Á tímum kórónuveirunnar dylst engum getuleysi bandarískra stjórnvalda í viðureigninni við COVID-19. Það er hins vegar ekki eini faraldurinn sem geisar í Bandaríkjunum. Angus Deaton og Anne Case, prófessorar við Princeton háskóla hafa nýverið birt greiningu á afleiðingum niðurbrots stéttafélaga, samningsstöðu launafólks, niðurbroti á litlum og meðalstórum atvinnurekendum og aukinni fákeppni í Bandaríkjunum síðastliðin 40 ár í bók sinni Andlát vegna angistar (e. Deaths of despair).
Prófessorarnir sýna fram á að óréttlæti sem myndast hefur með versnandi launakjörum, meðal þeirra sem lægst hafa launin, skorti á atvinnuöryggi og atvinnutækifærum sé ekki bara mælt í tvítoppa launadreifingum, krónum og aurum, heldur einnig í auknum fjölda ótímabærra andláta sem tengjast sjálfsvígum, ofnotkun eiturlyfja og áfengis, og þá meðal ófaglærðra, hvítra Bandaríkjamanna.
Átakanlegar niðurstöður greiningar þeirra sýna að ótímabær dauðsföll fyrir 45 ára aldur, meðal þeirra sem ekki höfðu lokið háskólamenntun og fæddust árið 1970, voru 2,5 sinnum algengari en meðal þeirrra sem eru fæddir árið 1950. Og þróunin versnar, því fólk sem var fætt árið 1985 var tvisvar sinnum líklegra til að látast fyrir 35 ára aldur en þeir sem voru fæddir árið 1970. Þau meta það svo að aukin áhersla á útvistun starfa, verktakavinnu án réttinda launafólks, lítilli fjárfestingu fyrirtækja í starfsfólki sem leitt hefur til færri og færri tækifæra til að vinna sig upp í ábyrgð og launum hjá stöndugu fyrirtæki, hafi leitt til angistar og þunglyndis meðal nýrrar kynslóðar, sem sér ekki fram á að geta framfleytt sér eða raungera hæfileika sína í þjónustu við atvinnulífið.
Sambærileg gögn á Íslandi yfir ótímabær dauðsföll af völdum áfengis og vímuefnaneyslu, sem og sjálfsvíga eftir aldri, eru ekki aðgengileg með greiðum hætti og kalla á víðtækar rannsóknir. Leitni á ótímabærum dauðsföllum vegna sjúkdóma tengdum ofnotkun áfengis yfir tíma er hins vegar uggvænleg. Ótímabær dauðsföll á hverja 100 þúsund íbúa á Íslandi var 1,8 árið 1996, en er nú komið í 10,5 (miðað við 4 ára veltandi meðaltal), og hefur því fimmfaldast síðan þá, eða ríflega þrefaldast frá því mælingar hófust á árunum 1981-1984.
Lífeyrissjóðir og undirstöðuatriði um ábyrgar fjárfestingar
Það er ástæða til að vera vongóður fyrir hönd íslensks atvinnulífs. Íslenski löggjafinn og íslenskir lífeyrissjóðir hafa áttað sig á hvert stefnir í efnahagskerfum að öllu óbreyttu, hvað varðar sjálbærni út frá félagslegu og umhverfislegu tilliti. Nýleg breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrissparnaðar gerir lífeyrissjóðum m.a. skylt að setja sér siðareglur. Lífeyrissjóðum landsins er uppálagt að taka við iðgjöldum, fjárfesta þeim með sem bestum hætti í atvinnutækifærum og fjármálagerningum sem skila af sér góðri ávöxtun til lengri tíma; en að auki hafa flestir lífeyrissjóðir á Íslandi þegar tekið upp fjárfestingarstefnu sem tekur mið af meginreglum um ábyrgar fjárfestingar (sjá unpri.org).
