Móðir mín var sérlega kvik og líkamlega hraust kona sem tók af skarið og lauk því sem hún lagði upp með. Almáttugur hvað röggsemin gat verið rosaleg (alveg óþolandi stundum). Á einu augabragði varð mamma samt varanlegur langlegusjúklingur. Þar með þurfti hún að reiða sig jöfnum höndum á heilbrigðisstarfsfólk og aðstandendur. Þess utan, rafknúinn hjólastól.
Í kjölfar þess augabragðs fékk hugtakið áfall dýpra inntak en fyrr. Stundum er „áfall“ gengisfellt í daglegri umræðu og það lagt að jöfnu við vonbrigði eða viðbrigði. Kannski má skilgreina áfall sem óvænta angist án vitneskju um hvort, hvenær og hvernig við losnum undan henni. Fyrirvaralaust afgerandi og óafturkræft líkamstjón er í öllu falli áfall. Þá fylgir því óheyrilegt álag að vakna til nýrrar tilvistar sem notandi rafknúins hjólastóls. Á sama tíma verða til aðstandendur notanda rafknúins hjólastóls og sannast sagna er það ekki mikið skárra. Á bakvið hvert áfall er aðdragandi með sínum persónulegu sögum, því þar stendur fólk, aðstandendur. Veröldin er þrengri en fyrr og fólkið berskjaldaðra, um leið og meira mæðir á þeim.
Með öðrum orðum: Þegar fótum er (bókstaflega) kippt undan einni finna þau sem að baki standa einnig fótum kippt undan sér, á sama tíma og þau þurfa að standa styrkari fótum en nokkru sinni fyrr.
Áfallasaga (kvenna)
Nú er lag að tala um þetta. Nú er á hverra vitorði hve viðamiklar rannsóknir hafa verið framkvæmdar, og standa enn yfir, um tengsl áfalla við líkamlega kvilla, sérstaklega hjá konum. Niðurstöður hafa verið afgerandi. Samkvæmt þeim geta áföll og sálrænt álag sett mörg kerfi líkamans úr skorðum, má þar nefna meltingarkerfi og hormónastarfsemi.
Kannski er einmitt núna lag, þegar heimurinn allur er í einhvers konar áfalli og marglaga kreppa í aðsigi. Því kannski eru bjargráðakerfin okkar núna undirlögð fremur þröngu „málefni“ um leið og sálrænar hliðarverkanir eru ófyrirséðar.
Bjargráðaþættir
Frábært starfsfólk er eitt og aðbúnaður annað. Ekki síður mikilvægt, sjúklingar eru eitt og aðstandendur annað. Auðvitað viljum við öll huga að öllu þessu.
Umliðin ellefu ár frá örkumlum mömmu hef ég átt samtöl við allnokkra sem búa að svipaðri reynslu og oft ber niður á sama stað. Frábært starfsfólk er nefnilega bara eitt. Það hefði mátt halda betur utan um okkur aðstandendur í erfiðri stöðu. Í áfalli erum við ekki skýr og röng viðbrögð geta kallað á verri, smámál öðlast dýpra vægi en efni standa til og mikilvægari þættir misfarast. Í áfalli verður björgin að vera, nema hvað, bjargföst.
Við vitum alveg, og rannsóknir staðfesta, að það getur verið beinlínis lífshættulegt að verða fyrir andlegu áfalli, eða yfir höfuð því að fá vondar fréttir. Það er mjög mikilvægt að taka markvisst utan um aðstandendur og fylgja eftir.
Annars er viðbúið að enn verr fari.
Höfundur er verkefnastjóri hjá Háskóla Íslands.