Þegar Íslendingum auðnaðist að beisla náttúruna til að framleiða orku, þá voru settar á laggirnar fyrirtæki í eigu sveitarfélaga og ríkisins til að þróa og byggja upp kröftug orkufyrirtæki, sem og vatns-, hita- og rafveitur. Í áratugi var grunnhugsunin að byggja upp orkuver og dreifikerfi með það fyrir augum að tryggja örugga afhendingu orku og örugga afhendingu vatns (bæði kalt og heitt vatn) og öflugri þjónustu fyrir íbúa og atvinnulíf.
Á sínum tíma voru sterk lýðheilsusjónamið fyrir því að tryggja almenningi aðgang að hreinu gæðavatni. Þau sjónamið eiga enn meira við í dag á tímum COVID-19. Með beislun orkunnar var grunnhugsunin sú að gera landið óháð olíu. Það var ekki fyrr en eftir seinni heimstyrjöldina að við náðum að beisla orkuna til að framleiða rafmagn fyrir fyrirtæki og heimili. Þessa uppbyggingu hefur fólkið og atvinnulífið í landinu greitt fyrir með afnotagjöldum. Það er ekki síður áhugavert að þessi þróun er varla meir en 100 ára gömul.
Þegar ríkisvaldið samdi við svissneska álfyrirtækið Alusvisse á sjöunda áratug síðstu aldar, um að byggja álver við Straumsvík, stofnaði ríkið Landsvirkjun. Enn er sú grunnhugmynd ríkjandi að orkufyrirtæki og dreififyrirtæki orku eigi að vera í opinberri eigu, enda eru orkufyrirtæki kerfislega mikilvæg þjóðfélaginu. Ríkið og sveitarfélög á Suðurnesjum stofnuðu árið 1974 Hitaveitu Suðurnesja sem síðar varð HS Orka. Þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ákvað að selja hlut ríkisins í HS Orku til einkaaðila árið 2006 og smátt og smátt losuðu sveitarfélögin sig við sinn eignarhlut og í dag er HS Orka nánast öll í eigu einkaaðila.
Á sínum tíma var Hitaveitu Suðurnesja skipt upp í HS Orku annars vegar og hins vegar HS Veitur sem sér um dreifingu á rafmagni, heitu og köldu vatni. HS Veitur er í meirihluta eigu sveitarfélaga. Reykjanesbær á um helming hlutafjár, Hafnarfjarðarbær á um 16% í HS Veitum og einkafyrirtæki, HSV eignarhaldsfélag, á um 34%. HS Veitur hefur verið vel rekið og skilað góðum hagnaði undanfarin ár og greitt eigendum sínum góðan arð.
Nú bregður við að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Hafnarfirði vill selja hlut bæjarins í HS Veitum og þar með ljúka nær aldagamalli eignaraðild bæjarins að orku-, raf- og vatnsveitu. Forystumenn meirihlutans réttlæta sölu á hlut bæjarins í HS Veitum með því að vísa í óvissu ástand sem skapaðist vegna Covid-19 og fyrirsjáanlegs tekjutaps bæjarins af því. Þetta eru billeg rök fyrir því að stíga svo stórt skref að einkavæða innviði sem ættu að vera í opinberri eigu. Vatnsveita sem er ætlað að tryggja örugga afhendingu á vatni í hæsta gæðaflokki á ekki að einkavæða.
Það er ein mesta blessun okkar Íslendinga að hafa aðgengi að hreinu og góðu vatni. Það má deila um hvort að fulltrúar bæjarins hafa umboð til að selja hlutinn, því ekki voru þau kosin til þess og ekki hafa þau leitað til kjósenda eftir umboði til að selja eign bæjarins í HS Veitum. Það er margt að athuga við þá ákvörðun meirihlutans að selja hlut Hafnarfjarðar í HS Veitum, sem bærinn hefur fengið arðgreiðslur undanfarin ár sem nema um 90 milljónum á ári. Auk þess hefur bærinn í gengum eignarhald sitt tryggt íbúum ákveðna þjónustu að dreifikerfi rafmagns og vatns. Með sölunni lýkur beintengingu bæjarins við ákvarðanir sem tryggja íbúum hans ákveðna þjónustu. Þeim mun óskiljanlegri er sú ákvörun meirihlutans í Hafnafirði að selja hlut bæjarins þegar haft er í huga að beislun rafmagns til orkuöflunar hófst einmitt í Hafnarfirði.
Ef gæta á hagsmuna almennings eins og bæjar- og sveitastjórnum ber að gera á einkafjármagn og einkaaðilar ekkert erindi í grunnþjónustu og grunninnviði, því með þeirri leið, verður þjónustan dýrari og lakari. Það er sammerkt með flestum ef ekki öllum opinberum orkufyrirtækjum að þau hafa þróast í áratugi og byggt upp öfluga þjónustu með miklum orkuverum, leiðslum og dreifikerfi.
Þessi fyrirtæki eiga miklar eignir sem er í eigu almennings. Með sölu á slíkum fyrirtækjum mun aldrei fást rétt verð fyrir þær eignir sem verið er að selja, því þetta eru eignir sem hafa orðið til á mörgum áratugum. Í þessu sambandi má einnig benda á að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík berst illu heilli fyrir því að Gagnaveita Reykjavíkur, sem tryggir íbúum borgarinnar og nágrannasveitarfélaga örugga afhendingu á þráðlausu neti, verði seld til einkaaðilum. Gagnaveitan hefur fjárfest mikið í ljósleiðarakerfi í borginni og nú þegar meginuppbygging kerfisins er lokið vill Sjálfstæðisflokkurinn einkavæða þjónustuna!
Gegn þeim áformum þarf að berjast.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.