Um Dresden og miðbæi framtíðar

Baldvin Flóki Bjarnason vill að við stöldrum við áður en endurreisum það sem var í úreltum stíl.

Auglýsing

Það er ekki að því hlaupið að ferðast milli landa á tímum kófsins. Það vita þeir sem reyna og þeirra á meðal er ég. Ég var í rútu frá Berlín til Prag. Á tékknesku landamærunum var rútunni snúið við mín vegna, við mikinn fögnuð samfarþega minna. Tékknesku landamæravörðunum þótti ég ekki sannfærandi þegar ég tjáði þeim að ökuskírteini sé löggilt skilríki, og eiginlega bara alveg eins og vegabréf. Eða kannski er ekki að því hlaupið að ferðast án vegabréfs. Ég hefði betur munað eftir því þegar ég fór frá Prag.

Ég var skilinn eftir við aðalbrautarstöðina í Dresden og rútan og hinir samviskusamari ferðalangarnir héldu á braut, seinir til Prag. Ég keypti mér gistinótt á hóteli og hugsaði með mér að svona gerðist bara í bókum. Þetta var dramatískt og meira spennandi en hvunndagurinn, en ekki nógu spennandi til að vera í bíómynd. Morguninn eftir, áður en ég tók lest aftur til Berlínar, þá spásseraði ég um miðbæ Dresden. Ich bin spazieren gegangen.

Dresden fór illa í seinni heimsstyrjöldinni og hún ber þess merki. Bandamenn jöfnuðu hana við jörðu í umdeildri loftárás í febrúar 1945, rétt fyrir stríðslok. Borgin var áður kölluð „the Jewel Box“ eða skartgripaskrínið sökum mikilfenglegra barokkbygginga miðbæjarins. Núna einkennist miðbærinn af endurreistum barokkdjásnum annars vegar og hins vegar af hryllilegum verslunarmiðstöðvum. Og á þeim stutta tíma sem ég eyddi í miðbæ Dresden vöknuðu því tvær spurningar: Af hverju endurreistu menn þessar gömlu byggingar? Og af hverju eru nýju byggingarnar svona ljótar?

Fyrri spurninguna má kannski umorða: Af hverju endurreistu menn þessar gömlu byggingar í gömlum stíl í staðinn fyrir að gera eitthvað nýtt og framúrstefnulegt? Franski heimspekingurinn Jean Baudrillard myndi eflaust svara á þá leið að menn væru að reyna að viðhalda ákveðnum valdastiga í því kerfi tákna sem við búum í og reyna að ríghalda í eitthvað sannleiks- og raunveruleikalögmál. Og þó svo að ég sé ekki frá því að hann hafi eitthvað til síns máls að taka, þá er ég líka á því að maður þarf ekki að vera kunnugur franskri tuttugustu aldar heimspeki til að finnast þessi endurbygging ögn furðuleg. Því að þetta er ekki söguleg endurbygging eins og þjóðveldisbærinn Stöng. Hún er miklu umfangsmeiri en svo og í henni felst ekkert sérstakt fræðilegt gildi. Og þetta er ekki einbert viðhald, það þarf ekki að dytta að byggingunum heldur byggja þær upp á nýtt. Þetta er ekki tilraun til að halda í frumleikann, í það upprunalega, í áruna eins og Walter Benjamin myndi kannski kalla það. Áran er komin og farin. Þetta er smá eins og ef Mona Lisa væri brennd og menn ákvæðu að mála hana bara upp á nýtt. Upprunalegi miðbærinn var jafnaður við jörðu þegar sprengiefni rigndi yfir borgina og í eldstorminum sem geisaði dagana á eftir. Það er augljóst að þetta eru ekki upprunalegu húsin. Kalksteinninn er hvítur og nýr en ekki svartur og tærður eins og sá sem finna má í húsum frá 18. öld. Það er ekki nema einn og einn steinn sem hefur verið bjargað úr rústunum og notaður í endurbygginguna.

