Hótelhald, búfjárhald og pólitík

Ingimundur Bergmann fjallar um landbúnaðarmál í aðsendri grein.

Auglýsing

Íslenskir bændur og trú­lega bændur fleiri þjóða, hafa verið tals­vert umsvifa­miklir í hót­el- og gisti­þjón­ustu. Snemma á seinni hluta síð­ustu aldar réð­ust þáver­andi heild­ar­sam­tök bænda í það stór­virki að byggja hótel sem nú stendur við Mela­torg í Reykja­vík og margir þekkja sem  Hótel Sög­u. 

Almenn sam­staða var ekki meðal bænda um þá hug­mynd for­yst­unnar að byggja hót­el, en lítið var við því að gera, þar sem fram­lag bænda til fram­kvæmd­anna var lagt á með lögum frá Alþingi. Lagt þannig á, að klipið var af inn­leggi þeirra til afurða­stöðv­anna. Var lagt á sem hluti af svoköll­uðu bún­að­ar­gjaldi, því sem fyrir nokkrum árum var dæmt ólög­legt eftir að dugn­að­ar­menn í svína­rækt og fleiru, kærðu þá skatt­heimtu og unnu málið með glæsi­brag.

Hótel Saga reis af grunni og þar hefur verið rekið hót­el, sem síðan hefur verið stækkað og end­ur­nýjað eftir þörf­um. Und­ir­rit­aður hefur keypt sér þar gist­ingu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og notið góðrar aðstöðu og þjón­ustu sem ekk­ert hefur verið út á að setja. Og það hafa ótal margir aðrir gert, því hvað sem segja má um hvernig hót­elið varð til, þá er það ágætt og stendur vel fyrir sínu með góðri gisti­að­stöðu, veit­inga­þjón­ustu og aðstöðu til fund­ar­halda.

Auglýsing

Nú er svo komið að Hótel Saga er í fjár­hags­legum erf­ið­leikum og það sama má segja um Bænda­sam­tök Íslands. Vand­ræði þeirra eru af öðrum toga en hót­els­ins, þó með vissum frjáls­leika megi finna þar sam­lík­ingu. Bænda­sam­tökin misstu að stórum hluta fjár­mögnun sína eftir að bún­að­ar­gjaldið var dæmt ólög­legt, en hót­elið missti tekju­stofn­inn, gest­ina sem keyptu sér gist­ingu, vegna COVID-19 far­ald­urs­ins, eftir að hafa staðið í kostn­að­ar­sömum end­ur­bótum á hús­næð­in­u. 

Hót­elið hefur reynt að fylgj­ast með tím­an­um, en það hafa Bænda­sam­tökin ekki gert. Þau eru söm og áður, eru sam­tök sauð­fjár-, naut­gripa- og garð­yrkju eins og þau hafa alla tíð verið og ekki er svo að sjá, sem ætl­unin sé að vinda sem ein­hverju nemur ofan af því. Sé það hins vegar hug­mynd­in, verður að bregð­ast fljótt við, því sjóðir brenna hratt upp og tím­inn vinnur ekki með mönnum eins og staðan er núna.

Aðrir hafa leyst vanda af svip­uðu tagi án vand­ræða og kannski væri rétt­ara að segja að vandi af þessu tagi hafi aldrei orðið þar til. Til eru önnur heild­ar­sam­tök atvinnu­greina og þar hefur þetta vanda­mál ekki komið upp svo heitið geti. Við fljót­legan yfir­lestur sam­þykkta slíkra sam­taka, sést að menn geta sam­ein­ast í hags­muna­gæslu­sam­tök þó starf­semin sé í ein­hverju ólík og greiða til dæmis félags­gjald sem hlut­fall af veltu og njóta atkvæð­is­réttar í sam­ræmi við það. Þar gæti verið fyr­ir­mynd að lausn á vanda bænda­sam­tak­anna. En hugur manna í þeim, stendur til að leita fyr­ir­myndar ann­ars staðar og í Bænda­blað­inu mátti lesa fyrir nokkrum vikum að ætl­unin væri að sækja til danskra bænda­sam­taka fyr­ir­mynd að lausn á þessum vanda.

Hvað út úr þessu kemur er ekki gott að segja, en lesa hefur mátt mik­inn harma­grát í aðsendum greinum í Morg­un­blað­inu og víð­ar, um að nú sé hún Snorra­búð stekk­ur, því svo sé komið að Land­bún­að­ar­ráðu­neytið sé ekki lengur til og sé ein­ungis skúffa í Atvinnu­vega og nýsköp­un­ar­ráðu­neyt­inu. Þar hefur einna hæst grát­ið, fyrr­ver­andi land­bún­að­ar­ráð­herra og for­maður Fram­sókn­ar­flokks­ins. Saknar hann eflaust fyrri tíma, þegar allt var eins og það „átti“ að vera, þegar engin svokölluð „arms­lengd­ar­fjar­lægð“ var að þvæl­ast fyrir mönnum og þeir gátu haft hlut­ina eins og þeir vildu hafa þá, eða þeim ein­fald­lega fannst að þeir ættu að ver­a. 

