Það telst til nýmæla að maður leggi inn pöntun til norsku Nóbelsnefndarinnar um Friðarverðlaun Nóbels sjálfum sér til handa. Venjan er sú að einstaklingar eða félagasamtök tilnefni þá sem þau telja verðuga verðlaunahafa til nefndarinnar. En Donald Trump Bandarikjaforseti er ekki maður hefða. Trump álítur að vegna nýlegra sigra hans á alþjóðavettvangi verðskuldi hann verðlaunin fyllilega. Ummæli þessa efnis lét hann falla eftir að Alexandar Vucic forseti Serbíu og Avdullah Hoti forsætisráðherra Kosovo undirrituðu fyrir milliöngu hans og í viðurvist hans svokallað samkomulag um efnahagslega samvinnu Serbíu og Kosovo, samkomulag sem Trump kallar sögulegt og segir að marki þáttaskil í samskiptum landanna í friðarátt. Ekkert er fjær sanni. Reyndar er það líka nýmæli að tveir deilendur sitji fundi með milligöngumönnum og undirriti hvor sitt samkomulagið án þess að vita hvað hinn aðilinn semur um. En svo virðist hafa verið í þessu tilviki.
Aðdragandi samkomulagsins í Washington var skammur. Tilraunir Evrópusambandsins til að miðla málum milli Serbíu og Kosvo fóru út um þúfur og störukeppnin sem staðið hefur síðan Kosovo lýsti yfir sjálfstæði árið 2008 hélt áfram. Trump forseti sá þá tækifæri til að sanna sig í augum bandarískra kjósenda sem alþjóðlegs sáttasemjara og skipaði sérstakan sendimann í Kosovo. Á liðnu sumri var svo langt komið að fundur hafði verið dagsettur í Washington þar sem áðurnefndur Alexandar Vucic og Hasim Thaci forseti Kosovo áttu að hittast til að ganga frá samkomulagi. Sá fundur var aldrei haldinn þar sem Hasim Thaci var ákærður fyrir meinta stríðsglæpi framda árið 1999, og var hann þar með úr leik á alþjóðlegum vettvangi að sinni. En Trump þurfti á samkomulagi að halda sér til styrkingar í kosningabaráttunni. Úr varð fundurinn sem fyrir var getið og „tímamótasamkomulagið“ var undirritað í Hvíta húsinu 10. september s.l.
Stjórnmálagreinendur sem skoðað hafa „samkomulögin“ tvö segja að þar sé fátt að finna sem réttlæti talið um tímamót. Í stórum dráttum séu ítrekuð atriði sem aðilar höfðu áður samið um en aldrei hrint í framkvæmd svo sem um samstarf í orkumálum og viðurkenningu á prófgráðum háskóla hvors annars. Ennfremur er þar að finna ákvæði á eins konar dulmáli sem virðist þýða að löndin skuldbindi sig til að kaupa ekki hugbúnað frá Kína. Tvö atriði teldust þó til tíðinda. Kosovo féllst á falla frá tilraunum sínum til að afla sér fleiri viðurkenninga á sjálfstæði sínu og að sækja ekki um aðild að neinum alþjóðastofnunum í eitt ár einnig meðan Serbía lýst yfir að hún mynda frysta í eitt ár herferð sína fyrir því að ríki sem viðurkennt hefðu Kosovo drægju viðurkenningu sína til baka. Sú herferð hefur staðið yfir árum saman með þeim árangri að 15 ríki hafa afturkallað viðukenningu sína. En þetta eru smámunir hjá því sem á eftir kom.
Trump forseti upplýsti að Ísraelsríki hefði ákveðið að viðurkenna Kosovo. Í fljótu bragði virtist þetta fela í sér mikinn diplómatískan sigur fyrir Kosovo, en þrjú eru liðin frá því að ríki viðurkenndi Kosovo síðast. En það fylgdi böggull skammrifi. Kosovo mun opna sendiráð í Jerúsakem og Serbía mun flytja sendiráð sitt frá Tel Aviv til Jerúsalem.
Það er kunnara en frá þurfi að segja að sú ákvörðun Trumps forseta árið 2017 að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flytja sendiráð Bandaríkjanna þangað frá Tel Aviv kallaði á harkaleg mótmæli um víða veröld. Hún var talin auka enn á spennuna í Mið Austurlöndum og torvelda frekar allar friðarumleitanir, enda litu bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn á Jerúsalem sem helga borg og sína höfuðborg. Auk þess væri ákvörðunin brot á alþjóðalögum og var þar vitnað til ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 478 frá árinu 1990 um stöðu Jerúsalem.
