Margir supu hveljur á dögunum yfir hótun Bandaríkjaforseta um að láta herinn kveða niður mótmæli sem sprottið hafa í kjölfar morðsins á George Floyd. En sé litið til sögunnar má fullyrða að bandarísk yfirvöld hafi – frá tímum þrælahalds til fjöldafangelsunar – rekið stríð gagnvart fólki af afrískum uppruna.
Í tæpa öld eftir stofnun Bandaríkjanna var þrælahald fest í sessi lagalega í gegnum stjórnarskrá alríkisins og stjórnarskrár einstakra ríkja í Suðrinu. Ein af meginástæðum þess að alríkinu voru veitt sérstök neyðarvöld í stjórnarskránni árið 1787 – sömu valdheimildir og gera Donald Trump kleift að beita hernum í innanríkismálum – var til þess að berja niður þrælauppreisnir.
Upphaf skipulegrar löggæslu í Bandaríkjunum má m.a. rekja til svokallaðra þrælasveita í Suðrinu. Þær voru skipaðar hvítum sjálfboðaliðum sem höfðu leyfi til að beita ofbeldi til að framfylgja lögum sem festu þrælahald í sessi. Sveitirnar höfðu uppi á strokuþrælum og skiluðu þeim til „eigenda“ sinna, börðu niður uppreisnir þræla og pyntuðu þá sem voru taldir hafa brotið reglur þrælasamfélagsins. Herlið alríkisins var svo til taks ef á þurfti að halda, viðbúið að aðstoða ríki við að brjóta frelsisbaráttu þræla á bak aftur.
Að loknu borgarastríðinu árið 1865 voru þrælasveitirnar leystar upp. Þrælahald var afnumið og með endurreisninni átti að tryggja að hið nýfengna frelsi yrði ekki einungis orðin tóm. En í Suðurríkjunum voru í sömu andrá festar í lög sérstakar reglur fyrir svarta undir yfirskriftinni Black Codes. Markmiðið var að viðhalda undirokun svarts fólks og hneppa það í eins konar vistarband. Fjórtánda breytingarákvæði stjórnarskrárinnar árið 1868 felldi þessi lög úr gildi en samkvæmt því voru Bandaríkjamenn af afrískum uppruna jafnir öðrum gagnvart lögum.
Á næstu tveimur áratugum var farið í kringum breytingarákvæðið og fest í lög svokölluð Jim Crow löggjöf um Suðrið og víða í Norðurríkjunum sem komu á aðskilnaðarstefnu milli svartra og hvítra. Svartir voru jafnframt útilokaðir frá stjórnmálaþátttöku og öðrum borgaralegum réttindum. Hlutverk lögreglunnar var að framfylgja aðskilnaðarstefnunni. Skipulagðar sveitir hvítra kynþáttahatara, á borð við Ku Kux Klan, ofsóttu áfram og myrtu svart fólk og gátu oftast treyst því að lögregla og dómskerfi myndu láta það óátalið. Á þriðja áratugnum litu þýskir nasistar hýru til aðskilnaðarkerfisins og ferðuðust m.a. til Suðurríkjanna til að kynna sér aðferðir til að kúga gyðinga.
Tæpum 90 árum eftir að fjórtánda breytingarákvæðið var leitt í lög – eða árið 1957 – tók þáverandi forseti Bandaríkjanna, Dwight D. Eisenhower, stjórn yfir þjóðvarðarliði Arkansas og beitti því til að framfylgja ákvörðun Hæstaréttar um að aðskilnaðarstefna skyldi felld úr gildi í skólum landsins. Áður hafði ríkisstjóri Arkansas kallað út hersveitirnar til að koma í veg fyrir að svartir nemendur fengju inngöngu í skóla. Borgararéttindabaráttan sem sigldi í kjölfarið á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar leiddi til byltingar á réttindum og stöðu svartra Bandaríkjamanna. Aðskilnaðarstefnan var brotin á bak aftur, jafnvel með hervaldi. Í fyrsta sinn þjónuðu lögin svörtu fólki í stað þess að viðhalda undirokun þeirra. Neyðarheimildir sem settar voru upphaflega til að berja niður réttindabaráttu þeirra voru nú nýttar þeim til stuðnings.
