Við vorum í þinghúsinu í Washington í boði bandarískra stjórnvalda. Biden öldungadeildarþingmaður er á leiðinni, sagði skrifstofustjóri hans og bauð okkur sæti. Má bjóða ykkur kaffi? Við röðuðum okkur í kringum borð í fundarherberginu, helltum í bollana hvert hjá öðru og svo hófst biðin. Þetta var líklega vorið 1986 og í hópnum var rúmur tugur evrópsks áhugafólks um stjórnmál.
Í rútunni á leiðinni í þingið um morguninn hafði komið í ljós að fólk vissi lítil deili á Joseph Biden. Hann er demókrati, sagði einhver. Þegar við gengum gegnum þinghúsið til fundar við Biden, var komið við á áheyrendapöllum öldungadeildarinnar. Niðri á gólfinu var maður að tala úr sæti sínu. Þennan kannist þið líklega við, sagði leiðsögumaðurinn. Bræður hans voru vel þekktir, bætti hann við til öryggis. Við stöldruðum og hlustuðum í nokkrar mínútur. Edward Kennedy var að flytja ræðu.
Hver er Biden?
Inni í fundarherbergi Bidens lengdist biðin. Þingmaðurinn tafðist á fundi, sagði skrifstofustjórinn. Við stóðum upp og skoðum okkur um. Á veggjum voru ljósmyndir, skildir og fánar sem sýndu Biden við ýmis tækifæri og hægt var að nota eins og myndagátu til að ímynda sér hver og hvernig hann væri.
Bjartleitur, brosandi og alþýðlegur. Fjölskyldumaður. Doktorspróf í lögfræði. Kosinn á þing fyrir Delaware-ríki árið 1972. Vinsæll meðal kjósenda. Flinkur í tækifærisræðum. Á sumum myndanna voru húsgaflar risavaxinna hænsnabúa í bakgrunni og á einni var hann í sláturhúsi í slopp með hárnet og fylgdist af athygli með þúsund kjúklingum á færibandi þokast nær. Eftirvæntingin jókst. Það yrði gaman að hitta Biden. Hann virtist upprennandi stjarna í Demókrataflokknum.
Hvert fór Biden?
Enn lengdist biðin. Útundan okkur sáum við að eitthvað var á seyði á skrifstofunni við hliðina. Símar hringdu, fólk kom í dyragættina og skrifstofustjórinn leit á klukkuna. Skyndilega gekk hann inn á mitt gólf í herberginu, klappaði saman höndunum til að ná athygli og kallaði yfir hópinn: Dömur mínar og herrar. Leyfið mér að kynna öldungadeildarþingmanninn John Warner.
John Warner var eins og fiskur í vatni. Við komum hvergi að tómum kofunum. Hann var Víðir, Þórólfur og Alma. Hann vissi til dæmis allt um NATO og kafbátaleit í Norður Atlantshafi. Eina svarið sem virkaði ekki almennilega hjá honum var útskýring á Stjörnustríðsáætlun Reagans forseta og lái honum það hver sem vill. Þegar fundinum lauk hvíslaði leiðsögumaðurinn að mér: Hann er einn af þungavigtarmönnunum hér í húsinu. Hann var flotamálaráðherra. En flestir þekkja hann fyrir að hafa verið fjórði eiginmaður Elísabetar Taylor.
Hvar er Biden?
Nú, aldarþriðjungi síðar, er ég aftur að bíða eftir Biden. Í þetta skiptið sit ég ekki á biðstofunni í þinghúsinu við austurendann á Pennsylvania Avenue. En biðin er vegna ástandsins í húsinu við hinn endann á götunni. Biden virðist nefnilega vera það eina sem getur komið í veg fyrir fjögur ár enn af harmrænum skrípaleik í Hvíta húsinu. Þar eru pólitískir innanstokksmunir sem eru mikilvægir, ekki einungis fyrir það góða fólk, sem byggir Bandaríkin, heldur einnig okkur hin, sem höfum sameinast um stofnanir, samtök og samvinnu þjóða heimsins. Núverandi húsráðandi í Hvíta húsinu er á góðri leið með brjóta allt það innbú og týna.
En hvar er þá Biden? Er hann enn á fundi?
Höfundur er lífeðlisfræðingur og var einu sinni í pólitík.