Eitt aðal áhugamál, Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um þessar mundir virðist vera að koma grásleppu inn í kvótakerfið. Grásleppan er ein af þessum örfáu tegundum sem er eftir utan kerfisins. Á hana má því horfa eins og litla örsögu eða jafnvel dæmisögu um virkni kerfisins. Hugsanlega má jafnvel dæma allt kerfið af henni.
Við höfum frá upphafi kvótakerfisins aftur og aftur séð áhrif kvótasetningar á þá fiskistofna sem inn í það hafa verið færðir.
Græðgisstigið
Fyrsta skref kvótasetningar tegunda er græðgisstigið ef svo mætti kalla. Yfirleitt hefur það verið svo að kvótasetning tegunda á sér stað þegar að um ákveðin skort hefur verið að ræða, það er að afkoma er ekki nægjanlega eða veiðigeta of mikil. Við kvótasetningu viðkomandi tegundar sér sá sem stundað hefur veiðarnar allt í einu möguleika á útleið.
Útleið sem orsakast af því að við kvótasetninguna fá veiðiheimildirnar (kvótinn) verðgildi sem þær höfðu ekki áður. Útgerðin sér þannig útleið í stað áframhaldandi brauðstrits. Það að selja er í flestum tilfellum stærstu mistök viðkomandi aðila.
Samþjöppunarstigið
Annað skref kvótasetningar tegunda má kalla samþjöppunarstigið. Á því stigi eins og liggur í orðanna hljóðan færast heimildir tegundarinnar á færri hendur. Verðgildið hækkar líka hratt eftir því sem samþjöppunin verður meiri. Á þessu stigi á sér vissulega stað einhvers konar hagræðing.
Ómarkvissar veiðar
Á þriðja stigi kvótasetningarinnar kemur stærsti ágalli kerfisins fram en það er ómarkvissar veiðar, með lítilli dreifingu. Útgerðir sem hafa keypt upp samþjappaðan kvóta munu þurfa að gera allt til að hagræði veiðanna sé sem mest. Það mun ekki skipta þær nokkru máli hvert þjóðar hagræðið er af veiðunum.
Í tilfelli grásleppunnar mun þetta þýða að hún verður ofveidd á tiltölulega fáum stöðum í stað dreifðra veiða um landið. Hún verður að sama skapi vanveidd á öðrum stöðum sökum óhagræðis fyrir útgerðirnar. Þjóðarhagræði tapast á kostnað hagnaðar útgerðanna en fyrst og fremst á kostnað þess að með kvótasetningu hefur tekist að stækka efnahagsreikning útgerðanna og þar með landsins. Slíka bóluhagfræði ættum við að þekkja vel frá liðnum, árum sem og afleiðingar hennar.
Hnignunar eða kyrrstöðu stig
Fjórða stiginu má helst lýsa sem hnignunar eða kyrrstöðu stigi. Sökum þriðja stigsins þ.e. ómarkvissar veiðar sem og vegna sífellt aukinnar kröfu um arðsemi í bóluhagkerfinu, ganga veiðarnar sífellt nærri stofninum. Við þekkjum dæmin best af umræðu um brottkast framhjálandanir og annað svínarí. Frummarkmið með kvótasetningu er að verja afkomu greinar sem og að styrkja fiskistofnana.
Á 30 ára tímabili 1950 – 1979 var þorskafli á Íslandsmiðum að meðaltali 409 þúsund tonn. Hæst fór hann árið 1954 en þá veiddust 546 þúsund tonn og minnstur 1950, 321 þús. tonn. Síðustu 30 árin 1990-2019 er þorskafli ekki svipur hjá sjón miðað við fyrrgreint tímabil. Meðaltalið 222 þúsund tonn. Mestur varð aflinn á fyrsta ári tímabilsins 335 þúsund tonn, en lægst fór hann hrunárið 2008, en þá voru aðeins veidd 148 þús. tonn.
Markmið kvótasetningar fisktegunda er eins og áður sagði að stækka stofn tiltekinna tegunda. Þrátt fyrir það hefur þorskafli Íslendinga ekki aukist frá því að kvótakerfið var tekið upp heldur þvert á móti dregist saman um nærri 200 þúsund tonn.
Er ekki komin tími til að læra af því sem áður hefur verið gert og leyfa blessaðri grásleppunni að synda frjálsri áfram.
Höfundur er formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.