Meginreglur um ábyrgar fjárfestingar voru útbúnar af alþjóðlegum samtökum lífeyrissjóða og fagfjárfesta að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna, til að tryggja framgang heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra þróun. Til að geta gert sér í hugarlund hvaða þættir það eru sem íslenskir lífeyrissjóðir líta til í ákvarðanatöku við fjárfestingar þarf að hafa í huga öll 17 heimsmarkmið SÞ. Þar er m.a. að finna markmið um 1. Fátækt – að binda enda á fátækt í öllum myndum alls staðar, 8. Hagvöxt - Stuðla að varanlegum sjálfbærum hagvexti án aðgreiningar, fullri, arðbærri og mannsæmandi atvinnu fyrir alla. 10. Ójöfnuð - Draga úr ójöfnuði innan ríkja og milli þeirra. 12. Tryggja sjálfbæra framleiðslu og sjálfbært neyslumynstur.
Íslenskir atvinnurekendur hafna vinnuafli og fjármagni frá Íslandi?
Í ljósi þessa skrifaði aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins athygliverða grein í Fréttablaðinu hinn 14. júlí s.l., með vísan í áhrifamikið bókmenntaverk Stefan Zweig (1881-1942), Veröld sem var, og yfirfærir upplifun Zweig á hnignandi blómatíma yfirstéttar Vínarborgar fyrir seinna stríð yfir á stöðu flugfreyja-og flugþjóna í stéttabaráttu þeirra gagnvart almenningshlutafélaginu Icelandair. Þar segir: „Sú þróun er nauðsynleg og eðlilegt framhald af því að síðustu tuttugu ár hefur fjöldi flugfélaga sprottið upp með allt annað og ódýrara launafyrirkomulag en áður þekktist. [...] Forsvarsmenn Play hafa gefið út að félagið hafi gert kjarasamning um störf flugfreyja og flugþjóna sem fela í sér allt að 27 prósent lægri launakostnað en tíðkaðist hjá Wow air vegna sömu starfa, en Wow air var með um 30 prósent hagstæðari samninga við FFÍ en Icelandair.”
Rekstrarumhverfi margra fyrirtækja er mjög erfitt í dag og verður næstu misseri. COVID-19 krefst þess af stjórnendum um allan heim að koma með frumlegar hugmyndir um það hvernig þeir þræða sig í gegnum þessa erfiðu stöðu. Þeir þurfa að leita allra leiða til að hagræða í rekstri og jafnvel breyta viðskiptalíkani sínu til að eiga möguleika á að komast í gegnum kófið. Slíkt kallar á einhverjar tímabundnar fórnir bæði af hálfu atvinnurekenda og launafólks.
Það stendur þó einnig uppá stjórnendur fyrirtækja og samfélagið allt að standa vörð um áunnin laun og réttindi launafólks almennt og til lengri tíma. Með því að mæra samninga milli flugfélags sem ekki hefur hafið daglegan rekstur um verulega lækkun launa þeirra starfstétta ófaglærðra, sem einmitt er fjallað um í rannsóknum Case og Deaton, niður á ósjálfbært plan miðað við íslenskan veruleika er ekki hægt að skilja það öðru vísi en svo að núverandi forystufólk SA hvetji aðildarfélög sín til að hafna samningum við íslenskt launafólk.
En um leið lokar SA leiðum fyrir aðildarfélög sín til að njóta aðgengis að íslensku fjármagni, að stærstum hluta, enda samræmist niðurþjöppun launa sem leiðir til aukinnar fátæktar og ójöfnuðar ekki markmiðum SÞ um sjálfbæra þróun, sjálfbæran hagvöxt án aðgreiningar, fullri, arðbærri og mannsæmandi atvinnu fyrir alla, né heldur meginreglum um ábyrgar fjárfestingar, sem íslenskir lífeyrissjóðir hafa gengist undir í fjárfestingarstefnum sínum. Það getur varla verið vilji aðildarfélaganna sjálfra?
Höfundur er doktor í hagfræði, efnahagsráðgjafi VR í hlutastarfi, rannsakandi hjá Council on Economic Policy, stjórnarmaður í Lífeyrissjóði Verzlunarmanna og Transparency International á Íslandi. Sjónarmið sem koma fram í greininni eru á ábyrgð höfundar.