Íbúahreyfingin stofnaði fyrir nokkrum árum til umræðu í bæjarráði um ógegnsæi í viðskiptum Mosfellsbæjar með lóðir í Sunnukrika þar sem reisa átti í áföngum allt að 300 herbergja lúxushótel. Til upprifjunar gerði Kvika samning við bæinn árið 2017 í nafni Sunnubæjar ehf. en að baki félaginu stóð Fasteignaauður V. sem var sjóður fjárfesta sem Kvika var með í stýringu. Íbúahreyfingin vildi því fá að vita við hverja sveitarfélagið væri raunverulega að semja.
Á þjóðhátíðardaginn birtist umfjöllun í ViðskiptaMogganum um samskonar viðskiptafléttu í Garðabæ 2017 og 2018 undir yfirskriftinni Stefna Kviku fyrir að bæta ekki úr ágöllum á lúxusíbúðum. Samkvæmt fréttinni höfðu miklir ágallar komið í ljós á lúxusíbúðum í nýrri byggingu og kaupendur því stefnt Kviku og fleiri aðilum sem tengjast framkvæmdinni. Fram kemur að fólkið hafi talið sig vera að kaupa íbúðirnar af Kviku en þegar á hólminn var komið virðist svo ekki vera.
Nú stýrir Kvika hinum ýmsu sjóðum svokallaðra fagfjárfesta. Sjóðurinn sem átti að fjármagna verkefnið í Garðabæ var Fasteignauður IV. sem aftur stofnaði einkahlutafélagið Holtsstíg ehf. til að sjá um framkvæmdina. Starfsmenn Kviku sátu í stjórn Fasteignaauðs IV. Í umræddri frétt segir frá því að það hafi þeir gert á meðan á byggingunni stóð og þess sérstaklega getið að starfsmennirnir hafi neitað að gefa kaupendum upp eignarhald á sjóðnum.
Á einhverjum tímapunkti uppbyggingar seig á ógæfuhliðina í Garðabæ. Fasteignaauður IV. losaði sig við rekstrarfélagið Holtsstíg ehf. til verktakafyrirtækisins Selesar sem byggði húsið. Seles reyndist síðar eignalaust og engar bætur þangað að sækja. Bankinn neitar nú að bæta skaðann sem kaupendur íbúðanna telja sig hafa orðið fyrir og því dómsmál í uppsiglingu.
Í tilviki viðskiptanna í Garðabæ telur enginn sig bera ábyrgð á tjóninu og gætu viðskiptavinirnir þurft að sitja uppi með það. Svo virðist sem Kvika banki telji sig vera lausan allra mála og vekur það upp spurningar um stöðuna í Mosfellsbæ. Á fundinum í bæjarráði (nr. 1330), sem minnst er á í upphafi greinar, krafði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar bæjarstjóra og þáverandi bæjarlögmann svara við því við hverja sveitarfélagið væri raunverulega semja, hvernig eignarhaldi væri háttað og þar af leiðandi ábyrgðinni á fyrirhuguðum framkvæmdum. Bankinn sjálfur gæti vart talist vera framkvæmdaaðilinn. Svarið við spurningunni var að Kvika væri primus motor í verkefninu og digrir sjóðir bankans ættu að gulltryggja framkvæmdina eða eins og segir í fundargerð:
„Bókun V- og D- lista. Sunnubær er dótturfélag Kviku sem er öflugur fjárfestingarbanki með 235 milljarða eignasafn. Kvika er háð eftirliti Fjármálaeftirlitsins.”
En hefur bankinn sama skilning á hlutverki sínu og ábyrgð? Ef marka má fréttina um stefnu íbúa í Garðabæ virðist svo ekki vera. Bankinn bregst við með fálæti og fólk veit vart hvert það á að snúa sér til að sækja bætur. Aðrar viðskiptafléttur af sama toga hljóta því að vera í uppnámi.
Fróðlegt verður að fylgjast með því hver framvinda málsins verður. Eins og það blasir við í fréttinni er réttarstaða kaupenda gallaðra íbúða í Garðabæ engan veginn ljós og það þarf að skýra. Ekki einungis fyrir dómstólum, heldur í bæjarstjórnum þeirra sveitarfélaga sem gerðu samskonar samninga við Kviku og bankanum mögulegt að flýja af hólmi, ef illa fer fyrir kaupendum fyrir dómi.
Höfundur var fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í bæjarstjórn Mosfellsbæjar 2014 til 2018.