Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í þjóðarbúskapnum er sérstaklega mikilvægt að styrkja umgerð atvinnulífsins og stuðla að öflugri hagþróun á næstu árum. Breytingar á peningastefnunni með upptöku myntráðs við evru og síðan inngönga í myntbandalag ESB er eitt mikilvægtasta skrefið til framfara.
Peningastefnan
Traustur gjaldmiðill er forsenda fyrir hagþróun. Traustur gjaldmiðill heldur verðgildi sínu nokkurn veginn yfir langt tímabil og notendur hans þurfa ekki að óttast ófyrirsjáanlega rýrnun eða sveiflur upp og niður. Einungis með traustum gjaldmiðli geta fyrirtæki og einstaklingar gert skynsamlegar áætlanir um tekjur og útgjöld. Íslenska krónan hefur verið mjög óstöðug og gengissveiflur stuðlað að verðsveiflum og verðbólgu sem aftur kallar á hærri vexti sem skerðir samkeppnisstöðu fyrirtækja.
Hæpnar eru staðhæfingar um að krónan hafi dugað vel þegar á móti hefur blásið í þjóðarbúskapnum. Gengisfall kallar á ófyrirsjáanlegar og ógegnsæjar tilfærslur á tekjum og eignum án þess að auka framleiðslu helstu útflutningsgreina svo nokkru nemur. Það fjölgar ekki þorskum í sjónum þótt gengið falli. Þörf á gengisaðlögun hefur oft stafað af óráðsíu og þenslu innanlands vegna útlánaþenslu í bankakerfinu, óraunhæfra kjarasamninga eða lausataka á ríkisfjármálum. Í bankahruninu 2008 féll gengið um tugi prósenta. Við það jókst útflutningur lítið en rekstrarafgangur helstu útflutningsgreina hækkaði umtalsvert. Hagur innflutningsgreina sem og lántakenda versnaði. Jafnframt töpuðust gjaldeyristekjur frá t.d. stóriðju sem sparaði milljarða í launagreiðslur þar sem tekjur eru í gjaldeyri en laun greidd í krónum. Þótt oft sé einblínt á mikilvægi útflutningstekna eru vel rekin fyrirtæki á innanlandsmarkaði jafn þýðingarmikil og útflutningsfyrirtæki.
Til að taka upp evru þarf að taka að fullu skrefið inn í Evrópusambandið (ESB). Íslendingar eru þegar búnir að taka upp meira en helming af regluverki sambandsins. Helstu breytingar við fulla aðild eru: 1) Hægt er að taka upp traustan gjaldmiðil með öflugan bakhjarl sem er seðlabanki evrusvæðisins (ECB). 2) Ísland fær sæti við háborð ákvarðanatöku og getur unnið að hagsmunamálum sínum innan ESB í samstarfi við líkt þenkjandi nágrannaríki svo sem Norðurlöndin. 3) Landbúnaðar- og byggðastefna ESB verður innleidd. Þá verður hægt að hefja stórsókn í byggðamálum, svo sem löngu tímabærar umbætur í vegamálum, með fjármagni frá ESB jafnframt því sem opnað er fyrir innflutning landbúnaðarafurða og dregið verður úr óhagkvæmri matvælaframleiðslu sem hefur skert lífskjör hér á landi í langan tíma.
Upptaka evru kallar á minnst tveggja ára veru í ERM II kerfinu þar sem gengið getur sveiflast um +-15% áður en ECB grípur til varna. Hægt er að ná strax kostum evrunnar að verulegu leyti með því að taka upp myntráð við evru eða einskonar danska gengisstefnu. Hvernig staðið verður að innleiðingu myntráðs innan ERM II er samningsatriði þar sem hugsanlegt er að fá í upphafi bakstuðning ECB. Einhliða upptaka evru er mun dýrari leið en myntráð og er ekki viðurkennd leið inn í evruland. Með upptöku evru eða myntráðs við evru lækkar viðskiptakostnaður í allri atvinnustarfsemi og skipulag atvinnurekstar og fjármála verður auðveldara. Verðbólga og vextir verða smám saman líkt og á evrusvæði auk þess sem umtalsverður sparnaður næst í mannahaldi hjá fjármálastofnunum og eftirlitsaðilum. Erfiðara verður að villa um fyrir neytendum líkt og þegar verðlag breytist ört. Hlutfallslegar verðbreytingar vöru og þjónustu fylgja framboði og eftirspurn en ráðast ekki af ógegnsæjum sveiflum á gjaldeyrismarkaði.
Í litlu hagkerfi með svipaða peningastefnu og á Íslandi virðist óhjákvæmilegt að grípa við og við til hafta á fjármagnsflutningum og gjaldeyrisviðskiptum til að draga úr sveiflum. Seðlabanki sem er virkur á gjaldeyrismarkaði tapar alltaf í viðleitni sinni til að verja gengið telji markaðurinn gengið rangt skráð.