Land­bún­að­ar­ráðu­neytið gamla var eins og margir muna, lítið annað en útibú frá Bænda­sam­tök­un­um, stað­sett hjá hinu opin­ber­a: 

Hags­muna­gæsla við­ur­kenndra búgreina, sem þar með var bæði komin með belti og axla­bönd og ráð­herr­arnir komu oftar en ekki glað­beittir inn í ráðu­neyt­ið; skokk­andi beint frá búum sínum og dæmi voru um að skot hlypi í fót, eins og þegar einn slíkur skellti á 200% kjarn­fóð­ur­skatti á einni nóttu í þeim til­gangi að koma höggi á „frjálsu“ búgrein­arn­ar, ali­fugla og svína­rækt. 

Ráð­herr­anum ráð­snjalla sást hins vegar yfir að kúa­bændur urðu fyrir höggi líka með aðgerð­inni og í fram­hald­inu hófst mik­ill elt­inga­leikur við óraun­veru­leik­ann í þeim til­gangi að breyta honum í raun­veru­leika sem stóð yfir í nokkur ár.

Búgrein­arnar sem ekk­ert vægi hafa í Bænda­sam­tök­unum núna, þrátt fyrir mikið vægi á íslenskum mat­vöru­mark­aði, hafa ekki séð sér annað fært en að mynda sam­starfs­vett­vang, sem að standa félög eggja svína og kjúklinga­bænda. Þar er um að ræða búgreinar sem reknar eru á allt öðrum grund­velli en þær sem eru innan svo­kall­aðra „bú­vöru­samn­inga“, þeirra sem sam­þykktir voru eftir japl jaml og fuður á Alþingi til 10 ára af 19 þing­mönnum ef rétt er munað og sem nú nýlega er búið að end­ur­skoða. Vel getur verið að stofnuð verði enn önnur sam­tök bænda ef ekki verður brugð­ist fljótt við. Svo mikið er víst, að a.m.k. fyrr­nefnd félög eiga í raun enga sam­leið með núver­andi Bænda­sam­tökum Íslands.

Við munum að fyrir nokkrum árum gerð­ist það, að full­trúi Félags svína­bænda gekk út af Bún­að­ar­þingi, (sam­komu sem er jafn­gildi aðal­fundar B.Í.) og gerði það örugg­lega ekki að ástæðu­lausu. Sam­koman er ekk­ert annað en illa lukk­aður forn­gripur sem til er kosið með ,,sov­ésku“ fyr­ir­komu­lagi. Af því leiðir að þingið end­ur­speglar ekki á nokkurn hátt þann land­búnað sem stund­aður er nú á tímum og ekki nóg með það: 

Það þarf að fara marga ára­tugi aftur í tím­ann, til að finna þá tíma sem sam­koman spegl­ar, ef hún þá hefur nokkurn tíma hefur gert það, en Líf­eyr­is­sjóður bænda býður þó alla vega full­trú­unum í veislu, þannig að þeir sem mæta fá eitt­hvað fyrir sinn snúð!

En aftur að hót­el­haldi og ferða­þjón­ustu.

Við sem fylgj­umst með Bænda­blað­inu og umfjöll­unum þess, höfum tekið eftir því að tals­vert er fjallað um hót­el­rekstur og ferða­þjón­ustu á síðum blaðs­ins að und­an­förnu og er það að von­um. 

Ástæðan er trú­leg­ast að hótel bænda­sam­tak­anna er í miklum vanda eins og áður var sagt og ekki síður hitt, að tals­vert er um að bændur hafi farið út í að þjón­usta ferða­menn. Það varð svo dæmi sé nefnt, eftir því tekið að núver­andi land­bún­að­ar­ráð­herra sá ástæðu til að flýta greiðslum rík­is­styrkja til sauð­fjár­bænda. Ástæðan sem gefin var upp fyrir því ráðslagi, var að þeir hefðu orðið fyrir áfalli vagna sam­dráttar í ferða­mennsku vegna COVID-19.

Hvernig það var fundið út að sauð­fjár­bændur hefðu skað­ast umfram aðra bændur hefur ekki verið skýrt út svo við höfum séð. Það vill svo til að ferða­þjón­usta á vegum bænda er alls ekki bundin við sauð­fjár­bændur eina, og áfall af völdum far­sótt­ar­innar lendir ekki svo vitað sé neitt sér­stak­lega á þeim. 

Verið getur að land­bún­að­ar­ráð­herr­ann hafi hringt í ein­hvern vin sinn í þeirra hópi og sá hafi borið sig aum­lega og nið­ur­staðan hafi því orðið sú sem varð. Ekki má heldur gleyma því að greinin er að stærstum hluta rík­is­rekst­ur, bæði fyrir inn­an­lands­markað og til útflutn­ings. Sauð­fjár­bændur eru sem verk­takar hjá rík­is­sjóði, svo drjúgt er það hlut­fall tekna þeirra sem þaðan kem­ur. 

Og ekki nóg með það, frí­stunda­bú­skapur grein­ar­innar er greiddur úr rík­is­sjóði á sama hátt og sá sem stund­aður er sem atvinnu­sköp­un. Menn fá sem sagt greitt frá almenn­ingi fyrir að fram­leiða kjöt sér til gam­ans í sjálfa sig og sína, með skepnum sem þeir líta á, a.m.k. að hluta til, sem gælu­dýr.

Það er svo aug­ljóst að það þarf að taka til í þessu kerfi, að jafn­vel fyrr­ver­andi og núver­andi for­menn Fram­sókn­ar­flokks­ins og Mið­flokks­ins ættu að geta gert sér grein fyrir því, en þó er það ekki víst. Fjalla- og firn­inda­bú­skap sjá þeir í sér­stöku ljósi og þess eru dæmi að þeir sem „elska“ sauð­kind­ina, að eigin sögn, bæði mikið og heitt, ráði sér vart fyrir kæti þeg­ar  þeir eru fengnir til að stjórna „kótel­ettu­kvöld­um“ í vetr­ar­byrj­un, þar sem gleðin er við völd og brand­arar eru sagðir og allir gleðj­ast og eru kát­ir, hressir og glað­ir.

Þá kemur í ljós til hvers hrútarnir (þ.e.a.s. lömb­in) eru skorn­ir.

Höf­undur er fyrr­ver­andi bónd­i. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Rúllustigarnir eru enn tómir. En listaverkin eru komin á sinn stað.
Loksins – eftir 13 ára seinkun
Þegar tilkynnt var um byggingu nýs flugvallar og flugstöðvar í Berlín árið 1996 átti framkvæmdum að ljúka árið 2007. Nú hillir undir að hann verði tekinn í notkun, þrettán árum á eftir áætlun.
Kjarninn 9. ágúst 2020
Atli Viðar Thorstensen
Hamfarasprengingar í Beirút
Kjarninn 8. ágúst 2020
Nýir íbúðareigendur velja nú frekar að taka lán hjá bönkum en lífeyrissjóðum.
Eðlisbreyting á húsnæðislánamarkaði – Lántakendur flýja lífeyrissjóðina
Í fyrsta sinn síðan að Seðlabanki Íslands hóf að halda utan um útlán lífeyrissjóða greiddu sjóðsfélagar upp meira af lánum en þeir tóku. Á sama tíma hafa útlán viðskiptabanka til húsnæðiskaupa stóraukist. Ástæðan: þeir bjóða nú upp á mun lægri vexti.
Kjarninn 8. ágúst 2020
Alma Möller, landlæknir á upplýsingafundi dagsins.
Alma: Ungt og hraust fólk getur orðið alvarlega veikt
„Það er ekki að ástæðulausu sem við erum í þessum aðgerðum,“ segir Alma D. Möller landlæknir. „Þessi veira er skæð og getur valdið veikindum hjá mjög mörgum ef ekkert er að gert.“ Maður á fertugsaldri liggur á gjörgæslu með COVID-19.
Kjarninn 8. ágúst 2020
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamálaráðherra.
Ferðamálaráðherra: Áhættan er í mínum huga ásættanleg
„Áhættan af því að skima og hleypa fólki inn [í landið] er svo lítil,“ segir ferðamálaráðherra. „Ég bara get ekki fallist á þau rök að hún sé svo mikil að það eigi bara að loka landi og ekki hleypa fólki inn.“
Kjarninn 8. ágúst 2020
Kanaguri Shizo árið 1912 og við enda hlaupsins 1967.
Ólympíuleikunum frestað – og hvað svo?
Þann 24. júlí hefði opnunarathöfn Ólympíuleikanna 2020 átt að fara fram, en heimsfaraldur hefur leitt til þess að leikunum í Tókýó verður frestað um eitt ár hið minnsta. Það er ekki einsdæmi að Ólympíuleikum sé frestað eða aflýst.
Kjarninn 8. ágúst 2020
Þrjú ný innanlandssmit – 112 í einangrun
Þrjú ný innanlandssmit af kórónuveirunni greindust hér á landi í gær og tvö í landamæraskimun. 112 manns eru nú með COVID-19 og í einangrun.
Kjarninn 8. ágúst 2020
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, á upplýsingafundi almannavarna fyrr á árinu.
Hafa fengið 210 milljónir til baka frá fyrirtækjum sem nýttu hlutabótaleiðina
Alls hafa 44 fyrirtæki endurgreitt andvirði bóta sem starfsmenn þeirra fengu greiddar úr opinberum sjóðum fyrr á árinu vegna minnkaðs starfshlutfalls. Forstjóri Vinnumálastofnunar segist „nokkuð viss“ um að öll fyrirtækin hafi greitt af sjálfsdáðum.
Kjarninn 8. ágúst 2020
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar