Ríkisstjórn boðar aðför að fjölbreyttri frjálsri fjölmiðlun

Auglýsing

Tilkynnt var um að nefnd sem ætti að skoða leiðir til að styrkja íslenskt fjölmiðlaumhverfi yrði skipuð í lok árs 2016. Undirliggjandi var að tryggja að gagn­rýnin umræða, aðhald, fjöl­breyttar skoð­anir og sjón­ar­mið, menn­ing­ar­leg fjöl­breytni og rann­sókn­ar­blaða­mennska – grund­völlur hvers lýð­ræð­is­rík­is – myndi eiga sér tilverugrundvöll. 

Nefndin setti fram sjö til­lögur um umbætur sem gætu bætt rekstr­­ar­skil­yrði fjöl­miðla. Þær snéru meðal ann­­ars að stöðu Rík­­is­út­­varps­ins á aug­lýs­inga­­mark­aði, að lækka virðisaukaskatt sem leggst á vörur fjölmiðla, að heimila auglýsingar í íslenskum fjölmiðlum sem í dag eru bannaðar, tryggja gagnsæi í kaupum hins opinbera á auglýsingum í fjölmiðlum og endurgreiðslum fyrir textun og tal­­setn­ingu. Flestar tillögurnar, sem allar eiga fullan rétt á sér og nauðsynlegt er að hrinda í framkvæmd, eiga það sameiginlegt að nýtast helst þremur stærstu fjölmiðlahúsum landsins. Við það eru ekki gerðar athugasemdir hér heldur lýst yfir stuðningi við slíkt.

Ein tillaga var almenn og hafði það markmið að fjöl­miðlar á Íslandi yrðu fjöl­breyttir og í eigu ólíkra aðila. Um var að ræða styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd sem í átti að felast að endurgreiða hluta af framleiðslukostnaði á fréttum og frétta­tengdu efni. 

Þessu markmiði þóttust íslensk stjórnvöld vera að reyna að ná í næstum fjögur ár, með uppsetningu á allskyns leikþáttum, á meðan að innviðir íslenskra fjölmiðla voru látnir drabbast áfram niður.

En nú hefur verið opinberað að líkast til var þetta allt saman plat. Enginn vilji er til staðar hjá ráðamönnum til að tryggja fjölbreytni og fjölræði í íslensku fjölmiðlaumhverfi með ólíku eignarhaldi. Þvert á móti er ætlun þeirra að stuðla að þróun í þveröfuga átt. 

Almennir styrkir verða sértækir styrkir

Á mánudag var tilkynnt að fyrstu beinu styrkjagreiðslur í sögu íslenskra fjölmiðla verði þannig háttað að þær fari nær allar til þriggja stærstu fjölmiðlahúsa landsins: Árvakurs (útgáfufélags Morgunblaðsins), Torgs (útgáfufélags Fréttablaðsins) og Sýnar (sem rekur fréttastofu Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis). 

Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem falið var fullt og óskorað vald til að móta úthlutun styrkjanna með reglugerð, ákvað að hækka hámarksgreiðslur til hinna þriggja stóru úr 50 milljónum króna í 100 milljónir króna, og minnka þann pott sem allir aðrir miðlar á Íslandi geta sótt sér styrki í úr 250 milljónum króna í 100 milljónir króna.

Öll stóru fjölmiðlahúsin þrjú hafa verið rekin í miklu tapi og halda, að minnsta kosti að hluta, úti ósjálfbærum rekstrarmódelum fyrir sína fréttaþjónustu. Það á sérstaklega við þá sem þráast við að prenta og dreifa dagblöðum árið 2020, með tilheyrandi kostnaði og óumhverfisvænum áhrifum. 

Skýrasta dæmið þar er vitanlega Árvakur. Frá því að nýir eig­endur tóku yfir félagið á árinu 2009 og fram til loka árs 2018 tap­aði félagið sam­tals um 2,2 millj­örðum króna. Tap Árvak­urs árið 2018 var 415 millj­ónir króna og jókst mikið frá árinu á und­an, þegar það var 284 millj­ónir króna. Ekki er búið að greina frá því hversu mikið tapið var í fyrra en í ljósi þess að hlutafé í félaginu var aukið um hálfan milljarð á rúmu ári má ætla að það hafi verið verulegt. Þeir sem greiða þennan reikning eru að mestu útgerðarfyrirtæki og sá sem leiddi kaupin hefur greint frá því opinberlega að það hafi verið gert til að berjast fyrir sérhagsmunum þess geira. Auk þess er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á meðal stærstu eigenda. 

Lestur Morgunblaðsins hjá fólki undir fimmtugu hefur á þessu tímabili næstum helmingast og er nú einungis 13,1 prósent. Samt hefur blaðinu verið breytt í fríblað einu sinni í viku, án nokkurrar lestraraukningar. 

Auglýsing
Fréttablaðið hefur tapað enn fleiri lesendum undir fimmtugu. Í apríl 2010 lásu 63,8 prósent landsmanna í aldurshópnum 18-49 ára blaðið. Í maí síðastliðnum voru þeir 26,8 prósent og höfðu dregist saman 58 prósent á áratug.  

Í fyrra keypti þekktur viðskiptamaður Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins. Í kjölfarið var tveimur ósjálfbærum fjölmiðlafyrirtækjum í miklum taprekstri, Hringbraut og DV, rennt inn í samstæðuna. Fyrir liggur að Torg á í rekstrarerfiðleikum. Það kom til að mynda fram í apríl þegar útgáfudögum Fréttablaðsins var fækkað um einn.

Áður hafði Sýn keypt ljósvakamiðla 365 miðla á yfirverði og þau kaup hafa alla tíð síðan verið til gífurlegra vandræða í rekstri þess skráða fyrirtækis. Tap Sýnar í fyrra var 1,7 milljarður króna. 

Aðlögun að nútímanum á ekki upp á pallborðið

Til samanburðar má nefna að Kjarninn, sem er sjö ára fjölmiðlafyrirtæki, hefur ætið lagt áherslur á nýjar leiðir í tekjuöflun og dreifingu. Við höfum gert mörg mistök á þeirri vegferð og þurft að læra af þeim. Tap okkar á ári í gegnum þennan uppbyggingarfasa, og þar af leiðandi inngreitt hlutafé frá byrjun frá alls 19 mismunandi einstaklingum, nemur sirka einum mánaðarlaunum annars ritstjóra Morgunblaðsins að meðaltali á ári. 

En afleiðingin er að við erum nú með sjálfbært rekstarmódel í vexti þar sem tekjur koma fyrst og síðast frá notendum í gegnum styrki og áskriftir, og auglýsingatekjur eru hverfandi þáttur þótt þær vaxi á milli ára. Um 90 prósent af öllum tekjum fara í að greiða starfsmönnum laun. Ekki ein einasta króna fer í að halda uppi dýrum dreifingarkerfum. 

Það hefur skilað því að notendum Kjarnans hefur fjölgað um tæp 50 prósent í ár og innlitum um rúm 30 prósent, þrátt fyrir að áherslur okkar séu ekki á smellibeitur og magn, heldur á færri en ítarlegri efni og að búa til eftirsóknarvert starfsumhverfi fyrir reynslumikla blaðamenn. Mest hefur aukningin í lestri verið í yngri aldurshópunum og hjá konum. Fjöldi lesenda í aldurshópnum 18-24 ára hefur til að mynda tvöfaldast. 

Og við fordæmalausar aðstæður þá höfum við haldið sjó rekstrarlega með því að leggja áherslu á Kjarnasamfélagið, Vísbendingu og ensku fréttabréfin okkar. Reksturinn hefur meira að segja vaxið og er í góðu jafnvægi. 

Styrkjakerfi undir eðlilegum formerkjum myndi vökva sprota sem okkar, og fjölmarga aðra sambærilega, meðal annars þá sem flytja fréttir í heimahéraði, þannig að þeir gætu vaxið og dafnað. Ráðið fleira fólk og þróað vöruframboð sitt. Tryggt betur sjálfstæði sitt.

