- Nú hefur loks verið innleitt styrkjakerfi fyrir námsmenn. Þannig munu þeir námsmenn sem ljúka námi á réttum tíma samkvæmt lögum nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna eiga rétt á 30% niðurfellingu af höfuðstól námsláns ásamt verðbótum.
- Menntasjóðurinn mun veita styrk til framfærslu barns sem nemur einföldum barnalífeyri á mánuði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
- Við námslok munu námsmenn almennt hafa val um hvort þeir endurgreiði námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi en lánþegar hafa heimild til að endurgreiða námslán með tekjutengingu séu námslok áður eða á því ári sem þeir ná 35 ára aldri.
- Stjórn Menntasjóðsins hefur heimild til að gjaldfella lán hafi það ekki verið að fullu greitt á því ári þegar lánþegi nær 66 ára aldri.
- Ráðherra hefur nú heimild til að ákveða sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina sem og hjá lánþegum búsettum og starfandi á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
- Með lögunum eru ábyrgðir ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga feldar niður enda hafi lánþegi verið í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Sama gildir um ábyrgðir á námslánum sem eru í óskiptum dánarbúum og ábyrgðaryfirlýsingar fjármálafyrirtækja. Þannig hefur skilyrðið um að lánþegi sé ekki á vanskilaskrá fallið brott úr frumvarpinu við þinglega meðferð málsins. Í lögunum má einnig finna þau nýmæli að ábyrgð ábyrgðarmanns á námslánum teknum í tíð eldri laga falla niður við andlát hans enda sé lánþegi í skilum við Lánasjóð íslenskra námsmanna.
- Menntasjóðurinn mun ekki veita þeim námsaðstoð sem eru í vanskilum við sjóðinn.
- Vextir af námslánum hafa árum saman verið 1% verðtryggðir. Nú munu þeir byggjast á vaxtakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði að viðbættu föstu vaxtaálagi sem tekur mið af væntum afföllum af endurgreiðslu námslána. Við þinglega meðferð málsins bættist við ákvæði þar sem kveðið er á um vaxtahámark þannig vextir verða aldrei hærri en 4% verðtryggðir eða 9% óverðtryggðir. Er óhætt að segja að lánþegar muni búa við töluvert meiri óvissu er viðkemur vöxtum á námslánum.
- Endurgreiðslur hefjast nú fyrr eða einu ári eftir lok náms.
- Nú er Menntasjóðnum skylt að veita staðaruppbót sem miðast við kostnað vegna nauðsynja og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað. Stjórn Menntasjóðsins ákvað að kveða á um staðaruppbót í sjö löndum/landshlutum vegna námsársins 2020-2021; Bandaríkjunum (A og B), London, Írska lýðveldinu, Róm, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Sviss.
- Frítekjumark námsmanns sem kemur af atvinnumarkaði verður samkvæmt úthlutunarreglum fimmfalt námsárið 2020-2021 enda liggi fyrir að hann hafi ekki verið í námi sl. 6. mánuði.
- Nám sem er skipulagt samfellt lengra en 5 ár er nú heimilt samkvæmt úthlutunarreglum að bæta við skólagjaldahámark til ráðstöfunar á fimmta og/eða sjötta námsári, allt að 1.817.400.- ISK en áður hafði það verið 1.500.000.- ISK.
- Nú eiga námsmenn erlendis rétt á ferðalánum á hverju námsári samkvæmt úthlutunarreglum en ekki einungis einu sinni á hverju námsstigi.
Auglýsing
Höfundur er stjórnarformaður Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE).