Kaldir stríðs klækir í fjármálaráðuneytinu

Auður Jónsdóttir rithöfundur skrifar um ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytisins um að styðja ekki ráðningu Þorvalds Gylfasonar í starf og hvernig það lét hana leiða hugann að afa sínum, Halldóri Laxness.

Auglýsing

Aðeins um Þorvald Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, og bragð af kalda stríðs klækjum  í fjármálaráðuneytinu ... Í stuttu máli, á formlegum nótum: Þorvaldi bauðst nokkuð virt staða, að verða ráðinn ritstjóri norræna fræðitímaritsins Nordic Economic Policy Review. Hann þáði stöðuna, en ráðningin er því háð að hin löndin blessi hana, eða öllu heldur ákveðnir embættismenn hvers lands. 

Í kjölfarið hefur starfsmaður fjármála- og efnahagsráðuneytisins samband við kollega í norrænu fjármálaráðuneytunum og jafnframt Norrænu ráðherranefndina til að segja að ráðuneytið á Íslandi geti ekki stutt ráðningu Þorvaldar. Ástæðan? Jú, samkvæmt vitneskju ráðuneytisins hefur Þorvaldur verið, og sé enn, formaður stjórnmálaafls og teljist því vera of pólitískt virkur til að hægt sé að styðja ráðningu hans. 

Raunar er meint vitneskja þess sem talar í umboði ráðuneytisins röng, en eins og kunnugt er bar íslenska ráðuneytið fyrir sig að þetta stæði á Wikipedia. Þorvaldur var einn stofnanda Lýðræðisvaktarinnar árið 2013 og leiddi hana til kosninga, en síðan hætti hann í stjórn flokksins. 

Auglýsing

Viðbúið er að margir sem lesa þetta hafi lesið bréfin sem fóru á milli finnska embættismannsins og þess íslenska, en sýnishorn má m.a. sjá hér.

Í ljós hefur komið að íslenski starfsmaðurinn heitir Ólafur Heiðar Helgason og er sérfræðingur á skrifstofu efnahagsmála. Áhugavert er hvernig fjármálaráðuneytið og fjármálaráðherra virðast firra sig ábyrgð á gjörðum fjármálaráðuneytisins, en í frétt á Visir.is má lesa: „Hin norræna stýrinefnd tók ákvörðun um hver var fenginn til að gegna starfinu. Sjónarmiðunum sem um ræðir var komið á framfæri af ráðuneytinu og ekki borin undir ráðherra né aðra á skrifstofu yfirstjórnar ráðuneytisins,“ segir meðal annars í útskýringum fjármálaráðuneytisins vegna málsins sem vakið hefur mikla athygli.“ 

Gáttaður Finni

Og þá að óformlegri hluta þessa pistils: Af því sem ég fæ best séð býðst Þorvaldi þarna að fá að ritstýra virtu málgagni á vettvangi Norðurlandanna, en það tækifæri virðist vera eyðilagt af íslenskum öflum í pólitíkinni sem hafa líklega styggst vegna samfélagsgagnrýni hans í gegnum tíðina. 

Spjótin standa á ungan starfsmann ráðuneytisins, téðan Ólaf Heiðar, en auðvitað ályktar maður að hann hljóti að hafa talið sig orða vilja íslenska ráðuneytisins í anda og skjóli yfirboðara sinna – sem þó virðast kjósa að firra sig allri ábyrgð. 

Af bréfaskrifunum að dæma virðist finnski embættismaðurinn, Markku Stenborg, klóra sér í hausnum yfir viðbrögðum íslenska ráðuneytisins og lái honum engum. Raunar er nokkuð kostulegt að lesa eftirfarandi línur sem hann sendir íslenska ráðuneytisstarfsmanninum: 


Dear Olafur, 


I am very surprised by this message. Could you please open up your thinking and rationalize the view? On paper, he seems an extremely qualified candidate. We would like to make an informed decision here. 


