Kjaradeilan milli Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) fór væntanlega ekki framhjá neinum. Þetta voru nokkuð merkilegir atburðir sem gætu gjörbreytt verkalýðsbaráttunni á Íslandi. Maður heyrði sterkar skoðanir frá báðum áttum: að FFÍ þyrfti að verja sín réttindi; að FFÍ beri að fórna sínum kjörum til að bjarga Icelandair. Fólk hneykslaðist yfir því að VR skuli láta þetta sig varða, segjandi að vegna þess að þetta eru ekki félagar VR þá komi þetta því ekkert við.
Við skulum rifja aðeins upp hvað gerðist. FFÍ hafnaði kröfum Icelandair, kröfum um að flugfreyjur þurfi að vinna meira til að fá sömu laun og hingað til. Icelandair svarar með því að slíta viðræðum við FFÍ, segja upp öllum flugfreyjum og segjast ætla að semja við eitthvert annað stéttarfélag.
Við það neyðist FFÍ til að samþykkja kröfur Icelandair til að bjarga stéttarfélaginu.
FFÍ var í raun hótað uppsögnum þeirra félaga ef það myndi ekki skrifa undir. Tilvist félagsins var beinlínis ógnað þar sem Icelandair hótaði að semja við annað stéttarfélag. Raunin er sú að það er ekkert annað stéttarfélag til að semja við. Icelandair hefði því, beint eða óbeint, búið til nýtt gult stéttarfélag sem yrði stofnað á forsendum Icelandair. Stéttarfélag sem tekur það sem því er boðið án nokkurra mótmæla.
Þessi hegðun Icelandair er ólögleg og ætti að kæra félagið fyrir hana, en hún dugði til að knésetja FFÍ og fá flugfreyjur til að samþykkja kröfurnar sem hafði verið hafnað áður.
Við höfum hingað til upplifað mikið frelsi til að skipuleggja okkur og semja sem ein heild og maður trúði því að svo lengi sem samstaða okkar væri nógu sterk, gætum við unnið stórsigur í kjaraviðræðum.
En svo gerast þessir atburðir og það strekktist á taumunum. Allt í einu sér maður að þetta mikla frelsi sem maður hafði var í rauninni ekki meira en þetta. Rétt eins og hundur í bandi getur haldið að hann sé frjáls svo lengi sem hann reynir ekki að fara í burtu: Um leið og FFÍ reynir á samningsréttinn sinn og berst fyrir hagsmunum sinna félaga - gegn hagsmunum Icelandair - er togað í tauminn og hundurinn settur á sinn stað.
FFÍ skrifaði undir þá skilmála sem Icelandair setti þeim til að bjarga félaginu. En til hvers er stéttarfélag ef það ÞARF að samþykkja kröfur atvinnurekenda?
Maður sér að þetta er bara leikur. Ár eftir ár eftir ár erum við í þessum eltingaleik við atvinnurekendur. Í hverjum kjaraviðræðum komum við að samningsborðinu og biðjum um aðeins meira. Eftir langar viðræður er okkur sagt að það sé bara ekki hægt og við förum aftur heim með einhverja aukalega brauðmola sem þeir voru svo góðir að gefa okkur. Síðan gerist það að atvinnurekandi vill skerða kjörin okkar. Við verðum djörf og ætlum að verja það sem við höfum unnið okkur inn. Við stígum fast í lappirnar og segjum „NEI“. Við höldum að allt gangi vel, þar til atvinnurekandinn stendur upp og hættir að spila leikinn. Ef leikurinn er honum ekki í hag þá hættir hann bara að spila. Við gefumst þá upp því leikurinn er allt sem við þekkjum.
Verkalýðsfélög voru stofnuð sem mótafl gegn atvinnurekendum og hefur þjónað því hlutverki með því að sameina vinnandi fólk undir einn hatt til að semja fyrir heildina. Lengi hefur tilvist stéttarfélaga snúist um þetta og þau verja tilvist sína til að geta haldið áfram að semja við atvinnurekendur.
Verkalýðshreyfingin þarf hinsvegar að sjá að við getum ekki haldið áfram þessum eltingaleik um kjör sem rýrna jafn óðum og við semjum um þau. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að baráttan er hlaup í hamstrahjóli á meðan hún snýst bara um kaup og kjör og ekki um völd. Ef við stundum hreina kjarabaráttu, þá eru öll þau kjör sem við vinnum okkur inn fengin með miskunn atvinnurekenda.
Verkalýðshreyfingin þarf að sjá að það er til heimur fyrir utan þennan eilífa eltingaleik og við getum líka hætt leiknum hvenær sem er.
Stéttarfélög eiga ekki að skilgreina sig sem aðili sem semur við atvinnurekendur fyrir hönd starfsmanna, heldur sem alhliða hagsmunasamtök vinnandi fólks. Við eigum að láta okkur varða allt sem snertir hagsmuni okkar félaga.
Stéttarfélög þurfa að berjast með hörku fyrir atvinnulýðræði, því sjaldan hefur verið jafn augljóst hvað hagsmunir vinnandi fólks eru beint bundnir af ákvörðunum atvinnurekendanna.
Stéttarfélög þurfa að greiða leiðina fyrir vinnandi fólk til að stofna starfsmanna-samvinnufélög: félög sem eru algjörlega í eigu starfsmannanna sem þar vinna og lýðræðislega rekin.
Á meðan við höldum áfram eltingaleiknum er endanlega valdið hjá atvinnurekendum. Það er kominn tími til að verkalýðsfélögin hætti að spila leikinn.
Höfundur er stjórnarmaður í VR.