Miðbakkinn hefur verið að vakna til lífsins, með alls kyns leik og hreyfingu, líkt og skemmtilegur andi sé að færast yfir svæðið. Hinsvegar getum við spurt okkur hvað koma skal í ljósi hugmynda fjársterkra uppbyggingaraðila sem kynntar voru til sögunnar nýverið. Tillagan minnir á risastóra kökusneið sem slítur borgina frá höfninni og einkavæðir víðáttuna og hafflötinn. Þessar hugmyndir hafa sem betur fer ekki verið samþykktar svo vonandi er framtíð svæðisins enn björt.
Við höfum oft séð slíkar tillögur áður, sem tikka í öll box viðskiptalíkans skipulagsmála til þess eins að koma koma gríðarlegu byggingarmagni í gegn. Þar má meðal annars sjá inndregnar hæðir sem hefur lengi verið einhvers konar undarleg málamiðlun til að minnka stórar byggingar – sem verður auðvitað aldrei raunin. Svo er útlitið hálf þokukennt, ekkert ákveðið en samt allskonar svo ekki sé hægt að kalla þetta “steinsteypukumbalda” eða “glerhallir”. Þegar myndir af innigörðum eru skoðaðar nánar má sjá óbeina fleti, samt án þess að um lífræna formgerð sé að ræða. Meira eins og þessir útlitsfletir hafi verið beinir í upphafi en svo teygðir til svo einhver myndi ekki kalla þetta „kassalaga nútíma arkitektúr“.
Það má kannski segja að það sé nokkuð ósanngjarnt að rýna í svona myndir og hugleiða hvers konar arkitektúr sé á ferð og hvort þetta sem beri fyrir sjónir sé gott eða ekki. Verkefnið felst nefnilega ekki í að búa til arkitektúr heldur sölumyndir fyrir viðskiptahugmynd. Þá þurfum við að spyrja okkur hvort Miðbakkinn eigi að vera söluvara eða staður fyrir almenning?
Þegar við horfum aftur í tímann þá hefur höfnin í Reykjavík skipað sérstakan sess fyrir borgina. Þegar ég rifja upp sögur afa míns af stríðsárunum, eins og þegar hann vitjaði ættingja sem voru að koma með farþegaskipi frá Ameríku, þá hljómaði höfnin eins og staður fyrir alla. Hún myndaði tengingu við umheiminn og var undirstaða lífsviðurværis okkar.
Hvað varðar hin miklu uppbyggingaráform sem kynnt hafa verið er vert að halda því til haga að jarðhæðir bygginga verða líklega opnar almenningi, með kaffihúsum og slíku. Hafnarkanturinn sem er bílastæði í dag verður nú aðgengilegur hinum almenna borgara. Að því leytinu til mun verkefnið aftur tikka í rétt box skipulagsmála. Hér erum við þó komin að þeim viðkvæma félagsfræðilega punkti sem snýr að því hvort okkur finnist við tilheyra ákveðnu umhverfi, jafnvel þó skipulagsskilmálar segi að við gerum það. Fjölmörg erlend dæmi, af svipuðum toga með fimm stjörnu hótelum, sýna að svona uppbygging verður ekki fyrir alla hópa samfélagsins.
Það er vissulega erfitt að gera öll svæði fyrir alla. Við erum nefnilega fjölbreytileg flóra fólks með mismunandi hugmyndir, væntingar og lífsviðhorf. Engu að síður verða líka að vera til þessir staðir í almannarýminu þar sem öllum líður eins og þeir tilheyri og séu hluti af einni heild. Umhverfið á að halda utan um okkur öll. Höfnin hefur allt til brunns að bera til að vera staður sem tengir borgina við víðáttumikið hafið og margslungna sögu og menningu. Hún getur verið staður sem tengir okkur öll saman; íbúa á öllum aldri en líka ferðalanga sem þyrstir í að sjá margbreytilegt mannlíf og víðáttumikið hafið við sundin.
Höfundur er arkitekt.