Það er sjaldgæft að sjá sitjandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, verða kjaftstopp, en það gerðist þegar hann tók það sem kalla mætti „biblíugönguna“ þann 1.júní síðastliðinn. Þá labbaði Trump frá Hvíta húsinu, til lítillar kirkju í miðborg Washington, St.Johns, til að láta taka mynd af sér, en kirkjan er kölluð „forsetakirkjan“ vegna sögu sinnar.
En fyrst hafði óeirðarlögregla á hestum, með tárasgasi, flassbombum og öllum hugsanlegaum „óeirðargræjum“ rutt burtu bæði starfsmönnum kirkjunnar og mótmælendum, sem voru að mótmæla drápinu á George Floyd, en Bandaríkin hafa undanfarna daga logað stafnanna á milli vegna þess.
Enda ekki að undra þar sem svartir í Bandríkjunum virðast fá sífellt verri meðferð af hendi yfirvalda, lögreglu og slíkra aðila. Meðal annars í gegnum tíð morð á svörtum mönnum undanfarin ár, sem skotnir hafa verið til bana eða drepnir með öðrum hætti af lögreglumönnum í hinum ýmsu borgum landsins.
Kirkjuleikrit sjónvarpsmannsins Donalds Trumps verður að setja í það samhengi að í byrjun nóvember síðar á þessu ári verður kosið til forseta í Bandaríkjunum á milli Trumps og Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins og Trump þarf sárlega „hið kristna fylgi“ til þess að vinna.
Fyrir aðeins nokkrum vikum virtist útlitið vera Trump verulega í hag, blússandi gangur í efnhagslífinu og atvinnuleysi í lágmarki. Svo kom kórónaveiran og Bandaríkin fóru hreinlega í klessu. Og eru nánast enn í klessu vegna faraldursins, en yfir 110.000 manns hafa nú látist þar vegna kóvid19.
En aftur að kirkjunni. Trump og helstu ráðherrar (m.a. dóms og varnarmálaráðherra), yfirmaður herráðsins og helstu ráðgjafar þrömmuðu að henni, þegar táragasinu hafði slotað og óhætt var að vera á ferli. Þetta var að loknu ávarpi Trumps til þjóðarinnar frá „Rósagarði“ Hvíta hússins.
Og allt í beinni útsendingu, enda þegar svona dramatískir atburðir gerast, þá verður „veisla“ í fjölmiðlum og gjarnan talað um „gott sjónvarp“ („good TV“), nokkuð sem Trump þekkir vel í gegnum feril sinn, meðal annars í þáttunum um „Lærlinginn“ (The Apprentice), sem hann átti og stjórnaði.
Trump kom arkandi að kirkjunni og stillti sér framan hana miðja – leiksýningin var að ná hámarki. Ivanka, dóttir hans og einn nánasti ráðgjafi er sögð hafa rétt honum biblíuna. Þarna stóð því Trump með hina heilögu bók í hendinni, en þetta var allt eins og illa gerður hlutur einhverveginn. Því þetta hafði ekkert með trúarbrögð, kristni eða dálæti Trumps á orði Guðs og bíblíunnar að gera – bara alls ekki neitt. Hér var bara Trump að sýna Trump.
Þögull sem gröfin
Enda kom ekki orð úr munni Trumps þar sem hann stóð og veifaði biblíunni, aldrei slíku vant. Hann stóð bara þarna, þögull sem gröfin – maður sem í raun er alltaf með kjaftinn út á öxl!
Þetta var nefnilega bara „ljósmyndatilfelli“ („photo-op“) – sagan segir að Trump sé nú logandi hræddur um að missa úr ,,kristna fylginu“ í kringum hann, sérstaklega þeirra sem flokka sig sem „evangelista“ en einn frægasti slíkra í Bandaríkjunum var predikarinn Billy Graham (lést 2018). Þarna fyrir framan kirkjuna vildi Trump sýna sig sem „hinn sterka leiðtoga“ en kvöldið áður var hann færður af öryggisástæðum í neðanjarðarbyrgið í Hvíta húsinu, vegna mótmælanna. Talið er að það hafi hann litið sem veikleikamerki og því viljað snúa hlutunum sér í hag.
Hvíta húsið víggirt
Forsetinn sjálfur, „leiðtogi hins frjálsa heims“ – Donald Trump, hafði sem sagt engin skilaboð til handa lýðnum þar sem hann stóð með bókina góðu í hendi sér. Hefði handritið verið betur skrifað, hefði hann að sjálfsögðu lesið nokkur vel valin orð, en hann klikkaði algerlega á því.
Að hans mati hefur sennilega myndin eins og sér átt að duga. „Frelsarinn“ með bíblíuna. Þetta „biblíuatriði“ tók því ekki langan tíma og síðan var þrammað aftur að Hvíta húsinu, sem nú er búið að víggirða með um 3ja metra hárri girðingu allt um kring. Það er því orðið einskonar „kreml“ (virki).
En súrrealískt var þetta, þetta absúrd leikrit, þar sem forseti Bandaríkjanna þóttist vera „biblíumaður“ – maður trúarinnar. Nokkuð sem hann hefur sjaldan eða aldrei verið talin vera, fyrr en hann þurfti á því að halda í kosningabaráttuni árið 2016. Þá hitti hann valdamikla, kristna trúarleiðtoga á fundi í New York, þar sem repúblíkaninn Mike Huckabee stjórnaði fundinum. Hann er fyrrum fylkisstjóri Arkansas og faðir fyrrum fjölmiðlafulltrúa Trumps, Söru Huckabee.
Hyldýpið
Í frétt NPR sagði fá því að markmið fundarins hafi verið að trúarleiðtogarnir vildu hitta manninn sem átti að þeirra sögn „að bjarga Bandaríkjunum úr hyldýpinu“, væntanlega frá „hinum vonda“ Barack Obama, sem Trump á sínum tíma sakaði um að vera ekki Bandaríkjamaður.
Því ef þú vilt verða forseti, þá er það nánast nauðsynlegt að vera með þennan hóp fólks með þér, hina kristnu, sérstaklega fyrir repúblíkana. Meðal hinna kristnu eru líka mestu íhaldsmennirnir og þessum hópi fylgja gjarnan miklir peningar.
Nú má kannski segja að ákveðið hyldýpi sé milli Trumps og (að minnsta kosti) hluta bandarísku þjóðarinnar, sér í lagi svartra. Skilaboð Trumps eftir morðið á blökkumanninum George Floyd hafa eingöngu verið á einn veg; meiri harka, meiri valdbeiting, já, jafnvel raunverulegir hermenn á göturnar, nokkuð sem aðeins örsjaldan hefur gerst í sögu Bandaríkjanna.
Trump hefur enga tilraun gert til þess að lægja öldurnar og eða dempa ástandið. Engin tilraun til sátta, málamiðlana eða álíka, bara harkan sex og leiksýningar. Það er hörkutólið Donald Trump sem Donald Trump vill að heimsbyggðin sjái.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.