Þegar COVID-19 kippti hagkerfinu skyndilega í handbremsu voru góð ráð dýr. Stjórnvöld út um allan heim gripu til aðgerða til að vinna gegn atvinnuleysi og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila. Aðgerða sem ætlað er að auðvelda skjótan bata í hagkerfinu um leið og markaðir opnast.
Alþingi Íslendinga hefur samþykkt lagafrumvörp í þessum tilgangi án þess að þingmenn hafi í raun haft gögn eða sérfræðiálit til að byggja ákvarðanir sínar á. Full samstaða var um fyrstu skrefin en svo fór að Samfylkingin gat ekki stutt framlengingu á hlutabótaleiðinni og greiddi atkvæði gegn frumvarpi um laun í uppsagnarfresti. Ástæðan var fyrst og fremst sú að mikið skorti á skýrleika og samspil þessara tveggja stóru aðgerða. Margt benti til að málatilbúningur allur hvetti til uppsagna fremur en að fyrirtæki héldi ráðningasambandi við starfsmenn. Það gátum við ekki samþykkt.
Það hefði auðveldað okkur alþingismönnum róðurinn ef við hefðum haft aðgang að sérfræðingum sem legðu mat á aðgerðir stjórnvalda og samspil þeirra, svöruðu spurningum alþingismanna og legðu mat á áhrif breytingartillagna þeirra.
Samstaða um tillögu þingmannanefndar
Á árunum 1974–2002 var starfandi þjóðhagsstofnun sem heyrði undir forsætisráðherra og átti að fylgjast með árferði og afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum. Ákvörðun þáverandi forsætisráðherra um að leggja niður Þjóðhagsstofnun hefur alla tíð verið mjög umdeild.
Alþingi samþykkti einróma 28. september 2010 þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010. Ein tillaga þingmannanefndarinnar var þessi: „Stofnuð verði sjálfstæð ríkisstofnun sem fylgist með þjóðhagsþróun og semji þjóðhagsspá.“
Í 1. bindi í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna árið 2008 segir í 4. kafla m.a. þetta: „Til þess að skapa hlutlausan grundvöll fyrir samhæfingu efnahagsstefnunnar mætti fela sjálfstæðri ríkisstofnun það hlutverk að spá fyrir um efnahagshorfurnar og meta ástand efnahagsmála og líklega þróun að gefnum forsendum um mismunandi efnahagsstefnu.“ Það er löngu tímabært að Alþingi bregðist við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar, sem fjallaði um hana, og endurreisi Þjóðhagsstofnun.
Fjármálaráð og Þjóðhagsstofnun
Með lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, var sett á stofn fjármálaráð. Í athugasemdum við frumvarpið segir: „Virk stjórnun opinberra fjármála er háð því hversu aðgengilegar upplýsingar um markmið, forsendur, framkvæmd og áhrif fjármálastefnu almennt eru. Til að stjórnun opinberra fjármála sé árangursrík þarf samstillingu og samkvæmni þessara þátta. Hlutverk fjármálaráðs er að greina þetta samspil og meta hvort það sé rökrétt og uppfylli þær kröfur sem grunngildin og fjármálareglan fela í sér og fjármálastefnan hvílir á. Fjármálaráð er fyrst og fremst faglegt ráð sem beitir þeirri aðferðafræði sem best er talin á sviði hagvísinda við greiningu og rökstuðning í álitsgerð sinni. Ráðið skal stuðla að gagnsæi í umræðu um þróun opinberra fjármála. Óháð álitsgerð fjármálaráðs er grundvallaratriði í þessu samhengi.“
Fjármálaráð er þriggja manna ráð. Til að það geti sinnt hlutverki sínu er nauðsynlegt að það fái upplýsingar og greiningar frá stofnun sem er óháð ríkisstjórnum hverju sinni. Ný Þjóðhagsstofnun væri tilvalin til að vinna með fjármálaráði við upplýsingaöflun og skýrslugerð.
Nýir tímar
Vissulega er umhverfið breytt frá því að Þjóðhagsstofnun starfaði á árum áður. Samtök aðila vinnumarkaðarins, hvort heldur er launafólks eða atvinnurekenda, annast greiningar í efnahagsmálum en einnig eru öflugar greiningardeildir innan bankanna og aðrar stofnanir, svo sem Viðskiptaráð, sem láta sig varða greiningar á efnahagshorfum. Allt eru þetta hagsmunasamtök af einhverju tagi og óábyrgt að láta sem ekki komi til greina að greiningar geti verið litaðar af hagsmunum þessara fyrirtækja, stofnana eða samtaka. Þess vegna er brýnt að í landinu sé stofnun sem treysta má með nokkurri vissu að dragi ekki taum ákveðinna hagsmunaafla í þjóðfélaginu heldur hafi þjóðarhagsmuni að leiðarljósi. Undirrituð er fyrsti flutningsmaður frumvarps um Þjóðhagsstofnun sem dreift var í þriðja sinn á Alþingi 9. júní 2020.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.