Ósjálfbærni verðlaunuð

Styrkjakerfið sem sitjandi ríkisstjórn hefur kynnt til leiks, fyrst um sinn undir formerkjum neyðaraðstoðar vegna COVID-19 faraldurs, gerir það hins vegar ekki. Það snýst þvert á móti fyrst og síðast um að færa 75 prósent af þeim fjármunum sem eru til úthlutunar – 300 af 400 milljónum króna – til þriggja fyrirtækja sem eru föst í að spila varnarleik til að viðhalda fjölmiðlaumhverfi sem gekk sér til húðar fyrir meira en áratug síðan. Og viðheldur með því þeirri bjögun sem verið hefur á íslenskum fjölmiðlamarkaði og birtist í því að fjársterkir aðilar niðurgreiða, af einhverjum ástæðum, rekstur í bullandi tapi án þess að gera nauðsynlegar aðlaganir á honum. 

Öll þrjú stóru fjölmiðlahúsin eiga það sameiginlegt að treysta mest á auglýsingatekjur, þótt hluti þeirra haldi líka úti gamaldags áskriftarkerfum. Í góðæri síðustu ára gerðist það hins vegar í fyrsta sinn í Íslandssögunni að auglýsingatekjur íslenskra fjölmiðla jukust ekki í uppsveiflu, heldur leituðu annað, aðallega til samfélagsmiðla. Samhliða hefur hefðbundnum áskrifendum, að prentmiðlum og einstökum sjónvarpsstöðvum, hríðfækkað.

COVID-19 faraldurinn hefur veitt slíku tekjumódeli annað þungt högg. Það sést best á því að RÚV, sem rekur mjög öfluga og fjölmenna auglýsingasöludeild og er besti birtingarvettvangurinn fyrir ljósvakaauglýsingar, var 150 milljónum krónum undir áætlun í auglýsingatekjum á fyrri hluta yfirstandandi árs og reiknar með því að tekjusamdrátturinn verði 300 milljónir króna á næsta starfsári. Þessi staða er yfirfæranleg yfir á auglýsingatekjur Árvakurs, Torgs og Sýnar.

Ekkert stóru fjölmiðlahúsanna þriggja sækir sér sem neinu nemur beinar notendatekjur fyrir starfræna miðlun fréttaefnis. 

Ábendingar Samkeppniseftirlitsins hundsaðar

Vert er, í þessu samhengi, að minna á firnasterka umsögn Samkeppniseftirlitsins um styrkjakerfi fyrir fjölmiðla sem birt var snemma á þessu ári. Þar kom fram að það teldi brýnt að stuðn­ingur við fjöl­miðla af almannafé hafi það að meg­in­mark­miði að styðja við fjöl­ræði og fjöl­breytni. „Í þessu sam­bandi hefur Sam­keppn­is­eft­ir­litið í huga að eign­ar­hald stærri einka­rek­inna fjöl­miðla hefur í vax­andi mæli þró­ast á þann veg að eign­ar­haldið hefur færst á hendur fjár­sterkra aðila sem standa fyrir til­tekna skil­greinda hags­muni í íslensku atvinnu­lífi. Í sumum til­vikum blasir við að ráð­stöfun þess­ara aðila á fjár­munum í fjöl­miðla­rekstur hefur það meg­in­mark­mið að ljá hags­munum við­kom­andi aðila enn sterk­ari rödd og vinna þeim þannig frek­ari fram­gang.“ 

Í umsögn þess sagði enn fremur að við ofan­greindar aðstæð­ur, þar sem fjár­sterkir aðilar sem standi fyrir til­tekna skil­greinda hags­muni í íslensku atvinnu­lífi nýti fjöl­miðla í sinni eigu til að vinna hags­munum sínum fram­gang, væri mik­il­vægt að stjórn­völd hagi stuðn­ingi sínum við fjöl­miðla þannig að þeir aðilar eða hags­muna­öfl sem hafa úr minni fjár­munum að moða geti einnig komið sínum mál­stað á fram­færi. „Ættu stjórn­völd að þróa almenn við­mið um stuðn­ing með þetta í huga, án þess að afstaða sé tekin til við­kom­andi lög­mætra hags­muna eða þeim mis­mun­að.“

