Rakaöryggi byggingaframkvæmda og áskoranir í byggingariðnaði

Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir fjallar um rakaskemmdir og rakaöryggi í húsum í aðsendri grein.

Hús í miðbæ Reykjavíkur
Auglýsing

Umfjöllun um byggingargalla í húsnæði sem leiða af sér rakavandamál og ótímabært viðhald hefur verið áberandi upp á síðkastið. EFLA hefur látið sig málið varða og átt fjölmörg samtöl við hagsmunaaðila í byggingariðnaðnum til að leita leiða til úrbóta í þessum efnum. Hlutaðeigandi aðilar eru sammála um að auka þurfi gæði þegar kemur að rakaöryggi í byggingum, en greinarhöfundar skilgreina hugtakið rakaöryggi sem; 

Líkur á því að rakaástand í byggingarhlutum fari út fyrir skilgreind öryggismörk sem ráðast af rakaþoli byggingarefna.

Afleiðingar þess að rakaástand fari út fyrir öryggismörk geta til dæmis verið fúi í timbri eða trjákenndum efnum, örveru/mygluvöxtur í byggingarefnum, frostskemmdir, tæring málma, aukin útgufun frá byggingarefnum, aukin varmaleiðni í einangrandi byggingarefnum, rakabólgur og neikvæð áhrif á loftgæði og heilsu. Ástæður þess að byggingar skemmast og grotna eru í langflestum tilfellum vegna raka eða í um 80% tilfella. 

Auglýsing

Umfang rakavandamála á Íslandi og í nágrannalöndum

Til þess að gefa hugmynd um umfang rakavandamála er hægt að líta til rannsókna frá nágrannalöndum þar sem ummerki um rakaskemmdir fundust í 30% húsa í Noregi og 55% húsa í Finnlandi. Í þessum tilfellum voru húsin skoðuð af fagaðilum. 


Mynd: Aðsend


Björn Marteinsson, sérfræðingur hjá Rannsóknastofu byggingariðnaðarins við Nýsköpunarmiðstöð Íslands (Rb við NMÍ) og dósent hjá Háskóla Íslands (HÍ), hefur á undanförnum áratugum greint tíðni rakavandamála á Íslandi á vegum Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins (RB) með því að senda út spurningalista á húseigendur. Niðurstöður úr nýjustu rakaástandskönnun Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins (Rb) við Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ), sem send var út í byrjun þessa árs, munu vonandi liggja fyrir áður en NMÍ verður lagt niður í núverandi mynd um næstu áramót. Niðurstöður úr könnuninni munu hafa mikið vægi og gefa til kynna stöðu mála hérlendis og mögulega hvar við ættum að leggja áherslu á aðgerðir.

Í síðustu könnun Rb frá árinu 2005-2006 kom í ljós að 30% húseiganda sem áttu hús sem voru fimm ára og yngri sögðu að þeir höfðu orðið varir við raka/leka. Mögulega má reikna með því að hærra hlutfall kæmi í ljós ef húsin yrðu rannsökuð af fagaðilum í stað þess að senda spurningalista á húseigendur. Í tilfellum um leka eða raka í húsum sem eru fimm ára eða yngri er ástæðan örugglega byggingargallar en ekki skortur á viðhaldi. Hér má sjá helstu niðurstöður í töflu 1. Einnig er hægt að skoða hver sé helsta orsök rakavanda, en það virðist vera þök og útveggir og þá helst með gluggum og hurðum.

Tafla 1

Vandamál af þessu umfangi hljóta að hafa neikvæð áhrif á traust almennings á íslenskum byggingariðnaði. Rakavandamál eru oft afar kostnaðarsöm og ef ekki er brugðist skjótt við má reikna með meira umfangi viðgerða og kostnaði. Svo má ekki gleyma áhrifum rakavandamála á heilsu íbúa sem búa í viðkomandi húsnæði.

Ólafur H. Wallevik forstöðumaður Rb við NMÍ telur að samfélagslegur kostnaður vegna rakavandamála sé af stærðargráðunni allt að 10 milljarðar á ári á Íslandi.

Á Íslandi er verið að nota lausnir í byggingariðnaði sem að virðast ekki tíðkast í nágrannalöndum okkar

Til dæmis er það algengt hérlendis að steypt hús séu einangruð að innan og þök sem eru einangruð á milli sperra hafa almennt þynnra loftbil hérlendis en annars staðar og klæðning er sjaldan lektuð hérlendis. Í mars sl. gaf NMÍ út nýtt 16 síðna Rb blað um þök sem ber nafnið „Þök – gerðir og eiginleikar“ en þar er m.a. fjallað um frágang á lektaðri þakklæðingu. Rb blaðið um þök má nálgast frítt á heimasíðu NMÍ ef þessari vefslóð.

Vitneskjan um hvernig eigi að koma í veg fyrir rakavandamál er því til staðar en það þarf að miðla henni í byggingaiðnaðinn, hönnun, eftirlit, framkvæmd, viðhald og rekstur. 

Tilraunir stjórnvalda á Íslandi til þess að auka vægi rakaöryggis við hönnun og framkvæmd er tilgreind í greinargerð um einangrun og raka í skoðunarhandbókum Mannvirkjastofnunar. Vinna við slíka greinargerð sem er framkvæmd af fagaðila með þekkingu á byggingareðlisfræði og rakaöryggi  getur skilað húseiganda og rekstraraðila mikilvægum upplýsingum sem getur aukið endingu og lækkað rekstrarkostnað. Krafan um skil á þessari greinargerð hefur verið til staðar frá 2012 en það virðist ekki hafa tíðkast að henni sé skilað inn. Rb við NMI gaf einmitt út Rb blað um þetta málefni í september 2019 sem nálgast má frítt á rafrænu formi á þessari vefslóð

Samtal á milli fagaðila og hagsmunaaðila

Frá árinu 2018 hefur EFLA staðið fyrir tæplega þrjátíu umræðufundum um rakaöryggi og byggingareðlisfræði með ýmsum fagaðilum. Tilgangur þessa samtals er að miðla þekkingu og reynslu á milli aðila og afla upplýsinga um helstu áskoranir auk þess sem vel hefur heppnast.
Þau umræðuefni sem komu ítrekað fram voru eftirfarandi:

 • Fagsvið byggingareðlisfræði og rakaöryggis fellur á milli arkitekta og verkfræðinga
 • Mikið um óvönduð vinnubrögð á markaði
 • Ófaglærðir í störf sem þarfnast fagþekkingar
 • Virðingu fyrir rakaöryggi á byggingartíma er ábótavant, byggingarefni blotna og ekki hugað að þurrkun
 • Strangt eftirlit með hönnunargögnum en lítið eftirlit með því að hönnunargögnum sé framfylgt
 • Engin gögn um hvort að hönnunargögnum hafi verið fylgt við framkvæmd
 • Almennt lítil þekking á varma- og rakaflæði
 • Tilhneiging aðila til að forðast ábyrgð leiðir til minni samvinnu
 • Vantar staðlaðar upplýsingar um lausnir og aðferðir, hvað reynist best 
 • Byggingastjóraábyrgð óljós og upphæð oft ekki í samræmi við tjón 
 • Ástandsskoðun við kaup og sölu gæti haft jákvæð áhrif á iðnað og síðar rekstur og viðhald
 • Eftirlit og álitsgjöf vegna nýrra byggingarefna og lausna er ábótavant.
 • CE merking vöru segir ekki til um hvort varan uppfylli íslensk skilyrði

Upplýsingum var safnað saman til þess að geta áttað sig á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í byggingariðnaði og rakaöryggi og hvar þyrfti að bregðast við.

EFLA tekur virkan þátt í faghópnum Betri byggingar sem er haldið utan um af Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins við NMÍ og þar er reynslu og þekkingu miðlað á milli fagaðila. 

Auglýsing

Mikilvægt skref í ráðgjöf er síðan að eiga samtal við aðra fagaðila, verktaka, iðnaðarmenn og þá sem vinna við framkvæmdir og viðhald. Með því að miðla þekkingu og reynslu inn í hönnun nýbygginga er hægt að draga úr áhættu á ótímabæru viðhaldi og rakavandamálum. EFLA leggur mikla áherslu á þverfaglegt samtal og miðlun upplýsinga, þar sem allir sem koma að húsbyggingu eru jafn mikilvægir hlekkir í að tryggja gæði og endingu.

Verklag við ráðgjöf í rakaöryggi

Grunnur ráðgjafar um rakaöryggi liggur í því að taka til greina alla helstu þætti sem snúa að upptökum raka og flutningsleiðum. Við mat á rakaöryggi er fylgt  þar til gerðum gátlistum og fundið út hvaða atriði eiga við í hvert sinn. 

Uppsprettur:

 • Úrkoma
 • Raki í lofti innandyra og utandyra
 • Byggingarraki (umfram raki frá framkvæmdartíma)
 • Jarðraki
 • Ofanvatn
 • Vatnsnotkun innandyra
 • Leki frá lögnum

Flutningsleiðir:

 • Rakasveimi (e. diffusions) rakaflutningur vegna mismunandi gufuþrýstings
 • Rakastreymi (e.convection) rakaflutningur vegna mismunandi loftþrýstings
 • Hárpípuvirkni
 • Vatnsflæði

Til þess að veita ráðgjöf í rakaöryggi teljum við nauðsynlegt að hafa  reynslu á ástandsskoðunum bygginga á Íslandi. Við hjá EFLU höfum skoðað þúsundir bygginga með tilliti til rakavandamála, hvort sem er íbúðar- eða skrifstofuhúsnæði, og búum yfir sérhæfðri þekkingu í viðgerðum, viðhaldi, endurnýjun og breytingum á byggingum. Einnig eru sérfræðingar EFLU með áratugareynslu af ráðgjöf og rannsóknum á byggingareðlisfræðilegum þáttum. Þannig hefur byggst upp mikil reynsla varðandi hvaða lausnir í byggingariðnaði virka og að sama skapa hvaða lausnir eru áhættusamar. 

Frágangsdeili eru skoðuð með tilliti til hættu á leka, hættu á uppsöfnun á raka vegna rakasveimis eða rakastreymis, áhrif byggingarraka, mögulegrar útþornunar, kuldabrúaráhrifa og mögulegrar framkvæmdaráhættu. Lagt er mat á hvort það þurfi að gera betur grein fyrir ákveðnum frágangsdeilum.

Verklagsreglur við skoðun bygginga

Í upphafi er skoðaður gufuþrýsting og mettunarþrýstingur í sniði byggingarhluta með glaseraðferðinni. Við matið er reiknað með óhagstæðum útiaðstæðum eða -15°C og 80% hlutfallsraka. Ef hætta er á rakaþéttingu í sniði er annað hvort skoðaðar aðrar lausnir eða gert betur grein fyrir rakaástandi með nákvæmari reikniaðferðum. Í framhaldi eru framkvæmdar hermanir í WUFI þar sem notuð eru klukkustundargildi frá Veðurstofu Íslands varðandi hitastig, loftraka, úrkomu, vindhraða og sólargeislun. Gagnaröð er skilgreind samkvæmt staðlinum ÍST EN 15026 sem fjallar um útreikninga á rakaflutningi með númerískum aðferðum. Í ákveðnum tilvikum eru snið skoðuð ítarlega þó svo að rakaþétting komi ekki fram með glaseraðferð, t.d. í tilvikum þar sem að talið er að áhrifaþættir s.s. sólargeislun, undirkælingu, slagregn, selta eða annað eru talin geta haft afgerandi áhrif.

Í byggingarreglugerð kemur fram að byggingarhlutar þurfa vera þannig úr garði gerðir að ekki verði uppsöfnun á raka, þ.e. að rakastig hækkar í byggingarhluta á ársgrundvelli. Krítísk skilyrði geta myndast án þess að uppsöfnun verði á raka í byggingarhluta á ársgrundvelli. Í byggingarreglugerð kemur einnig fram að mannvirki skulu hönnuð og byggð þannig að raki geti ekki skapað aðstæður fyrir myndun örveruvaxtar.

Aðferðir við að meta rakaástand

Til eru nokkrar aðferðir við að meta áhættu á rakaskemmdum í byggingarhlutum. Fyrir timbur og trjákennd efni er oft litið á efnisraka en í ÍST EN 335 eru áhættumörk fyrir örveruvöxt skilgreind sem 20% efnisraki af þurri þyngd. Lægri áhættumörk fyrir efnisraka í timbri eru talin vera 18% af þurri þyngd. Fyrir önnur byggingarefni er yfirleitt litið til hlutfallsraka og hitastigs en rakaþol er mjög mismunandi á milli byggingarefna, t.d. eru gifsplötur mun viðkvæmari fyrir raka en steinull. EFLA notast við niðurstöður ritrýndra rannsókna á rakaþoli byggingarefna. Ef upplýsingar um rakaþol byggingarefnis finnst ekki er reiknað með lægri áhættumörkum sem 80% HR og 0°C6.

Ráðgjöf miðar við að hönnun og framkvæmd sé háttað þannig að rakaástand sé alltaf undir lægri áhættumörkum fyrir rakaskemmdir

Ef aðstæður kalla eftir frekari greiningum á mygluvexti þá notum við VTT módel fyrir mygluvöxt. Módelið er þróað af rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins í Finnlandi og byggir á rannsóknum Viitanens á örveruvexti. Módelið er hluti af forritinu WUFI og tekur til greina þróun hlutfallsraka og hitastigs, gerð byggingarefnis og spírunartíma.

Flækjustig verkefna

Með auknu flækjustigi og í stærri verkefnum eru taldar meiri líkur á að eitthvað fari úrskeiðis hvað raka varðar með tilheyrandi óþægindum og kostnaði við að lagfæra slíkt. Þess vegna er talið er að ráðgjöf varðandi rakaöryggi eigi sérstaklega við í verkefnum þar sem eftirfarandi á við:

 • Notkun á nýjum byggingarefnum/nýjum byggingaraðferðum
 • Flóknar byggingar
 • Mikill byggingarhraði
 • Alþjóðavæðing/innfluttar lausnir – þekking um staðhætti geta týnst
 • Óhefðbundnar byggingaraðferðir
 • Mikið rakaálag, sundlaugar og annað þess háttar
 • Stórar byggingar, kerfisbundinn galli væri stórtjón
 • Kröfur vegna starfssemi í húsi (sjúkrahús, flugvellir, opinberar byggingar)
 • Friðaðar byggingar
 • Endurbætur/breyting á starfssemi eða notkun húss

Hvert atriði sem dregur úr áhættu á rakavandamálum á hönnunar- eða framkvæmdarstigi yfir líftíma byggingar er verðmætt. Samkvæmt lögmáli Murphys mun það sem getur farið úrskeiðis gera það, fyrr eða síðar.

Höf­undur er sér­fræð­ingur í inni­vist, líf­fræði, lýð­heilsa. Fag­stjóri EFLU verk­fræði­stofu.


Heimildir

1) Becher, R., Høje, A.H., Bakke, J. V., Holøs, S. B., & Øvrevik, J. (2017). Dampness and Moisture Problems in Norwegian Homes. International Journal of Environmental Research and Public Health

2) Nevalainen, A., Partanen, P., Jääskeläinen, E., Hyvärinen, A., Koskinen, O., Meklin, T., Vahteristo, M., Koivisto, J., Husman, T. Prevalence of Moisture Problems in Finnish Houses. Indoor Air 1998, 8, 45–49

3) Björn Marteinsson (2012) Íslensk þök-gæði og þróun, NMÍ 12-12 v1, lokaskýrsla til Rannís og Íbúðalánasjóðs,
Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóli Íslands Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, Keldnaholt 

4) SINTEF Listar úr blaði 421.132 Fukt i bygninger. Teorigrunnlag

5) SINTEF blað 700.119 Fukt i bygninger. Uttørking


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Sema Erla telur að dómsmálaráðherra og staðgengill Útlendingastofnunar ættu að segja starfi sínu lausu.
„Ómannúðlegar, kaldrifjaðar og forkastanlegar“ aðgerðir ÚTL
Formaður Solaris segir að aðgerðir Útlendingastofnunar séu okkur sem samfélagi til háborinnar skammar – að æðstu stjórnendur útlendingamála gerist sekir um ólöglegar aðgerðir gegn fólki á flótta.
Kjarninn 22. júní 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ásamt samstarfsaðilum frá Namibíu er þeir komu í heimsókn til Íslands.
Samherji „hafnar alfarið ásökunum um mútugreiðslur“
Starfshættir Samherja í Namibíu, sem voru að frumkvæði og undir stjórn Jóhannesar Stefánssonar, voru látnir viðgangast allt of lengi og hefði átt að stöðva fyrr. Þetta kemur fram í „yfirlýsingu og afsökun“ frá Samherja.
Kjarninn 22. júní 2021
Afsökunarbeiðnin sem birtist í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun. Undir hana skrifar Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Samherji biðst afsökunar á starfseminni í Namibíu: „Við gerðum mistök“
Forstjóri Samherja skrifar undir afsökunarbeiðni sem birtist í á heilsíðu í tveimur dagblöðum í dag. Þar segir að „ámælisverðir viðskiptahættir“ hafi fengið að viðgangast í starfsemi útgerðar Samherja í Namibíu.
Kjarninn 22. júní 2021
Neyðarástandi vegna faraldurs kórónuveiru var aflétt í Tókýó í gær.
Allt að tíu þúsund áhorfendur á hverjum keppnisstað Ólympíuleikanna
Ákvörðun hefur verið tekin um að leyfa áhorfendum að horfa á keppnisgreinar Ólympíuleikanna á keppnisstað en Japönum einum mun verða hleypt á áhorfendapallana. Ólympíuleikarnir í Tókýó hefjast þann 23. júlí.
Kjarninn 21. júní 2021
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson
Aðförin að lýðræðinu
Kjarninn 21. júní 2021
Guðrún Johnsen hagfræðingur og lektor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.
Segir dálkahöfundinn Tý í Viðskiptablaðinu hafa haft sig á heilanum í meira en áratug
Guðrún Johnsen hagfræðingur segir allt sem hún hafi sagt í viðtali við RÚV um sölu á Íslandsbanka í byrjun árs hafa gengið eftir. Afslátturinn sem hafi verið gefinn á raunvirði bankans sé 20-50 prósent.
Kjarninn 21. júní 2021
Tæpum helmingi íslenskra blaðamanna verið ógnað eða hótað á síðustu fimm árum
Samkvæmt frumniðurstöðum úr nýrri rannsókn um þær ógnir sem steðja að blaðamönnum kemur fram að helmingur blaðamanna hafi ekki orðið fyrir hótunum á síðustu fimm árum. Töluvert um að siðferði blaðamanna sé dregið í efa.
Kjarninn 21. júní 2021
Viðar Halldórsson
Má ekki bara sleppa þessu? Um verðlaunaafhendingar á skólaútskriftum
Kjarninn 21. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar