Hér á landi sem annars staðar hefur heimsfaraldurinn COVID skilið eftir sig sviðna jörð og tugþúsundir landsmanna án atvinnu. Enginn veit hvort ein stærsta atvinnugrein landsins og grunnstoð íslensk efnahags, sjálf ferðaþjónustan, verði nokkurn tímann söm á ný og aðrar greinar bæði tengdar og ótengdar eru laskaðar sömuleiðis. Stjórnvöld eru ekki öfundsverð af því verkefni sem þau standa frammi fyrir – faraldri sem eirir engum og skilur heilu þjóðirnar eftir í öndunarvél - veika einstaklinga bókstaflega og heilu samfélögin efnahagslega. Engar augljósar lausnir blasa við. Á tímum zoom-funda, fjarkennslu og tæknilegra úrlausna er hugverka- og hátækniiðnaðurinn ljósið í myrkrinu en öfugt við flest annað blómstra nú þær atvinnugreinar sem til hans heyra sem aldrei fyrr. Hugverka- og hátækniiðnaðurinn er nýsköpunardrifinn, hann krefst minni aðfanga en annar iðnaður og tekjurnar sem hann aflar koma jafnan erlendis frá.
Fyrirtæki framtíðar byggja á nýjum gildum
Við lifum tíma þar sem heimurinn tekur stakkaskiptum og enginn veit nákvæmlega hvernig efnahagur landsins verður eftir COVID. Þó er næsta víst að margt í okkar daglega lífi verður á einhvern hátt öðruvísi. Veiran hefur kallað yfir okkur hörmungar en hún hefur líka kennt okkur margt. Fækkun flugferða og minni notkun vélknúinna farartækja hafa birt okkur Himalayjafjöllin á ný og höfrunga í Feneyjum. Sem samfélag höfum við séð að við erum við færari um margt sem áður hefði þótt óhugsandi. Fyrirtæki framtíðarinnar verða byggð á nýjum gildum og hlúa þarf strax að þeim sem auðsýnt er að eiga erindi í nýja heimsmynd. Hér á landi eigum við fjölmörg slík sprotafyrirtæki en hjá þeim er þörfin á vaxtarfjármagni umtalsvert meiri en framboðið.
Skyldum lífeyrissjóðina til fjárfestingar í nýsköpun
Meðal aðgerða ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru er aukið svigrúm lífeyrissjóðanna til fjárfestingar í vaxtasjóðum. Hér ber að hafa í huga að megnið af íslensku fjármagni situr í lífeyrissjóðunum. Regluverk þeirra hefur hingað til mun fremur leitt til íhaldssamra fjárfestinga sem getur verið af hinu góða en nú er beinlínis nauðsynlegt fyrir þjóðarhag að skipta um kúrs. Aukið svigrúm lífeyrissjóðanna getur þannig haft mikið að segja en hætta er á að svigrúmið eitt dugi ekki til og biðin eftir fjármagni verði mörgum sprotafyrirtækjum að falli. Því ríður á að stjórnvöld stígi skrefinu lengra og lífeyrissjóðum verði gert skylt að setja 10-15% af sinni fjárfestingu í vaxtasjóði nýsköpunar. Slík breyting myndi auka verulega líkurnar á því að þau sprotafyrirtæki sem starfa í hugverka- og hátækniiðnaði verði að því sem þeim var ætlað. Oft vantar aðeins herslumuninn á en þeim mun fleiri þeirra sem komast í gegnum þennan heimsfaraldur og ná flugi, þeim mun meiri líkur eru á að við munum á næstu árum, fremur en næstu áratugum, eiga hér á landi öflugt og atvinnuskapandi samfélag byggt á hugviti og þekkingu til framtíðar.
Höfundur er stofnandi Mussila ehf. og situr í Hugverkaráði og IGI, Samtökum leikjaframleiðenda hjá Samtökum iðnaðarins.