Auglýsing
Sam­keppn­is­eft­ir­litið taldi að öll skil­yrði fyrir stuðn­ingi sem miði að, eða hefði þau áhrif, að opin­ber stuðn­ingur yrði fyrst og fremst stærri og öfl­ugri fjöl­miðlum til gagns, á kostnað smærri fjöl­miðla, væri óheppi­leg út frá þessum sjón­ar­hóli. „Slík skil­yrði fá raunar illa sam­ræmst mark­miðum um fjöl­ræði og fjöl­breytni yfir­höf­uð. Að þessu leyti tekur Sam­keppn­is­eft­ir­litið undir athuga­semdir ýmissa smærri fjöl­miðla, sem fram hafa kom­ið, sem benda á að breyt­ingar á frum­varp­inu, frá fyrri útgáfu, sem horfa til strang­ari skil­yrða fyrir stuðn­ingi (og lægra end­ur­greiðslu­hlut­falls), vinni gegn smærri fjöl­miðlum og þar með fjöl­breytni og fjöl­ræð­i.“

Þessi skoðun einnar öflugustu eftirlitsstofnunar landsins, sem reyndar nýverið var útvötnuð niður af sömu stjórnvöldum, var með öllu hunsuð. 

Veik von um að fjölmiðlanefnd sýni styrk

Eina von skynseminnar er að fjölmiðlanefnd, sem fær það hlutverk að taka við umsóknum um styrkina, stigi fast niður og túlki ákvæði í reglugerð ráðherrans um að fjölmiðlaveitur fái ekki styrki ef þær hafa verið í fjárhagserfiðleikum þann 31. desember 2019 þannig að mörg hundruð milljóna króna tap á ári séu sannarlega fjárhagslegir erfiðleikar, þótt að sérhagsmunaaðilar í eigendahópi miðlanna séu tilbúnir að borga þann reikning ítrekað. 

Sömuleiðis er ákvæði í reglugerðinni um að fjölmiðlaveita megi ekki hafa fengið „björgunaraðstoð eða endurskipulagningaraðstoð“ og því ættu Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins, Árvakur, Birtingur og Sýn að vera útilokuð frá styrkjum, í ljósi þess að öll fyrirtækin nýttu sér hlutabótarleið stjórnvalda á síðustu mánuðum. 

Því miður er ekkert í fyrri verkum fjölmiðlanefndar sem gefur tilefni til að ætla að hún hafi í sér slíka staðfestu. Mun líklegra er að flest ofangreind fyrirtæki finni leið, í gegnum hefðbundin pólitísk tengsl, til að komast fram hjá þessu varnarákvæðum.

Vinir valdsins

Það hafa margir stjórnmálamenn talað um að það sé mikilvægt að byggja upp almennt styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd til að auka heilbrigði íslensks fjölmiðlaumhverfis með lýðræðisleg markmið að leiðarljósi. Það sem kynnt var á mánudag er ekki slíkt, heldur að mestu millifærsla á miklum peningum til fjölmiðla í eigu ríkra sérhagsmunaaðila í búningi almennrar aðgerðar. Um er að ræða aðgerð sem er andstæð þeim markmiðum sem lagt var upp með. Og viðheldur því sem Stundin kallaði nýverið í góðum leiðara „Sykurpabbalandið“.

Við hin sem keppum á þessum bjagaða markaði vonuðumst auðvitað, af veikum mætti, til þess að stjórnmálamönnunum sem töluðu á stundum svo skynsamlega um að stærð fjölmiðla segði ekki alltaf allt um mikilvægi þeirra, eða að markmið styrkjakerfis fyrir fjölmiðla væri að að tryggja lýð­ræð­is­lega umræðu og sam­ræður í sam­fé­lag­inu um mál­efni þess, væri alvara með þeim orðum. 

Nú er ljóst að svo er ekki. Ekkert annað bjó að baki en að þvæla umræðu árum saman til að veikja enn stöðu þeirra miðla sem höfðu ekki í djúpa sérhagsmunavasa að leita, og svo vilji til að millifæra úr ríkissjóði hundruð milljóna króna til vina valdsins. 

Það var svo sem ekki við öðru að búast, enda fyrirliggjandi hvar pólitíkin og fjölmiðlar fara saman á Íslandi. Sérhagsmunir eru á endanum alltaf teknir fram yfir almannahagsmuni. Það hefur oft verið mjög sýnilegt hjá sitjandi ríkisstjórn eins og öðrum sem á undan henni hafa setið. 

Um er að ræða meðvitaða tilraun til að drepa alla fjölmiðla nema RÚV, Árvakur, Torg og Sýn. Það skal þó ekki takast. Það mun ekki takast.

Við munum halda okkar striki og berjast áfram. 

Hægt er að styrkja Kjarnann hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari