Það verður bara að teljast mjööög ólíklegt að hún Þórdís, ferðamála- & alt mulighed - ráðherrann okkar hefði vaðið í þessi ósköp, sem þessi langþráði æskuvinkonuhittingur hefur nú snúist upp í í, nema að hafa hugsað það til enda. Við erum loksins að sjà nýja tíma í pólitík; fólk sem er treystandi, fólk sem axlar ábyrgð á sínum gjörðum osfrv. Þórdís hefði aldrei, ekki sem sitjandi ráðherra í þessari ríkisstjórn, farið að brjóta reglurnar sem sama ríkisstjórn setti fram í samstarfi við þríeykið góða.
Þarna eru átta vinkonur saman komnar. Ein er ráðherra og sem slíkur er meiri pressa á henni að sýna gott fordæmi. Hún veit hversu mikilvægt það er að þeir sem sitja við völdin í þessu landi sýni það, ekki bara í orðum heldur það sem mikilvægara er, í gjörðum. Að við sitjum öll við sama borðið - í baráttunni við veiruna það er að segja.
Gefum okkur að vinkonurnar átta eigi að meðaltali tvö börn á haus. 3x8 (dömurnar taldar með) gefa okkur 24 einstaklinga. Legg áherslu á að hér er um lauslega og létt gefinn útreikning að ræða, óþarfi að festa sig í staðreynda-smáatriðum (fleiri/færri börn, maki/enginn maki). Áfram gakk.
Eins og sóttvarnalæknir benti okkur líka réttilega á í gær, þá er tveggja metra reglan meira fyrir rekstraraðila að passa upp á. Það má alveg hitta þá sem mann langar að hitta, sérstaklega ef þú þekkir viðkomandi og veist alveg að hann er ekkert smitaður. Og þú veist að fjölskylda viðkomandi er ekki heldur smituð því þú auðvitað spyrð og viðkomandi fullvissar þig um að enginn í hans nærumhverfi sé búinn að sýna einkenni.
Nú, og þegar við höfum hugsað þetta yfir með smá skynsemi, vitandi allt þetta, eins og Þórdís vissi pottþétt, nýbúin að segja í viðtali að okkar eigin hegðun skipti mestu máli í veirubaráttunni, er þá ekki augljóst að þetta var, í versta falli, „óheppilegt“ eins og Bjarni komst svo gætilega að orði?
Það gæti reyndar verið gagnlegt að ræða eitt annað sem, í besta falli, gæti talist „óheppilegra“ í þessu öllu saman og það er plaggið. Þið vitið - regluplaggið - þetta sem gleymdist að prófarkalesa áður en það var sent í prent og almenna netbirtingu:
En núna kannski vitum við betur. Skiljum að það þýðir ekkert fyrir okkur að ætla bara að lesa textann eins og hann er matreiddur ofan í okkur. Við verðum að geta verið svolítið sveigjanleg með túlkunina líka.
Höfundur er með BA-gráðu í sálfræði og starfar hjá heimaþjónustu Reykjavíkurborgar.