Stjórnmál eiga að vera vettvangur gagnvirkra samskipta hugsandi fólks um hagrænar lausnir í samfélaginu og lífríkinu til góðs. Og þá skiptir höfuðmáli hvaða hugmyndir menn aðhyllast; hvort þeir líti á samfélagið sem hagsmunabandalag sérhagsmuna eða sem samfélag hugsandi fólks. Ríki fyrra viðhorfið, gildir fyrst og fremst að hafa sterkan foringja og viðhlæjandi flokksheild, sem stendur vörð um sérhagsmunina og skiptingu þeirrar köku. Ráði síðara viðhorfið, gildir fyrst og fremst að leyfa ólíkum sjónarmiðum að takast á – innan flokka sem utan – í þeirri von að það leiði til farsællar niðurstöðu fyrir samfélagið í heild.
Andleg, siðferðileg og efnahagsleg sköpun samfélagsins á að vera á ábyrgð heiðarlegs fólks sem leggur sig stöðugt eftir að hugsa og ræða um sameiginleg málefni með hugsjón, almannaheill og lífríkið að leiðarljósi.
Er það svo hjá íslenskum stjórnmálamönnum?
Og af hverju setti Rannsóknarnefnd Alþingis stjórnarskrá lýðveldisins í samhengi við hrunið?
Ályktanir og lærdómar:
Rannsóknarnefnd Alþingis (2010, 8. bindi, bls. 184):
„Íslensk stjórnmálamenning er vanþroskuð og einkennist af miklu valdi ráðherra og oddvita stjórnarflokkanna. Þingið rækir illa umræðuhlutverk sitt vegna ofuráherslu á kappræðu þar sem þekking og rökræður víkja fyrir hernaðarlist og valdaklækjum. Þingið er líka illa í stakk búið til þess að rækja eftirlitshlutverk sitt, meðal annars vegna ofríkis meirihlutans og framkvæmdarvaldsins, sem og skorts á faglegu baklandi fyrir þingið. Skortur á fagmennsku og vantrú á fræðilegum röksemdum er mein í íslenskum stjórnmálum. Andvaraleysi hefur verið ríkjandi gagnvart því hvernig vald í krafti auðs hefur safnast á fárra hendur og ógnað lýðræðislegum stjórnarháttum.“
Lærdómar:
Rannsóknarnefnd Alþingis (2010, 8. bindi, bls. 184):
„Leita þarf leiða til þess að styrkja siðferðisvitund stjórnmálamanna og auka virðingu þeirra fyrir góðum stjórnsiðum [...] Draga þarf úr ráðherraræði og styrkja eftirlitshlutverk Alþingis.“
„Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallaratriði lýðræðissamfélagsins og skýra betur meginskyldur, ábyrgð og hlutverk valdhafa.“
Hvað hefur breyst hjá íslenskum stjórnmálamönnum á þeim tíu árum sem liðin eru frá útgáfu þessa merku skýrslu og þjóðarspegils? Lítið sem ekkert.
Stjórnmál í lýðræðisríki eiga að snúast um líf, heilsu, afkomu og hamingju fólks. Stundum fæðist farsæl niðurstaða í samhljómi skoðana en einnig oft í aðstæðum þar sem heggur nærri skoðunum andstæðra fylkinga, nokkuð sem oft á tíðum og óhjákvæmilega reynist nauðsynlegt til ásættanlegra lausna. Það er jú eiginlegt markmið lýðræðis að sem flestir njóti sannmælis skoðana sinna í hljómgrunni raddanna sem Alþingi á að endurspegla. Alþingi á að vera fyrir fólkið en ekki fólkið fyrir Alþingi. Lýðræðið hvílir þannig á stjórnarskrá sem á að ýta undir gagnvirk samskipti hinna mismunandi kerfa samfélagsins sem myndar hið réttláta þjóðfélag sem við þráum. Stjórnarskrá þjóðarinnar þarfnast hins vegar brýnnar endurskoðunar við, nokkuð sem þjóðin kaus um og samþykkti í sögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu 20.10.2012.
Brýn nauðsyn á endurskoðun stjórnarskrárinnar var mat þjóðarinnar og beinlínis niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis í kjölfar versta efnahagshruns vestrænna þjóða á friðartímum. Efnahagshruns sem orsakaðist af hagsmunatengdum stjórnmálum fámenns hóps sjálfhverfra viðskiptamanna í slagtogi misvitra stjórnmálamanna. Pólitísk hugmyndafræði, hægri, vinstri, eða miðju, á að gilda um þau sameiginlegu markmið stjórnmálanna; að virða vilja fólksins í landinu og skapa betra líf og samfélag þorra almennings í hag. Alþingi á að starfa af heilindum fyrir fólkið í landinu en ekki fámenna hagsmunahópa.
Meðan vilji almennings, og uppruni valdsins, til stjórnarskrárbreytinga og þar með aukins réttlætis, mannréttinda og jöfnuðar er hundsaður af fámennum fulltrúum lýðræðisins, breytist hér fátt til hins betra, því miður. Aðgerðaleysi stjórnmálamanna í stjórnarskrármálinu er vitnisburður um hnignandi stjórnarfar og skort á siðferði í lýðræðisríki. Vitnisburður um að menn hafi engan lærdóm dregið af hruninu.
Hjásetur, blekkingar, útúrsnúningar og tafir stjórnmálamanna í stjórnarskrármálinu er vísbending um hnignandi stjórnarfar og skort á siðferði í lýðræðisríki sem endurspeglar metnaðarleysi og dauða pólitískra hugsjóna. Hér virða pólitískir fulltrúar ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Hér virða pólitískir fulltrúar ekki eignarétt yfir fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar meira en svo, að þeir heimila nánast gjaldfrían aðgang áratugum saman að 250 milljarða árlegum verðmætum.
Hvernig geta alþingismenn réttlætt það fyrir sér að sinna kjörnum trúnaðarstörfum fyrir þjóðina og vanrækja á sama tíma vilja hennar? Af hverju er ekki búið að lögfesta þær stjórnarskrárbreytingar sem þjóðin kaus?
Það er hreinlega með ólíkindum að fámennur forréttindaklúbbur kvótahafa með gjaldlítinn aðgang að fiskveiðiauðlindum heillar þjóðar, skuli geta keypt stjórnmálamenn og flokka með þeim hætti sem gert er hér á landi. En þar liggur einmitt hundurinn grafinn og virðast íslenskir stjórnmálamenn í þessum efnum frekar fyrirmyndir en eftirbátar kollega sinna í Namibíu. Hugsjón stjórnmálamanna er dauð. Hún kafnaði í brúnu umslögunum, því miður.
Frá hruni hafa stjórnmálamenn búið við gullið tækifæri til að hlýða hrópandi kalli þjóðarinnar um réttlátara samfélag án þess að svara af heiðarleika. Þeir hafa einfaldlega brugðist, algjörlega brugðist.
Nú styttist í kosningar og hin áleitna spurning verður þessi: Ætla kjósendur að afhenda börnum sínum lýðræðið í verra ástandi en þeir tóku við af foreldrum sínum?