Í fyrsta sinn í sögu Norðurlandaráðs fer árlegt þing ráðsins, sem halda átti í Hörpu í lok október, fram stafrænt. Þar verða mörg mikilvæg málefni norrænu ríkjanna í brennidepli. Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir starf Norðurlandaráðs að António Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, mun taka þátt í sameiginlegum stafrænum fundi Norðurlandaráðs um Covid-19 í þingvikunni þann 27. október næstkomandi. Þá fáum við Norðurlandabúar innsýn inn í hvaða áskoranir alheimsfaraldurinn hefur haft í för með sér fyrir alla heimsbyggðina. Áskoranir sem ekki enn sér fyrir endann á.
Stofnun SÞ og norræn hugmyndafræði
Sameinuðu þjóðirnar fagna 75 ára afmæli á þessu ári og hafa á undanförnum áratugum efnt til umfangsmestu samræðu sem um getur um alheimssamvinnu til að móta betri framtíð í þágu allra jarðarbúa. Starfsemi samtakanna er samofið þeirri hugmyndafræði sem Norðurlandaráð byggir á en það voru einmitt Danir og Norðmenn sem stofnuðu Sameinuðu þjóðirnar árið 1945.
Þétt samstarf Norðurlanda á vettvangi SÞ
Sú tengin og tengsl sem hefur verið milli norrænu landanna og Sameinuðu þjóðanna frá upphafi hefur mótað starf þeirra á umfangsmikinn hátt. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlandanna halda reglulega fundi þar sem málefni Sameinuðu þjóðanna eru meðal annars til umræðu. Þar að auki fjalla löndin um málefni Sameinuðu þjóðanna á vettvangi Norðurlandaráðs, í beinum samskiptum milli ráðuneyta og einnig milli frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndunum. Enn fremur eru starfandi þingmannasamtök Norðurlanda þar sem málefni Sameinuðu þjóðanna eru rædd. Ríkur vilji er til að viðhalda þeirri sterku ímynd sem Norðurlöndin hafa skapað sér sem samheldinn ríkjahópur innan Sameinuðu þjóðanna sem vinnur meðal annars að bættum mannréttindum og jafnrétti.
Hin norræna sýn og vegferð heldur áfram að styrkjast í samvinnu á alþjóðavettvangi og þar er samráð við Sameinuðu þjóðirnar mikilvægt til að viðhalda tengslum og láta verkin tala.
Höfundur er forseti Norðurlandaráðs og þingmaður Framsóknarflokksins.