Ætli þessi endurbygging hafi táknrænt gildi? Að endurbyggingin tákni endurreisn sem segir, „Komið og sjáið, hér var eitt sinn gífurlegt ríkidæmi!“ En þessi endurreisn er þó í hrópandi andstöðu við borgir sem ekki hafa verið sprengdar í loft upp. Péturskirkjan í Róm segir, „sjáið, hér er ríkidæmi!“ Hvaða máli skiptir það hvar ríkidæmið var? Hvað annað en að viðhalda táknrænum erfðarétti á mikilvægi. Dresden hefur verið endurreist í kerfi táknanna, tilveruréttur hennar og staða byggir ekki á framtíðinni heldur fortíðinni. Hún getur sannað mikilvægi sitt með því að sýna að hér var ríkidæmi. Og hér er svo sem ríkidæmi enn, Dresden er þekkt fyrir hátækniiðnað og stundum kölluð „Silicon Saxony“ fyrir vikið. En það er ekki sama ríkidæmi og reisti miðbæ í barokkstíl.

En svo getur líka verið að miðbærinn hafi verið endurbyggður eins og hann var af því að barokkstíllinn þykir einfaldlega svo fallegur. Og þá komum við að seinni spurningunni, af hverju eru nýbyggingarnar svona ljótar?

Auglýsing
Barokkstíllinn einkennist af afturhaldslausum íburði og hentar því vel í kirkjur, öllu er til kostað til dýrðar Guði. Skandinavískum minimalistum misbýður. En þeim misbýður eflaust líka glerið og blikkið sem klæðir verslunarmiðstöðvar nýfrjálshyggjunnar. Nú er það ekki vegna skrautsins heldur smekkleysisins. Í barokkinu voru menn ekki feimnir við að eyða peningum, til hvers eru peningar ef ekki til að búa til eitthvað stórfenglegt og tigna Guð? Nú er Guð dauður en eftir stendur peningurinn. Nýbyggingarnar eru ekki byggðar til skrauts, þær eru fjárfestingar. Þær eru byggðar úr ódýrum efnum og munu eflaust ryðga í sundur innan aldar. Þær rýma ekki anda og dýrð heldur neyslu. Á milli aðalbrautarstöðvarinnar í Dresden og miðbæjarins eru einar fjórar verslunarmiðstöðvar. Restin eru verslunarstræti. Ef barokkið var hannað til að vekja undrun og upplifun hjá fólki, þá eru verslunarmiðstöðvarnar hannaðar til að vekja kaupmáttinn með ónotum. Það er ekkert sem hvetur mann til að staldra við og meðtaka umhverfið, þvert á móti þá leitar maður skjóls í næstu búð. Ef barokkið var til dýrðar Guði, þá eru samtímabyggingar til dýrðar verslunar og neyslu — til dýrðar kapítalsins. Kapítalið fjárfestir í eigin tign.

Það er vert að nefna að rústir Frúarkirkjunnar voru látnar standa í tæpa hálfa öld. Aðrar byggingar voru endurreistar en það sem var eftir af Frúarkirkjunni var látið standa sem minnisvarði um ógeðslega eyðileggingu stríðs. Rústirnar voru minnisvarði um það sem er horfið og kemur aldrei aftur. En eftir að Þýskaland var sameinað og nýfrjálshyggjan tók yfir, þá var kirkjan endurbyggð í nýrri og upprunalegri mynd. Þar með var hulan lögð yfir horfna tíma og í dag er ekkert sem bendir til þess að nokkuð hafi gerst. Núna gengur maður inn í leikmynd þegar maður virðir Dresden fyrir sér. Maður tekur þátt í leikriti sögunnar og þó svo að ef vel er að gáð, að þá sé hægt að sjá að leikmyndin er ekki ekta, þá er fjórði múrinn aldrei brotinn. Leikræni gjörningurinn er ekki viðurkenndur.