Meðal röksemda gegn myntráði (án fullrar ESB aðilar) er að ekki er gert ráð fyrir lánveitanda til þrautavara. Reyndar getur myntráð sem hefur gjaldeyrisforða umfram nauðsynlega mynttryggingu möguleika á að veita takmarkaða lausafjár fyrirgreiðslu. Það verður þó að vera fyrst og fremst á ábyrgð hins opinbera ekki peningastefnunnar að bjarga lánastofnunum eða öðrum atvinnufyrirtækjum í fjárhagsvanda.
Umsóknin um ESB
Um leið og Ísland lagði inn umsókn um ESB aðild hófst mikill áróður gegn fullri aðild einkum í málgagni stórútgerðarinnar. Meðal þess sem haldið var fram er að ekkert sé um að semja við ESB; kyngja verði öllu regluverkinu óbreyttu. Að sjálfsögðu er margt um að semja auk peningamálanna. Þar ber hæst fiskveiðistefnan þar sem Ísland verður að vera sjálfstætt fiskveiðasvæði með stjórnina í sínum höndum. Til að ná þessu markmiði þarf að setja ótvírætt ákvæði í stjórnarskrá um að aflaheimildir kringum Ísland séu eign þjóðarinnar. Þetta er ástæðan fyrir andstöðu stórútgerðarinnar við ESB aðild og nýja stjórnarskrá. Einkaeign kvótahafa á aflaheimildum er nú í seilingarfjarlægð. Eftir því sem tímar líða fær krafan um afnám einfaldrar lagagreinar um þjóðareign fiskveiðiauðlindarinnar aukið vægi. Kvótahafar geta unnið málaferli um réttinn til að færa eignina til sín.
Það er sérstakt að andstæðingar ESB aðildar lögðu mikla áherslu á að stöðva aðildarviðræður í miðjum klíðum og hindra þannig að hægt væri að leggja samning fyrir þjóðina. Hagsmunagæsla stórútgerðarinnar réði hér miklu vegna þess að auðlindaákvæði þarf að vera komið í stjórnarskrá áður en samið er um fiskveiðimál. Að öðru leyti eru rök andstæðinga fullrar ESB aðildar bæði ruglingsleg og mótsagnakennd sérstaklega með tilliti til þess að nánast einhugur ríkir um ágæti EES aðildarinnar.
Myntráð og gullfótur
Gengistrygging með myntráði í litlu hagkerfi verkar eins og landið væri á gullfæti. Á tímum gullfótarins fyrir 1914 voru heimsviðskipti frjáls, en vextir yfirleitt lágir og verðbólga lág eða neikvæð, þannig að kaupmáttur jókst sjálfkrafa jafnt og þétt. Á þessum tíma voru öll helstu iðnríkin eitt efnahagssvæði og fjármagn, vinnuafl, vörur og þjónusta flæddi viðstöðulítið á milli landa.*
Hafa ber í huga að peningaprentun seðlabanka, sem nú er orðið vopn í baráttunni við atvinnuleysi svo sem í BNA vegna Covid, skapar engin verðmæti aðeins tilflutning á verðmætum (sbr. hækkun hlutabréfavísitalna) og skammtíma eftirspurnaraukningu sem hæglega leiðir til verðbólgu ef framleiðsla vex ekki til samræmis við eftirspurnaraukninguna. Peningar eru ávísun á þjóðarframleiðslu og mælikvarði á verðmæti. Í litlu hagkerfi skapar aukning á innistæðulausum ávísunum verðbólgu, óstöðugleika og grefur undan trausti á gjaldmiðlinum. Að færa Ísland á eins konar gullfót með myntráði tryggir stöðugleika og fyrirsjáanleika sem núverandi peningastefna getur ekki boðið upp á.
Hagvöxtur hefur verið hraður undanfarin ár, allt til byrjunar ársins 2020. Hér vegur framlag ferðaþjónustunnar þungt. Samt sem áður hefur mótsögnin á milli framfaraafla og afturhaldsafla orðið æ meiri dragbítur á hagþróun. Góðærið hefur ekki verið nýtt til að auka hagkvæmni í rekstri hins opinbera eða hverfa frá fjáraustri í óhagkvæma frumvinnslu. Framfarir þurfa að byggjast á nýtingu mannauðs, traustum gjaldmiðli og frjálsum viðskiptum innan Evrópusamstarfsins.
*Sjá um þýðingu gullfótar t.d. Röpke, Wilhelm, 1959, International Order & Economic Integration, kafli 3.1, útg. D. Ridel Publishing Company /Dordrect-Hollland. Röpke var einn af arkítektum þýska efnahagsundursins. Margt er hægt að læra af því hvernig stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins í Þýskalandi höfðu nána samvinnu um uppbyggingu velferðarkerfis undir formerkjum frjáls markaðar.