Á hvaða vegferð eru formenn og stjórnmálaflokkar í lýðræðisríki sem ganga gegn vilja umbjóðenda sinna, þjóðarinnar?
Hinn almenni borgari sækist ekki til valda, og enn síður í fé annarra, en lítur frekar til stjórnmála með væntingu um sanngirni, velferð og réttlæti; að hans eigin sjóðum og annarra sé varið af heiðarleika og kostgæfni samfélaginu til heilla.
Stjórnmálafólk sækist hins vegar í fulltrúavöld og fé umbjóðenda sinna gegn loforði og drengskap um að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Það er því mikilvægt að almenningur og stjórnmálafólk brúi samskipti sín á milli og tileinki sér það tungutak sem elur af sér gagnkvæman skilning, traust og lausnarmiðaða þjóðfélagsheild í stað sundrungar. Gerist það, mun skilningur fólks á mismunandi þörfum allra og þjóðfélagsins í heild batna.
Í stjórnmálum er samhengi hlutanna ekki ýkja flókin jafna: Þar sem gagnsæi er viðhaft, er heiðarlegur ásetningur í fyrirrúmi en hið öndverða þar sem leynd hvílir. Gagnsæi og hreinskipt samskipti fólks í millum er uppskrift að heiðarleika, og eru stjórnmálamenn þar engin undantekning.
Lýðræðisumræðan á Íslandi um lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar, verndun auðlinda og náttúru, þarf ekki á vélráðum að halda til þjónkunar skammtímahagsmunum þröngs hóps útgerðarmanna sem misnota sameiginlega fiskveiðiauðlind þjóðarinnar í skjóli keyptra stjórnmála. Umræðan þarf ekki að litast kænskubrögðum, heldur krefst heiðarleika, gagnsæis og gagnrýnnar hugsunar. Ástæðan er skýr; niðurstaðan er oft óafturkræf og varðar komandi kynslóðir.
Átta ár eru liðin frá þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem markaði vatnaskil í sögu lýðveldisins. Skil milli gamla Íslands og hins nýja. Breyting stjórnarskrárinnar með staðfestingu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20.10.2012 var sú langþráða siðbót sem þjóðin krafðist eftir hrun. Stjórnlagaþing og síðar Stjórnlagaráð með stuðningi meirihluta Alþingis og skipað af ríkisstjórn, skilaði breytingum stjórnarskrárinnar með stuðningi 2/3 kjósenda í sögulegri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þessi stjórnarskrá þjóðarinnar hefur ekki verið lögfest af Alþingi sem ítrekað brýtur gegn þjóðinni.
Á þjóðhátíðardegi Íslendinga er mér framangreint efst í huga.
Góðar stundir.
Höfundur er áhugamaður um betra líf.