Þær eru undarlegar andstæðurnar í miðborg Dresden. Annars vegar eru sálarlausar byggingar í barokkstíl, endurreistar af andlausum öflum, og hins vegar eru snargeldir og ósjarmerandi verslunarkjarnar, reistir með kapítali fyrir kapítalið. En bil beggja held ég að finna megi eitthvað eftirsóknarvert. Það sem liggur að baki barokkinu, tilraunin til að skapa eitthvað stórbrotið, eitthvað sem kitlar augað og ber þess merki hvers við erum fagurfræðilega megnug, mætti einnig vera til grundvallar nýbyggingum. Og nýbyggingin, framsýnin og framtíðin, mætti vera tekin alvarlegar, frekar en að ríghalda í það sem horfið er. Barokkið kemur aldrei aftur, en það þýðir ekki að við getum ekki skapað eitthvað fallegt. Og á þessum umbrotatímum kófsins, þó svo að vonandi séu allir löngu orðnir þreyttir á gagnrýnni sjálfsskoðun, þá hvet ég til umræðu um hvernig framtíð við viljum byggja og skilja eftir okkur. Stöldrum allavegana við áður en við endurreisum bara það sem var í úreltum stíl.

Höfundur er heimspekinemi búsettur á meginlandinu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Tibor starfar á Kaffibrennslunni á Laugavegi í Reykjavík.
„Ég get ekki grátið fyrir innan afgreiðsluborðið“
„Ég upplifi þessar bætur sem áverka ofan á áfallið sem við, þau sem lifðum af, vorum þegar að ganga í gegnum,“ segir Vasile Tibor Andor sem lifði eldsvoðann á Bræðraborgarstíg af. „Flest okkar misstu allt sem við eigum og heilsu okkar, von og framtíð.“
Kjarninn 19. júní 2021
Frá vígslu málverkanna í febrúar árið 2018. Síðan þá hafa þau ekki verið sýnd hlið við hlið.
Portrettmyndir Obama-hjónanna gera víðreist um Bandaríkin
Aðsóknarmet var slegið í National Portrait Gallery í Washington D.C. eftir að opinberar portrettmyndir Obama-hjónanna bættust í safneignina árið 2018. Nú eru myndirnar á leið í 11 mánaða reisu vítt og breitt um Bandaríkin.
Kjarninn 19. júní 2021
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Afnám leiguþaks gæti orðið Löfven að falli
Svíþjóð hefur, líkt og önnur lönd í Evrópu, reynt að sporna gegn hröðum leiguverðshækkunum með leiguþaki. Nú gæti farið svo að sænska ríkisstjórnin falli vegna áforma um að afnema slíkar takmarkanir fyrir nýbyggingar.
Kjarninn 18. júní 2021
Frá Akureyri.
Starfsfólki sagt upp á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri
Forseti ASÍ gagnrýnir hagræðingaraðgerðir sem bitna fyrst og fremst á starfsfólki að hennar mati. Heilsuvernd tók við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar í apríl á þessu ári.
Kjarninn 18. júní 2021
Kona gengur fram hjá minningarvegg um fórnarlömb COVID-19 í London.
Delta-afbrigðið á fleygiferð á Bretlandseyjum
Tilfellum af COVID-19 fjölgaði um 50 prósent í Bretlandi á einum mánuði frá 5. maí til 7. júní. Smitum af völdum Delta-afbrigðisins svokallaða fjölgaði um tæp 80 prósent milli vikna. Ný bylgja segja sumir en aðrir benda á að hún verði aldrei skæð.
Kjarninn 18. júní 2021
Komum erlendra ferðamanna til landsins fækkaði um 81 prósent milli 2019 og 2020.
Íslendingar eyddu minna á ferðalögum innanlands í fyrra heldur en árið 2019
Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna innanlands námu 122 milljörðum króna í fyrra og drógust saman um 14 prósent frá 2019. Hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst saman um rúmlega helming á tímabilinu, fór úr átta prósentum niður í 3,9 prósent.
Kjarninn 18. júní 2021
Upplýsingar um alla hluthafa og hversu mikið þeir eiga í skráðum félögum hafa legið fyrir á opinberum vettvangi undanfarið. Þetta telur Persónuvernd stríða gegn lögum.
Persónuvernd telur víðtæka birtingu hluthafalista fara gegn lögum
Vegna nýlegra lagabreytinga hefur verið hægt að nálgast heildarhluthafalista skráðra félaga í Kauphöllinni í samstæðureikningum á vef Skattsins. Persónuvernd telur þessa víðtæku birtingu fara gegn lögum.
Kjarninn 18. júní 2021
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar