Íslenskir bændur og trúlega bændur fleiri þjóða, hafa verið talsvert umsvifamiklir í hótel- og gistiþjónustu. Snemma á seinni hluta síðustu aldar réðust þáverandi heildarsamtök bænda í það stórvirki að byggja hótel sem nú stendur við Melatorg í Reykjavík og margir þekkja sem Hótel Sögu.
Almenn samstaða var ekki meðal bænda um þá hugmynd forystunnar að byggja hótel, en lítið var við því að gera, þar sem framlag bænda til framkvæmdanna var lagt á með lögum frá Alþingi. Lagt þannig á, að klipið var af innleggi þeirra til afurðastöðvanna. Var lagt á sem hluti af svokölluðu búnaðargjaldi, því sem fyrir nokkrum árum var dæmt ólöglegt eftir að dugnaðarmenn í svínarækt og fleiru, kærðu þá skattheimtu og unnu málið með glæsibrag.
Hótel Saga reis af grunni og þar hefur verið rekið hótel, sem síðan hefur verið stækkað og endurnýjað eftir þörfum. Undirritaður hefur keypt sér þar gistingu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og notið góðrar aðstöðu og þjónustu sem ekkert hefur verið út á að setja. Og það hafa ótal margir aðrir gert, því hvað sem segja má um hvernig hótelið varð til, þá er það ágætt og stendur vel fyrir sínu með góðri gistiaðstöðu, veitingaþjónustu og aðstöðu til fundarhalda.
Nú er svo komið að Hótel Saga er í fjárhagslegum erfiðleikum og það sama má segja um Bændasamtök Íslands. Vandræði þeirra eru af öðrum toga en hótelsins, þó með vissum frjálsleika megi finna þar samlíkingu. Bændasamtökin misstu að stórum hluta fjármögnun sína eftir að búnaðargjaldið var dæmt ólöglegt, en hótelið missti tekjustofninn, gestina sem keyptu sér gistingu, vegna COVID-19 faraldursins, eftir að hafa staðið í kostnaðarsömum endurbótum á húsnæðinu.
Hótelið hefur reynt að fylgjast með tímanum, en það hafa Bændasamtökin ekki gert. Þau eru söm og áður, eru samtök sauðfjár-, nautgripa- og garðyrkju eins og þau hafa alla tíð verið og ekki er svo að sjá, sem ætlunin sé að vinda sem einhverju nemur ofan af því. Sé það hins vegar hugmyndin, verður að bregðast fljótt við, því sjóðir brenna hratt upp og tíminn vinnur ekki með mönnum eins og staðan er núna.
Aðrir hafa leyst vanda af svipuðu tagi án vandræða og kannski væri réttara að segja að vandi af þessu tagi hafi aldrei orðið þar til. Til eru önnur heildarsamtök atvinnugreina og þar hefur þetta vandamál ekki komið upp svo heitið geti. Við fljótlegan yfirlestur samþykkta slíkra samtaka, sést að menn geta sameinast í hagsmunagæslusamtök þó starfsemin sé í einhverju ólík og greiða til dæmis félagsgjald sem hlutfall af veltu og njóta atkvæðisréttar í samræmi við það. Þar gæti verið fyrirmynd að lausn á vanda bændasamtakanna. En hugur manna í þeim, stendur til að leita fyrirmyndar annars staðar og í Bændablaðinu mátti lesa fyrir nokkrum vikum að ætlunin væri að sækja til danskra bændasamtaka fyrirmynd að lausn á þessum vanda.
Hvað út úr þessu kemur er ekki gott að segja, en lesa hefur mátt mikinn harmagrát í aðsendum greinum í Morgunblaðinu og víðar, um að nú sé hún Snorrabúð stekkur, því svo sé komið að Landbúnaðarráðuneytið sé ekki lengur til og sé einungis skúffa í Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu. Þar hefur einna hæst grátið, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Saknar hann eflaust fyrri tíma, þegar allt var eins og það „átti“ að vera, þegar engin svokölluð „armslengdarfjarlægð“ var að þvælast fyrir mönnum og þeir gátu haft hlutina eins og þeir vildu hafa þá, eða þeim einfaldlega fannst að þeir ættu að vera.
Landbúnaðarráðuneytið gamla var eins og margir muna, lítið annað en útibú frá Bændasamtökunum, staðsett hjá hinu opinbera:
Hagsmunagæsla viðurkenndra búgreina, sem þar með var bæði komin með belti og axlabönd og ráðherrarnir komu oftar en ekki glaðbeittir inn í ráðuneytið; skokkandi beint frá búum sínum og dæmi voru um að skot hlypi í fót, eins og þegar einn slíkur skellti á 200% kjarnfóðurskatti á einni nóttu í þeim tilgangi að koma höggi á „frjálsu“ búgreinarnar, alifugla og svínarækt.
Ráðherranum ráðsnjalla sást hins vegar yfir að kúabændur urðu fyrir höggi líka með aðgerðinni og í framhaldinu hófst mikill eltingaleikur við óraunveruleikann í þeim tilgangi að breyta honum í raunveruleika sem stóð yfir í nokkur ár.
Búgreinarnar sem ekkert vægi hafa í Bændasamtökunum núna, þrátt fyrir mikið vægi á íslenskum matvörumarkaði, hafa ekki séð sér annað fært en að mynda samstarfsvettvang, sem að standa félög eggja svína og kjúklingabænda. Þar er um að ræða búgreinar sem reknar eru á allt öðrum grundvelli en þær sem eru innan svokallaðra „búvörusamninga“, þeirra sem samþykktir voru eftir japl jaml og fuður á Alþingi til 10 ára af 19 þingmönnum ef rétt er munað og sem nú nýlega er búið að endurskoða. Vel getur verið að stofnuð verði enn önnur samtök bænda ef ekki verður brugðist fljótt við. Svo mikið er víst, að a.m.k. fyrrnefnd félög eiga í raun enga samleið með núverandi Bændasamtökum Íslands.
Við munum að fyrir nokkrum árum gerðist það, að fulltrúi Félags svínabænda gekk út af Búnaðarþingi, (samkomu sem er jafngildi aðalfundar B.Í.) og gerði það örugglega ekki að ástæðulausu. Samkoman er ekkert annað en illa lukkaður forngripur sem til er kosið með ,,sovésku“ fyrirkomulagi. Af því leiðir að þingið endurspeglar ekki á nokkurn hátt þann landbúnað sem stundaður er nú á tímum og ekki nóg með það:
Það þarf að fara marga áratugi aftur í tímann, til að finna þá tíma sem samkoman speglar, ef hún þá hefur nokkurn tíma hefur gert það, en Lífeyrissjóður bænda býður þó alla vega fulltrúunum í veislu, þannig að þeir sem mæta fá eitthvað fyrir sinn snúð!
En aftur að hótelhaldi og ferðaþjónustu.
Við sem fylgjumst með Bændablaðinu og umfjöllunum þess, höfum tekið eftir því að talsvert er fjallað um hótelrekstur og ferðaþjónustu á síðum blaðsins að undanförnu og er það að vonum.
Ástæðan er trúlegast að hótel bændasamtakanna er í miklum vanda eins og áður var sagt og ekki síður hitt, að talsvert er um að bændur hafi farið út í að þjónusta ferðamenn. Það varð svo dæmi sé nefnt, eftir því tekið að núverandi landbúnaðarráðherra sá ástæðu til að flýta greiðslum ríkisstyrkja til sauðfjárbænda. Ástæðan sem gefin var upp fyrir því ráðslagi, var að þeir hefðu orðið fyrir áfalli vagna samdráttar í ferðamennsku vegna COVID-19.
Hvernig það var fundið út að sauðfjárbændur hefðu skaðast umfram aðra bændur hefur ekki verið skýrt út svo við höfum séð. Það vill svo til að ferðaþjónusta á vegum bænda er alls ekki bundin við sauðfjárbændur eina, og áfall af völdum farsóttarinnar lendir ekki svo vitað sé neitt sérstaklega á þeim.
Verið getur að landbúnaðarráðherrann hafi hringt í einhvern vin sinn í þeirra hópi og sá hafi borið sig aumlega og niðurstaðan hafi því orðið sú sem varð. Ekki má heldur gleyma því að greinin er að stærstum hluta ríkisrekstur, bæði fyrir innanlandsmarkað og til útflutnings. Sauðfjárbændur eru sem verktakar hjá ríkissjóði, svo drjúgt er það hlutfall tekna þeirra sem þaðan kemur.
Og ekki nóg með það, frístundabúskapur greinarinnar er greiddur úr ríkissjóði á sama hátt og sá sem stundaður er sem atvinnusköpun. Menn fá sem sagt greitt frá almenningi fyrir að framleiða kjöt sér til gamans í sjálfa sig og sína, með skepnum sem þeir líta á, a.m.k. að hluta til, sem gæludýr.
Það er svo augljóst að það þarf að taka til í þessu kerfi, að jafnvel fyrrverandi og núverandi formenn Framsóknarflokksins og Miðflokksins ættu að geta gert sér grein fyrir því, en þó er það ekki víst. Fjalla- og firnindabúskap sjá þeir í sérstöku ljósi og þess eru dæmi að þeir sem „elska“ sauðkindina, að eigin sögn, bæði mikið og heitt, ráði sér vart fyrir kæti þegar þeir eru fengnir til að stjórna „kótelettukvöldum“ í vetrarbyrjun, þar sem gleðin er við völd og brandarar eru sagðir og allir gleðjast og eru kátir, hressir og glaðir.
Þá kemur í ljós til hvers hrútarnir (þ.e.a.s. lömbin) eru skornir.
Höfundur er fyrrverandi bóndi.