Að undanförnu hafa birtst fréttir af alvarlegum brotalömum við birtingu alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að. Um nokkuð alvarlegt mál er að ræða þar sem ein af forsendum réttarríkisins er að reglur séu birtar opinberlega, til að einstaklingar sem og lögaðilar geti áttað sig á réttindum sínum og skyldum. Óljóst er hvort íslensk fyrirtæki eða einstaklingar hafi misst af tækifærum vegna þessa.
Fleiri brotalamir
Þetta eru ekki einu brotalamirnar sem snerta birtingu alþjóðasamninga hérlendis. Síðan fyrir aldamót hefur í kafla 2.c. í íslenska lagasafninu verið birtir nokkrir ólögfestir alþjóðasamningar sem tengjast mannréttindum. Í kafla 2.c. fá umræddir samningar laganúmer sem er í flestum tilvikum númer samninganna í stjórnartíðindum C en ekki númer á löggjöf.
Furðulegheit
Óljóst er af hverju nákvæmlega þessir samningar eru birtir í lagasafninu en ekki aðrir. Sem dæmi þá er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ekki birtur þar þrátt fyrir að Ísland hafi fullgilt hann og hann snerti marga. Hvernig ber að skilja það? Það vekur sérstaka athygli að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er birtur í kaflanum undir númerinu 18/1992. Eins og margir vita hefur samningurinn verið lögfestur í íslenskum rétti og birtist á öðrum stað í lagasafninu sem fylgiskjal við lög nr. 19/2013. Barnasáttmálinn er því birtur á tveimur stöðum í lagasafninu undir tveimur mismunandi númerum. Annars vegar sem alþjóðasamningur, hins vegar sem íslensk löggjöf.
Ósjáanlegir fyrirvarar
Ísland hefur gert fyrirvara við ákvæði nokkurra þessara samninga sem eru enn í gildi. Upplýsingarnar um fyrirvarana koma hvergi fram í lagasafninu. Með því að gera fyrirvara við tiltekið ákvæði, eða hluta ákvæðis, er sá hluti ekki þáttur af samningsskuldbindingu Íslands. Ísland gerði t.a.m. fyrirvara við ákvæði samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um bann gegn stríðsáróðri, það er því ekki bannað með lögum hérlendis að hvetja til árásarstríðs. Lesandi lagasafnsins hefur engar upplýsingar um það.
Ruglingur
Þetta skiptir máli því að mikill munur er á stöðu lögfestra og ólögfestra alþjóðsamninga í íslenskum rétti, einstaklingar geta t.a.m. almennt ekki byggt rétt á alþjóðasamningi fyrir íslenskum dómstólum fyrr en þeir hafa verið lögfestir, þrátt fyrir að Ísland sé aðili að þeim. Ofangreindur birtingarháttur hefur leitt til þess að fjölmargir aðilar – m.a. dómstólar, Alþingi sjálft, stjórnsýslan, lögmenn og Lögmannafélag Íslands – hafa vísað til umræddra samninga sem laga. Það sama sést í fræðiskrifum auk þess sem nemendur í lögfræði vísa oft til samninganna sem laga.
Þetta er óboðleg upplýsingaóreiða í boði Alþingis sem snertir grundvallaratriði fyrir lýðræðisþjóðfélag og réttindi borgaranna. Það er von undirritaðs að þessu verði kippt í lag sem fyrst.
Höfundur er prófessor við lagadeild HR.