Það er ekki að því hlaupið að ferðast milli landa á tímum kófsins. Það vita þeir sem reyna og þeirra á meðal er ég. Ég var í rútu frá Berlín til Prag. Á tékknesku landamærunum var rútunni snúið við mín vegna, við mikinn fögnuð samfarþega minna. Tékknesku landamæravörðunum þótti ég ekki sannfærandi þegar ég tjáði þeim að ökuskírteini sé löggilt skilríki, og eiginlega bara alveg eins og vegabréf. Eða kannski er ekki að því hlaupið að ferðast án vegabréfs. Ég hefði betur munað eftir því þegar ég fór frá Prag.
Ég var skilinn eftir við aðalbrautarstöðina í Dresden og rútan og hinir samviskusamari ferðalangarnir héldu á braut, seinir til Prag. Ég keypti mér gistinótt á hóteli og hugsaði með mér að svona gerðist bara í bókum. Þetta var dramatískt og meira spennandi en hvunndagurinn, en ekki nógu spennandi til að vera í bíómynd. Morguninn eftir, áður en ég tók lest aftur til Berlínar, þá spásseraði ég um miðbæ Dresden. Ich bin spazieren gegangen.
Dresden fór illa í seinni heimsstyrjöldinni og hún ber þess merki. Bandamenn jöfnuðu hana við jörðu í umdeildri loftárás í febrúar 1945, rétt fyrir stríðslok. Borgin var áður kölluð „the Jewel Box“ eða skartgripaskrínið sökum mikilfenglegra barokkbygginga miðbæjarins. Núna einkennist miðbærinn af endurreistum barokkdjásnum annars vegar og hins vegar af hryllilegum verslunarmiðstöðvum. Og á þeim stutta tíma sem ég eyddi í miðbæ Dresden vöknuðu því tvær spurningar: Af hverju endurreistu menn þessar gömlu byggingar? Og af hverju eru nýju byggingarnar svona ljótar?
Fyrri spurninguna má kannski umorða: Af hverju endurreistu menn þessar gömlu byggingar í gömlum stíl í staðinn fyrir að gera eitthvað nýtt og framúrstefnulegt? Franski heimspekingurinn Jean Baudrillard myndi eflaust svara á þá leið að menn væru að reyna að viðhalda ákveðnum valdastiga í því kerfi tákna sem við búum í og reyna að ríghalda í eitthvað sannleiks- og raunveruleikalögmál. Og þó svo að ég sé ekki frá því að hann hafi eitthvað til síns máls að taka, þá er ég líka á því að maður þarf ekki að vera kunnugur franskri tuttugustu aldar heimspeki til að finnast þessi endurbygging ögn furðuleg. Því að þetta er ekki söguleg endurbygging eins og þjóðveldisbærinn Stöng. Hún er miklu umfangsmeiri en svo og í henni felst ekkert sérstakt fræðilegt gildi. Og þetta er ekki einbert viðhald, það þarf ekki að dytta að byggingunum heldur byggja þær upp á nýtt. Þetta er ekki tilraun til að halda í frumleikann, í það upprunalega, í áruna eins og Walter Benjamin myndi kannski kalla það. Áran er komin og farin. Þetta er smá eins og ef Mona Lisa væri brennd og menn ákvæðu að mála hana bara upp á nýtt. Upprunalegi miðbærinn var jafnaður við jörðu þegar sprengiefni rigndi yfir borgina og í eldstorminum sem geisaði dagana á eftir. Það er augljóst að þetta eru ekki upprunalegu húsin. Kalksteinninn er hvítur og nýr en ekki svartur og tærður eins og sá sem finna má í húsum frá 18. öld. Það er ekki nema einn og einn steinn sem hefur verið bjargað úr rústunum og notaður í endurbygginguna.
Ætli þessi endurbygging hafi táknrænt gildi? Að endurbyggingin tákni endurreisn sem segir, „Komið og sjáið, hér var eitt sinn gífurlegt ríkidæmi!“ En þessi endurreisn er þó í hrópandi andstöðu við borgir sem ekki hafa verið sprengdar í loft upp. Péturskirkjan í Róm segir, „sjáið, hér er ríkidæmi!“ Hvaða máli skiptir það hvar ríkidæmið var? Hvað annað en að viðhalda táknrænum erfðarétti á mikilvægi. Dresden hefur verið endurreist í kerfi táknanna, tilveruréttur hennar og staða byggir ekki á framtíðinni heldur fortíðinni. Hún getur sannað mikilvægi sitt með því að sýna að hér var ríkidæmi. Og hér er svo sem ríkidæmi enn, Dresden er þekkt fyrir hátækniiðnað og stundum kölluð „Silicon Saxony“ fyrir vikið. En það er ekki sama ríkidæmi og reisti miðbæ í barokkstíl.
En svo getur líka verið að miðbærinn hafi verið endurbyggður eins og hann var af því að barokkstíllinn þykir einfaldlega svo fallegur. Og þá komum við að seinni spurningunni, af hverju eru nýbyggingarnar svona ljótar?
Það er vert að nefna að rústir Frúarkirkjunnar voru látnar standa í tæpa hálfa öld. Aðrar byggingar voru endurreistar en það sem var eftir af Frúarkirkjunni var látið standa sem minnisvarði um ógeðslega eyðileggingu stríðs. Rústirnar voru minnisvarði um það sem er horfið og kemur aldrei aftur. En eftir að Þýskaland var sameinað og nýfrjálshyggjan tók yfir, þá var kirkjan endurbyggð í nýrri og upprunalegri mynd. Þar með var hulan lögð yfir horfna tíma og í dag er ekkert sem bendir til þess að nokkuð hafi gerst. Núna gengur maður inn í leikmynd þegar maður virðir Dresden fyrir sér. Maður tekur þátt í leikriti sögunnar og þó svo að ef vel er að gáð, að þá sé hægt að sjá að leikmyndin er ekki ekta, þá er fjórði múrinn aldrei brotinn. Leikræni gjörningurinn er ekki viðurkenndur.
Þær eru undarlegar andstæðurnar í miðborg Dresden. Annars vegar eru sálarlausar byggingar í barokkstíl, endurreistar af andlausum öflum, og hins vegar eru snargeldir og ósjarmerandi verslunarkjarnar, reistir með kapítali fyrir kapítalið. En bil beggja held ég að finna megi eitthvað eftirsóknarvert. Það sem liggur að baki barokkinu, tilraunin til að skapa eitthvað stórbrotið, eitthvað sem kitlar augað og ber þess merki hvers við erum fagurfræðilega megnug, mætti einnig vera til grundvallar nýbyggingum. Og nýbyggingin, framsýnin og framtíðin, mætti vera tekin alvarlegar, frekar en að ríghalda í það sem horfið er. Barokkið kemur aldrei aftur, en það þýðir ekki að við getum ekki skapað eitthvað fallegt. Og á þessum umbrotatímum kófsins, þó svo að vonandi séu allir löngu orðnir þreyttir á gagnrýnni sjálfsskoðun, þá hvet ég til umræðu um hvernig framtíð við viljum byggja og skilja eftir okkur. Stöldrum allavegana við áður en við endurreisum bara það sem var í úreltum stíl.
Höfundur er heimspekinemi búsettur á meginlandinu.