Best regards, 


Markku Stenborg


Svo maður leiki sér að því að þýða þetta í innblásinni þýðingu og tjá undirliggjandi tón orðsendingarinnar, þá mætti útleggja hana á þessa leið: 


Kæri Ólafur, 


Ég er gáttaður á þessum skilaboðum. Viltu vinsamlegast víkka út klesst hugskotið, já, taka hausinn út úr óæðri endanum á þér, og færa rök fyrir hugsanavillu þinni? Svart á hvítu, ekki er annað að sjá en hér sé á ferð sérstaklega hæfur maður í starfið. Hér á bæ leggjum við í vana okkar að taka vel upplýstar, faglegar ákvarðanir og kjósum að íslenska fjármálaráðuneytið myndi gera hið sama. 


Bestu kveðjur, 


Markku Stenborg

Þá að tjáningarfrelsinu

Eitthvað við þetta mál leiddi hugann að móðurafa mínum, Halldóri Laxness, og embættislegum andbyr sem átti til að blása á hann, raddar hans vegna. Hann var, eins og þekkt er, pólitískt þenkjandi og táknrænn í umræðu um sósíalisma. 

Á mikilvægu augnabliki á höfundarferli hans, þegar hann hafði gefið út skáldsöguna Sjálfstætt fólk í Bandaríkjunum, árið 1946, við eftirtektarverða velgengni, fóru íslensk stjórnvöld fram á það við bandarísk stjórnvöld að rannsókn yrði gerð á skattamálum hans, en þá var Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. Um þetta leyti var Halldór að gefa út Atómstöðina sem kom út árið 1948 og var innlegg í pólitískt hitamál, varnarmál og herstöðina í Keflavík. 

Á mbl.is má lesa grein um málavexti í skattamálum Laxness í Bandaríkjunum, en hún er byggð á bók Halldórs Guðmundssonar um hann: 

Í þessari klausu úr henni kemur m.a. fram að þáverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hafi í febrúar, árið 1948 og mánuði fyrir útgáfu Atómstöðvarinnar, skrifað eftirfarandi orð: 

„Athugið að orðstír Laxness myndi skaðast varanlega ef við komum því til skila að hann sé að reyna að komast undan tekjuskatti." Trimble er bent á að það sé hlutverk þeirra sem greiddu Halldóri höfundarlaunin að halda eftir því sem bandarísk skattyfirvöld eiga að fá. Engu að síður er málið kannað og fær sendiráðið nákvæmt yfirlit yfir höfundarlaun Halldórs fyrir Sjálfstætt fólk.

Leiða má líkur að því að framganga íslenskra yfirvalda hafi stöðvað frekari þungavigtar útgáfu á verkum hans í Bandaríkjunum næstu áratugina, þrátt fyrir velgengnina, enda er vitað að bandaríski útgefandinn fékk fyrirspurnir um Laxness frá FBI, en á vef Gljúfrasteins stendur: 

Skáldsagan Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness kom út í janúar 1997 hjá Vintage-bókaforlaginu í Bandaríkjunum sem er hluti af Random House útgáfusamsteypunni. Bókin var gefin út vestra af sömu samsteypu árið 1946 og seldist þá í hálfri milljón eintaka á um það bil hálfum mánuði. Engin bók Halldórs Laxness hafði frá þeim tíma komið út hjá stóru bókaforlagi í Bandaríkjunum. 

Nú hefði maður haldið að klækjabrögð Kalda stríðsins ættu að vera liðin tíð, svo fjarlæg að tilhugsunin um að embættismaður í íslensku ráðuneyti, fæddur 1992, væri smitaður af anda þeirra þætti í hæsta máta fráleitt. 

En nei! 

Og maður hefði haldið að flokkurinn sem hefur kennt sig við frelsi, í oft á tíðum naívt hannaðri orðræðu stjórnmálanna, ætti að gæta þess að grunngildum þess sé fylgt í ráðuneytinu sem hann stjórnar og um leið fyrirbyggja að undirsátar ráðherra telji að línan sé að stjaksetja frelsið í nafni frelsis. Allt snýst þetta jú um tjáningarfrelsi. 