Allt þetta mál lítur svo út sem Alexandar Vucic og Avdullah Hoti hafi látið veiða sig í gildru og brugðist sinu fólki illilega. Á myndum frá athöfninni í Hvíta húsinu má sjá ráðviltan Vucic, svipur hans og líkamstjáning virtist gefa til kynna að hann vissi hvorki hvað hann væri að fara að skrifa undir né hvar hann ætti að pára nafnið sitt. Hann fór heim til sín tómhentur og niðurlægður. Hvað Avdullah Hoti varðar þá getur hann reynt að bjarga andlitinu með því að benda á viðurkenningu Ísraels en sá „sigur“ gæti reynst Kosovo dýrkeyptur. Fyrirhugað sendiráð í Jerúsalem gæti orðið til þess að múslimaheimurinn snúi baki við Kosovo og ríki sem hafa viðurkennt Kosovo afturkalli hana. Hann kann því hafa kallað yfir sig þá stöðu að viðurkenningum fækki og staða Kosovo veikist frekar en styrkist eftir viðurkenningu Ísraels og stofnunar sendiráðs í Jerúsalem. Auk þess hefur verið bent á að þegar Kosovo sækir næst um aðild að Sameinuðu þjóðunum eða undirstofnunum þeirra verði það landinu ekki til framdráttar að hafa brotið gegn samþykkt Öryggisráðsins.
Samkomulagið setur Serbíu líka í vanda. James Ker-Lindsay prófessor í alþjóðastjórnmálum sem er sérfróður í stjórnmálum á Balkanskaganum hefur bent á að Serbía og helsti bakhjarl hennar í baráttunni gegn sjálfstæði Kosovo, Rússland, haldi því fram að fullveldi Kosovo stangist á við ályktun Öryggisráðsins nr. 1244 frá 1999. þar sem viðurkennd séu yfirráð Serbíu yfir Kosovo og því hafi Serbía þjóðarréttinn sín megin. Það styrki ekki málstað Serbíu að verða sjálf uppvís að því að brjóta gegn ákvörðunum Öryggisráðins (raunar segir umrædd ályktun að Kosovo sé sjálfsstjórnarhérað innan sambandsríkisins Júgóslavíu, ríkis sem ekki er til lengur).Við það má bæta að Serbía hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu og styrkir ekki stöðu sína í aðildarviðræðum með því að rjúfa samstöðu Evrópusambandsrikjanna og flytja sendiráð sitt í Ísrael til Jerúsalem. James Ker-Lindsay hefur lýst „samkomulögunum“ sem „diplómatísku stórslysi“ (e: diplomatic disaster). Annað hvort hefur Vucic látið Trump plata sig upp úr skónum eða hann vill leggja allt í sölurnar til styrkja Trump í kosningabaráttunni. Aðrar rökrænar skýringar finnast ekki á framgöngu hans.
Í raun er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að Alexander Vucic og Avdullah Hoti hafi samið herfilega af sér í Washington. Þeir sem spáðu þvi fyrirfram að „sáttaumleitanir“ Trumps myndu eingöngu snúast pólitíska hagsmuni hans sjálfs höfðu rétt fyrir sér. Trump er hugmyndaríkur þegar hann miklar fyrir kjósendum stórkostlegan árangur sinn sem friðflyjandi og sáttasemjari. Hann segist hafa unnið tvöfaldan sigur. Fyrir sína tilstuðlan hafi nú fyrsta Evrópuríkið, Serbía, viðurkennt Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og jafnframt hafi fyrsta landið í heiminum þar sem múslimar eru í meirihluta gert hið sama. Það eru athyglisverð ummæli. Er ekki Kosovo í Evrópu eins og Serbía? Hvað koma trúarbrögð Albana málinu við? Allir sem nokkuð þekkja til menningar Balkanþjóðanna vita að þeir sækja ekki sjálfsvitund sína í trúarbrögð. Meðal þeirra ríkja árekstralaust tvær kvíslar Íslams, kaþólsk kirkja og rétttrúnaðarkirkja. Geistlegt og veraldlegt vald er kirfilega aðskilið og engir stjórnmálaflokkar starfa á trúarlegum grunni. En kannske felst í þessum ummælum Trumps dulbúin hótun til Kosovo: Þið eruð múslimar og getið ekki gengið að stuðningi okkar vísum. Það er því eins gott fyrir ykkur að makka rétt.
Í lok þessa sjónarspils standa Donald Trump Bandaríkjaforseti og vinur hans Benjamin Netanyahu sem ótvíræðir sigurvegarar. Vucic og Hoti eru viljandi eða óviljandi orðnir meðreiðarsveinar Trumps í viðleitni hans til að hlaða með öllum mögulegum hætti undir Netanyahu. Þeir þurfa nú að glíma við enn fleiri vandamál en fyrir fundinn í Washington og var ekki á bætandi. Þannig vinnur „sáttasemjarinn“ Donald Trump. Króatískur prófessor í alþjóðastjórnmálum, Dejan Jovic að nafni, orðar það svo að Vucic og Hoti fyrir tilstilli Trumps hafi opnað dyrnar fyrir því sem hann kallar miðausturlandavæðingu Balkanskagans, og hann þurfi síst á að halda. Norska Nóbelnefndin hefur stundum tekið skrítnar ákvarðanir en hún mun sennilega ekki veita Trump friðarverðlaunin. Hann getur þá huggað sig við að eftir fundinn í Washington var hann sæmdur æðstu orðu Kosovo fyrir vel unnin störf.
Höfundur er fyrrverandi blaða- og fréttamaður og fyrrverandi starfsmaður fjölþjóðastofnana á Balkanskaga.