Þegar ExxonMobil er komið á framfæri Bandaríkjastjórnar og Bláa lónið á styrk Seðlabankans á Íslandi, þá er eitthvað verulegt að ske. Það er margt að ske á heimsvísu þessa dagana og Ísland er ekki undanskilið.
Skyndigróði frá milljónum erlendra ferðamanna er horfinn, eins og hann leggur sig, og kemur ekki aftur í bráð, ef þá nokkurn tíma. Það er því óþarfi að kasta fé í rústirnar, ekki frekar en rústir annarra löngu liðinna síldarævintýra Íslendinga. Eftir munu standa tómar gluggatóftir hálfbyggðra hótela og ferðamannastaða, sem voru þó löngu komnar á hausinn áður en tjaldið féll vegna óyfirstíganlegrar skuldsetningar. E.t.v. má breyta öllu þessu húsnæði í ódýrar íbúðir fyrir þá sem ekki höfðu efni á að kaupa húsnæði á góðum stað á uppsprengdu verði. Það er þó alveg víst, að dansinum kringum gullkálfinn er lokið. Hvað verður þá til bjargar hnípinni þjóð með offramleiðslu á ungum sprenglærðum meðaljónum og -gunnum sem ganga um atvinnulaus og horfa á tóma ríkisjötuna sorgbitnum augum? Fólk sem ekki kann einu sinni að halda á skóflu eða sinna sínum eigin börnum og gamalmennum. Bókvitið verður víst ekki alltaf í askana látið.
Ekki verður hægt að horfa til rafmagnssölu fyrir álver í núverandi formi. Allur flugfloti heimsins er sestur til langrar dvalar á jörðu niðri og engin þörf á áli í nýjar flugvélar, né annarrar stórframleiðslu sem nú þegar er komin í lággír. Allt stóriðjurafmagnið mun því að óbreyttu renna ónotað til sjávar. Gott hefði verið nú að hafa kapalinn umdeilda tilbúinn til annarra landa og geta sett rafmagnsmælinn á hann.
Hvað er þá til ráða svo kaupa megi salt í grautinn og smjör á daglegt brauð?
Frá því togarinn Jón forseti kom til landsins árið 1907, hafa togveiðar verið haldreipi íslensks efnahags í blíðu og stríðu. Magar fólks þurfa sífellt sitt og sú þörf gengur fyrir öðrum. Vandamálið nú er hinsvegar það, að nú getur þjóðin ekki reitt sig á þann frumburðarrétt sinn sem fiskveiðar voru. Í algleymi dansins í kringum gullkálfinn, var frumburðarrétturinn seldur fyrir eina grautarskál til fégráðugs fólks með rólega samvisku, en meira vit í kollinum en allur fjöldinn. Þessi frumburðarréttur fer nú að mestu framhjá kjánunum sem seldu hann, og grauturinn í skálinni er löngu uppétinn. Með réttu gætu kjánarnir sjálfum sér um kennt. Því eins og hinir fornu húsbændur okkar sögðu svo réttilega: „De mere kloge snyder de mindre kloge”.
Ef ekki tekst með einhverjum ráðum að þjóðnýta fiskveiðarnar fljótlega mun verða nokkuð löng bið á því að úr rætist fjárhagslega fyrir þessa þjóð. Þetta er ekkert „kommaraus”, því peningar verða ávallt aflið til þess sem gera skal. Nú sem stendur þurfa samt peningarnir fyrir fiskinn að skila sér til réttra eigenda, en ekki til Tortóla, eða Kýpur og fjárfestinga einkaaðila. Þegar og ef dansinn kringum gullkálfinn hefst aftur, má reyna að fá eitthvað meira en grautarskál fyrir frumburðarréttinn. Það þarf líka að stofna í kringum þennan „New Deal” Þjóðarbanka sem nýtir það fjármagn sem inn kemur á reikning þjóðarinnar til uppbyggingar grunnþjónustu velferðarþjóðfélags á vestræna vísu, og til fjárfestinga í undirstöðuatvinnuvegum, en gæta þess nú vel að hafa ekki öll eggin í sömu körfu.
Með vinsemd og velvilja þeim sem vilja vinna þessari þjóð, einkanlega þó þeim eru ungir og munu erfa það sem við gamlingjarnir höfum spillt, en gætum nú reynt að gera gott aftur.