Að skapa andrými þess í samfélaginu á þann hátt að borgarar geti öruggir tjáð pólitíska sýn sína og gagnrýnt það sem þeim þykir miður fara, án þess að óttast að það muni kosta að yfirvöld reyni að bregða fæti fyrir þá í framtíðinni, slíkur ótti getur jú þaggað niður í fólki. Þorvaldur hefur vissulega pólitíska rödd og þykir aktívur maður í samfélagsumræðunni. En er veruleikinn sá að þeir sem hafa pólitíska rödd, gagnrýnir á núverandi valdhafa, þurfi að búa við ótta um að íslenska ríkið eigi til að beita sér fyrir því að brjóta á þeim, til dæmis með því að hefta atvinnumöguleika þeirra á alþjóðavettvangi?

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
„Eðlilegt að draga þá ályktun að verðið hafi hækkað vegna áhuga á útboðinu“
Forsætisráðherra segir að það bíði næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort selja eigi fleiri hluti í Íslandsbanka. Salan hafi verið vel heppnuð aðgerð.
Kjarninn 23. júní 2021
Jenný Ruth Hrafnsdóttir
Ísland - Finnland: 16 - 30
Kjarninn 23. júní 2021
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Engin smit út frá bólusettum með virkt smit – „Hver er þá áhættan? Mikil eða lítil?“
Ellefu bólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á landamærunum. Engin smit hafa hins vegar greinst út frá þeim. Sóttvarnalæknir segir enn óvíst hvort smithætta fylgi bólusettum með smit en að hún sé „alveg örugglega“ minni en frá óbólusettum.
Kjarninn 23. júní 2021
Benedikt Jóhannesson hefur veifað bless við framkvæmdastjórn flokksins sem hann var aðalhvatamaðurinn að því að stofna.
Hefur sagt sig úr framkvæmdastjórn og segir framgöngu formanns mestu vonbrigðin
Fyrrverandi formaður Viðreisnar telur að atburðarás hafi verið hönnuð til að koma ákveðnum einstaklingum í efstu sætin á lista flokksins á höfuðborgarsvæðinu og halda öðrum, meðal annars honum, frá þeim sætum.
Kjarninn 23. júní 2021
Drífa Snædal, forseti ASÍ.
ASÍ hvetur forsætisráðherra til að beita sér fyrir alþjóðlegum fyrirtækjaskatti
Verkalýðshreyfingin kallar eftir því að lagður verði á 25 prósent skattur á hagnað alþjóðlegra stórfyrirtækja þar sem hann verður til.
Kjarninn 23. júní 2021
Viðskipti hófust með bréf Íslandsbanka í gær.
20 fjárfestar keyptu rúmlega helminginn af því sem selt var í Íslandsbanka
Búið er að birta lista yfir stærstu eigendur Íslandsbanka. Auk ríkisins eiga lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir stærstu eignarhlutina. Margir einstaklingar leystu út hagnað af viðskiptunum í gær.
Kjarninn 23. júní 2021
Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um hvort og þá hvenær farið verður að bólusetja börn við COVID-19 á Íslandi.
Ráðleggja óbólusettum – einnig börnum – frá ónauðsynlegum ferðalögum
Sóttvarnarlæknir segir þær ráðleggingar embættisins að óbólusettir ferðist ekki til útlanda gildi einnig fyrir börn. Engin ákvörðun hefur enn verið tekin um almenna bólusetningu barna.
Kjarninn 23. júní 2021
Miklar sveiiflur hafa verið á virði rafmyntarinnar Bitcoin síðasta sólarhringinn.
Kínverjar snúa baki við Bitcoin og verðið fellur
Verð rafmyntarinnar Bitcoin hefur lækkað umtalsvert á undanförnum dögum en náði sér aðeins á strik síðdegis í dag. Kínverjar hafa reynt að stemma stigu við viðskiptum með myntina þar í landi og nýlega var fjölda gagnavera sem grafa eftir myntinni lokað.
Kjarninn 22. júní 2021
Meira úr sama flokkiÁlit