Löggjafinn áttaði sig á því á sjöunda áratugnum að náin tengsl voru á milli atvinnuleysis og glæpatíðni. En í stað þess að skapa ný atvinnutækifæri var opinberu fjármagni veitt uppbyggingu nýrra fangelsa þvert um landið og fjölgun (hvítra) lögreglumanna í stórborgum. Refsingar voru auknar og nýjar tegundir af afbrotum gerð refsiverð. Hið svokallaða Stríð gegn eiturlyfjum reyndist vera stríð gegn svörtu fólki, undirstaðan að „nýrri Jim Crow“ aðskilnaðarstefnu eins og lögfræðingurinn Michelle Alexander hefur bent á. Í dag eru fleiri svartir einstaklingar í fangelsi í Bandaríkjunum en voru í Suður-Afríku á hátindi aðskilnaðarstefnunnar.
Glæpavæðing kynþáttar birtist líka í því að 90 prósent þeirra sem eru stoppaðir, yfirheyrðir og leitað á – á afar tæpum lagalegum grundvelli án ástæðu til handtöku eða leitarheimildar – eru af afrískum og suður-amerískum uppruna. Skortur er á áreiðanlegri tölfræði um lögregluofbeldi í Bandaríkjunum, en á undanförnum sex árum hafa a.m.k. 100 einstaklingar af afrískum uppruna látist í varðhaldi lögreglu. Lögreglumenn sem eru valdir að dauða eru nánast friðhelgir; á sama tímabili var ekki ákært í 99 prósent tilvika. Lögreglumennirnir sem vakta samfélög svartra eru að mestu hvítir og búa ekki sjálfir á svæðunum.
Þá birtist það sem Hannah Arendt hefur vísað til sem bjúgverpilsáhrifa í tengslum við stríðið gegn hryðjuverkum í því að lögregla vígvopnast eins og her í innrásarstríði. Hergögn sem framleidd voru fyrir stríðsrekstur í Afganistan og Írak hafa ratað fyrir tilstilli sérstakra reglugerða til bandarískra lögregludeilda. Alríkið tryggir með beinum hætti að hergögn séu notuð gegn bandarískum borgurum heima fyrir með því að skylda lögregludeildir sem taka við vopnunum að beita þeim innan árs. Rannsóknir sýna fram á skýra fylgni milli hervæðingar lögreglunnar og fjölgunar lögregludrápa og -ofbeldis. Frá 2002 hafa svo hundruð bandarískra lögreglumanna frá lögregludeildum þvert um landið ferðast til Ísraels þar sem þeir hafa fengið þjálfun frá hernum í eftirlitsaðgerðum, óeirðastjórnun og bardagaaðferðum. Það er því ekki tilviljun að ísraelskir lögreglumenn beita sömu aðferðum og þeim sem urðu George Floyd að bana, eins og sjá mátti af myndum sem dreift var á samfélagsmiðlum nýlega þar sem sjá mátti lögreglumenn með hné á hálsi Palestínumanna.
Þegar mótmæli brjótast út vegna lögregluofbeldis og manndrápa í Bandaríkjunum – eins og árið 2014 í kjölfar morðanna á Eric Gardner í New York og Michael Brown í Ferguson – mætir lögreglan almenningi eins og um sé að ræða óvini á vígvelli, vopnuð árásarrifflum, vélbyssuturnum, sprengjuvörpum, drónum og brynvörðum ökutækjum sem líkjast helst skriðdrekum. Það sem Donald Trump kallar „lög og reglu“ á því meira skylt við herlög og hernám.
Kröfur mótmælenda um að draga úr fjármögnun til (her)lögreglunnar og fangelsisiðnaðarins verður að skoða í þessu ljósi. Það eru allt of margir lögreglumenn á götum stórborga Bandaríkjanna með allt of mikið af vopnum með það verkefni að leita uppi glæpi sem ríkisvaldið sjálft hefur búið til, m.a. til að svara eftirspurn hins ábatasama fangelsisiðnaðar eftir nýjum föngum. Uppbygging þessa lögregluríkis hefur verið á kostnað velferðarríkisins og menntakerfisins.
Frá upphafi hafa andstæð öfl sett mark sitt á sögu Bandaríkjanna. Þar hafa tekist á frelsishugmyndir sem gera ráð fyrir að Bandaríkin séu land frelsis allra og kynþáttahyggja með áherslu á yfirburði hinna hvítu. Að undanskilinni endurreisninni og borgararéttarbyltingunni hafa Bandaríkin einkum verið land fyrir hvítt fólk. Segja má að núverandi Bandaríkjaforseti hafi meðal annars verið kjörinn til að viðhalda þeirri stöðu og halda stríðinu gegn svörtu fólki áfram. Vonandi verður mótmælaaldan í tengslum við morðið á George Floyd upphafið að endalokum hernaðarins.
Höfundur er nýdoktor í sögu Bandaríkjanna við Edinborgar-háskóla.