt þurfum við hér á landi að horfa um öxl á réttindi hinsegin fólks til þess að sjá ólíðandi framkomu í þess garð? Á kvenréttindi og stök mál í dómskerfinu? Enn eru mannréttindi á dagskrá sem við þurfum að bæta við, slípa og auka. Meira að segja réttur til matar og húsaskjóls, og fleiri slík grunnatriði, sýnist manni verða seint í fullkomnu lagi. Við getum þar gert betur og okkur ber skylda til þess.
Í mannréttindamálum hafa íslensk stjórnvöld t.d. beitt sér í málefnum Ísraels og Palestínu, í höfuðatriðum á viðunandi hátt. Við höfum agnúast út í framferði stjórnar Dutartes á Filippseyjum og er ljóst að þau afskipti höfðu jákvæð áhrif. Það sama gildir um Sádi-Arabíu og Venesúela. Segja má sem svo að ekki sé alltaf aðalatriðið að ganga gegn þeim sem er frekastur, stærstur og verstur, það þarf líka að hirta hina sem standa neðar í goggunarröðinni þegar kemur að mannréttindabrotum í heiminum. Ég myndi t.d. vilja bæta við ríkjum eins og Brasilíu vegna umhverfismála og framferði, einkum stjórnvalda og stórfyrirtækja, gegn frumbyggjum. Úr einu smáríki hafa þingmönnum borist beiðni aðstoð, frá fulltrúum hópa í Bahrein, þar sem mannréttindabrot eru algeng. Mannréttindabrot stórveldanna eru sífellt áhyggjuefni og þar hefur rödd Íslands heldur harnað, samhliða aukinni samvinnu við sömu ríki. Í nokkrum ESB-löndum sjást mannréttindabrot sem vekja ugg; augljós brot hvað réttarfar og frelsi fjölmiðla snertir og ýmis almenn lýðræðisréttindi. Eitt af þeim ríkjum sem okkur hefur orðið tíðrætt um í utanríkismálanefnd er Tyrkland. Það er komið á ystu brún, eða fram af, í sumum málaflokkum að mati vel þenkjandi fólks.
Stundum er minnst á ávinning í mannréttindamálum. Hann getur verið margs konar en það er mjög mikilvægt að muna eftir því að hann er tvíbentur. Góð frammistaða er ávinningur Íslands en samtímis ávinningur þess sem við erum að aðstoða. Mér hefur stundum fundist menn vera of upptekna af ávinningi Íslands en gleymi því að við höfum áhrif til góðs. Líka er rætt um áhættu af því að trana sér fram og þora. Engu að síður er mat flestra á þann veg, þegar kemur að árangri sérhvers ríkis við umbætur í mannréttindamálum annarra ríkja, að mjög erfitt reynist að refsa þeim sem bendir á hið augljósa, að keisarinn er nakinn. Ég tel að áhætta ætti aldrei að vera okkur sérstakur fjötur um fót nema kannski í tilvikum sem mjög erfitt er að sjá fyrir. Ef við höfum jákvæða afstöðu bæði til ávinnings og áhættu hef ég ekki áhyggjur af framtíðinni. Og hver er hún? Hvað ber okkur að gera? Komið hefur fram að fyrsta skrefið í átt að nýrri þátttöku í Mannréttindaráði SÞ gæti verið hefja ekki kosningabaráttu vegna framboðs, heldur styðjast við norræna ríkjahópinn. Þar getur seta í ráðinu gengið á milli ríkja og því mætti grípa daginn. Lýsa sem fyrst yfir áhuga okkar á að halda starfi þar áfram og sjá hvort val milli Noregs og Íslands falli ekki fallið að Ísland verði fyrir valinu. Ef ekki þá, höfum við önnur tækifæri, hvort sem það verður með svipuðum hætti eða með því að leggja út í dýra kjörbaráttu smáríkis. Það getur orðið ansi snúið. Hvernig sem fer er töluverð vinna framundan við viðbótarstefnumótun í mannréttindamálum. Hvenær styðjum við eða höfum jafnvel frumkvæði að mannréttindabaráttu innan erlendra ríkja eða ríkjaheilda? Hvaða rök eða viðmið notum við? Metum við helst alvarleika brotanna? Eru snöggar uppákomur ástæðan? Eru það mannréttindabrot sem hafa staðið í langan tíma? Málaflokkar sem standa okkur nærri, t.d. kynjajafnrétti? Mörg rök, en ekki ein, koma til og sannarlega við hæfi að auðga stefnumótun með umræðum á Alþingi og víðar.
Alkunna er að loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra á norðurslóðum eru meðal mikilvægustu mála í andófi gegn, og aðlögun að vandanum. Hér er hlýnunin alls staðar mjög hröð og afdrifarík. Umhverfisbreytingarnar ná langt út fyrir land- og hafsvæðið. Þar af leiðir að víðtækt samstarf þjóðanna átta við heimskautsbaug, og annarra þjóða, um viðbrögð við breytingunum telst ákaflega brýnt. Aðalþungi norðurslóðastarfsins út á við hefur verið í höndum allmargra starfsmanna utanríkisráðuneytisins og ráðherra í einn stað en í annan stað þingmannanefndar norðurslóða á Alþingi. Vestnorræna ráðið og Norðurskautsefnahagsráðið koma einnig sterklega við sögu, bæði ráðin með íslenskri forystu um þessar mundir, ásamt Norðurlandaráði að sumu leyti, einnig undir íslenskri forystu. Starfsemi ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar kristallast í Norðurskautsráðinu og starfshópum þess sem í sitja alls konar sérfræðingar. Þar hefur Ísland einnig formennsku með höndum 2019-2021. Má af þessu greina að utanríkisráðuneytið stendur þétt að starfi sem miðar að því að halda loftslagsbreytingum í skefjum og vinda ofan af þeim. Gerir það raunar á fleiri sviðum, svo sem með skipulagi og stefnu í þróunarsamvinnu Íslands.
Þó ekki væri nema fyrir þá tvo málaflokka sem ég hef hér fjallað um, ætti að vera ljóst að utanríkisþjónustan þarf að vera öflug og vel sniðin. Gagnrýni á hana er nokkuð algeng, m.a. á það sem kallast bruðl með fé. Ég hef verið stuðningsmaður þess að utanríkisþjónusta smáríkis sé vel mönnuð, fái nægt fjármagn og fari vel með það. Fjármagn hefur stundum skort, einkum í rekstri. Hvað sem því líður er árangursríkast að utanríkisstefna Íslands og skipulag hennar sé bæði skilvirkt og í þágu sem flestra heiminum, fólksins sem ber uppi samfélögin, meira eða minna allt með sömu grunnþarfir og óskir.
Höfundur á sæti í utanríkismálanefnd Alþingis fyrir Vinstri græn.