Í nýju fjárlagafrumvarpi hefur verið boðuð lækkun á greiðsluþátttöku sjúklinga fyrir heilbrigðisþjónustu með því að bæta 800 m.kr. við fjárlagaliðinn. Þetta er ánægjulegt svo langt sem það nær, en gengur of skammt. Mörkin á þökum í greiðsluþátttökukerfum eru og virðast ætla að verða enn of há ef miðað er við sambærileg kerfi á Norðurlöndum. Fyrir almenna greiðsluþátttökukerfið er hámarksþakið nú 75.802 kr. og fyrir greiðsluþátttökukerfi lyfja er hámarksþakið 62.000 kr. Í ljósi þess að allmargir sem greiða hámarkostnað vegna almenna greiðsluþátttökukerfisins, greiða einnig hámarkskostnað vegna lyfja standa frammi fyrir því að hámarksþak fyrir almenna heilbrigðisþjónustu og lyf eru 137 þúsund krónur á 12 mánaða tímabili. Það er alltof há fjárhæð fyrir þá sem hafa úr litlu að spila..
Nú eru skollin á kreppa og atvinnuleysi á Íslandi. Fleiri og fleiri fjölskyldur hafa miklu minna á milli handanna en áður og almennt hefur kaupmáttur rýrnað. Með nýjum fjárlögum fékk ríkisstjórnin gullið tækifærið að mæta nýjum áskorunum fyrir almenning með stórlækkun á þökum á greiðsluþátttökukerfum í heilbrigðisþjónustu.
Við búum við of mörg mismunandi greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu: Eitt kerfi fyrir almenna heilbrigðisþjónustu, annað kerfi fyrir lyf, þriðja kerfi fyrir sálfræðiþjónustu (reyndar á að setja kostnað við sálfræðiþjónustu inní almenna greiðsluþátttökukerfið), fjórða kerfið fyrir tannlækningar, fimmta kerfið fyrir tannréttingar, sjötta kerfið er tilvísunakerfi fyrir börn og til viðbótar eru fleiri kerfi fyrir aðra þætti heilbrigðisþjónustu (eins og tæknifrjóvganir og lýtalækningar). Nauðsynlegt er að að ráðast í almenna uppstokkun á þessum kerfum og fækka þeim og samræma á þann hátt, að þau verði gegnsærri og skilvirkari líkt og annars staðar á Norðurlöndum. Það væri í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en í henni kemur fram að stefnt skuli að því að gera greiðsluþátttöku sjúklinga gegnsærri og skilvirkari. Ekkert hefur hins vegar bólað á framkvæmdum þó komið sé að lokum kjörtímabilsins. Fyrsta skrefið er að hafa tvö eins uppbyggð greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu, annars vegar eitt fyrir almenna heilbrigðisþjónustu (þar inni yrði öll heilbrigðisþjónusta sem er í greiðsluþátttökukerfinu, meðferð og þjálfun) og hitt fyrir lyf. Í næsta skrefi mætti huga að sameiningu þessara kerfa með einu lágu hámarksþaki fyrir heilbrigðisþjónustu hvort sem um er að ræða lyf eða aðra heilbrigðisþjónustu og mun lægra þaki fyrir börn og lífeyrisþega.
Í Svíþjóð er heilbrigðisþjónustan nánast gjaldfrjáls öllum sem eru yngri en 20 ára og í Danmörku er kostnaður við komu til heimilislæknis og til bráðaþjónustu gjaldfrjáls og þar er líka virkt tilvísunarkerfi. Í þessum löndum eru hámarksþök í greiðsluþátttökukerfum miklu lægri en hér á landi.
Ljóst er að lækkun á hámarksþaki á greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu er skref í rétta átt. Aftur á móti er hætt við að ekki sé nógu langt gengið og að hámarksþakið verði enn alltof hátt. Það mætti líka stefna að því að gera opinbera heilbrigðisþjónustu gjaldfrjálsa, þannig að felld verði niður gjöld fyrir m.a. komur og rannsóknir á opinberum heilbrigðisstofnunum. Til að ná því markmiði þarf meira fé í lækkun greiðsluþátttöku almennings í heilbrigðiskerfinu og má minna á að á sínum tíma skrifuðu tæp 90 þúsund Íslendingar undir áskorun þess efnis. Það er ósanngjarnt og andstætt norrænni velferð að deila aukum kostnaði á sjúklinga í stað þess að stærri hluti heilbrigðiskostnaðar sé dreift á alla skattgreiðendur eins og gert er á hinum Norðurlöndunum.
Höfundur er heilsuhagfræðingur.