Ég flaug frá Svíþjóð til Taipei að heimsækja kærustuna mína í byrjun mars. Það er fyndið að hugsa til þess núna, en á þeim tíma töldu bæði vinir og kollegar að ég hlyti að vera hálf klikkaður að fljúga til Austur Asíu, upprunastað veirunnar, frekar en að vera áfram öruggur heima í Evrópu. Áætlunin var að dvelja hjá henni í þrjár vikur. Það tók Evrópu minni tíma en það að fara á hliðina. Flugsamgöngur fóru úr skorðum, og Taívanir lokuðu landinu. Ég ákveð að sitja um kyrrt. Og sit hér ennþá, tæpu hálfu ári síðar.
Eftir að faraldurinn blossaði upp aftur á Íslandi síðustu daga, hafa verið uppi úmsar fullyrðingar um mögulegar orsakir, og hvað er og er ekki hægt að gera í svona ástandi. Ég ætla sannarlega ekki að þykjast vita mikið um veirur og sóttvarnir. En vegna umræðunnar síðustu daga þykir mér ástæða til að rekja nokkra atriði um ástandið í Taívan og veru mína hér síðustu mánuði.
Taívan er eyja eins og Ísland, nema hún er talsvert minni – rétt rúmlega þriðjungur af stærð Íslands. Hér búa samt tæplega 24 milljónir manns. Höfuðborgarsvæði Taipei og nágrennis, þar sem ég bý, telur tæplega 7 milljónir manns og er ákaflega þéttbýlt. Taívan er líka 130 km frá meginlandi Kína. Þar á milli eru mikil efnahagsleg og félagsleg tengsl, með tilheyrandi ferðum fólks fram og til baka yfir sundið á hverjum degi. Það er ekki að ástæðulausu að félagar mínir óttuðust að hér færi allt til fjandans út af þessari veiru.
Staðan er samt þessi. Í Taívan hafa 481 einstaklingur greinst með Covid-19 þegar þetta er skrifað. Miðað við íbúafjölda eru það næstum því 300 sinnum færri en á Íslandi.
Hér hefur samt allt gengið nokkurn veginn sinn vanagang. Ég fer á hverjum degi með neðanjarðarlestakerfinu þvers og kruss um borgina. Líkt og 2 milljónir manns í Taipei. Þar er oft þétt setið og engin leið að viðhafa eins eða tveggja metra reglur. Samt hafa almenningssamgöngur í Taipei verið opnar hvern einasta dag síðan þetta byrjaði.
Meðan samfélög um allan heim mega þola harðar takmarkanir hefur daglegt líf í Taívan að miklu leyti haldið sínu striki. Hvernig má þetta vera? Miðað við umræðuna á Íslandi þessa dagana mætti ætla að þetta væri einfaldlega ekki hægt. Hvernig getur þéttbýl stórborg eins og Taipei viðhaldið eðlilegu lífi fólks, án teljandi takmarkana, án þess að faraldurinn blossi upp að nýju?
Nú eru eflaust margar ástæður fyrir því, t.d. skylda á notkun gríma í almenningssamgöngum, víðtækar hitamælingar á fólki, og öflugar stofnanir sem sjá um smitrakningar og eftirfylgni. En stærsti munurinn sem sjá má á Taívan og Íslandi í dag eru takmarkanir á landamærum. Hingað geta ekki komið neinir ferðamenn í dag. Allir þeir sem koma til Taívan, hvort sem eru Taívanar eða útlendingar, eru settir í tveggja vikna sóttkví. Þeirri sóttkví er vandlega fylgt eftir og liggja þungar sektir við brotum á þeim. Þetta er auðvitað íþyngjandi meðan á því stendur. En í staðin geta Taívanir notið þess að lifa eðlilegu lífi, ólíkt flestum jarðarbúum þessi misserin.
Nú heyrist í sumum á Íslandi að nýja bylgjan sé öll ungu fólki að kenna. Að þetta hafi lítið að gera með opnun landamæranna. Okkur er sagt að faraldurinn sé kominn aftur vegna þess að fólk hafi „leyft sér“ of mikið – farið á djammið og lifað lífinu aðeins. Okkur er sagt að við verðum að læra að „lifa með veirunni“ og búa við miklar takmarkanir þar til þetta er allt búið.
Reynslan í Taívan bendir til þess að þetta sé ekki endilega raunin. Auðvitað er brýnt fyrir fólki hér í Taívan að huga að persónulegum sóttvörnum eins og annars staðar. Og flestir gera það með ágætum.
En ef horft er á þéttbýlið hér í Taipei, lifnaðarhættina, og alla nándina sem óhjákvæmilega fylgir, þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort Íslendingar séu að einbeita sér að réttum atriðum. Ef þéttbýl eyja eins og Taívan getur haldið sínu striki, þá ætti Ísland að geta það líka.
Það verður nefnilega ekki betur séð en að Ísland hafi, í upphafi sumars, verið komið á þann stað sem Taívan er enn í dag: búið að kveða faraldurinn í kútinn, með sterkar varnir á landamærunum, og þar af leiðindi fullfært um að opna fyrir eðlilegt líf fólks á ný. Með tilheyrandi ábata fyrir gang efnahagslífsins of almenna vellíðan fólks. Enda gekk það með mjög vel framan af. Því miður tókst ekki að viðhalda því. Reynsla Taívana bendir hins vegar til þess að með réttri forgangsröðun stjórnvalda sé hægt að ná miklum árangri og viðhalda hefðbundnum lifnaðarháttum – jafnvel í þéttbýlustu stórborgum.
Íslendingar og aðrar þjóðir ættu að geta lært margt af reynslu og þekkingu Taívana í þessum málum.
Höfundur er doktorsnemi í alþjóðastjórnmálum við Háskólann í Lundi Svíþjóð.